Einstaklega einfaldur og góður pastaréttur, fenginn frá Nigellu Lawson. Fyrst uppskriftin og svo spurningin: Vodka pasta, ertu geðveikur?

Fyrir 2-3 (fleiri ef mikið meðlæti)

500 g pasta (penne)

1 Lítill laukur
1 Hvítlauksrif
Olía
Salt
1 dós tómatar
1 matskeið rjómi

60 ml vodka
2 klípur smjör (ekki smjörvi, ekki smjörlíki, heldur smjör)

Parmesan ostur


Pastað soðið samkvæmt leiðbeiningum á pakka (8-12 mín í miklu, söltu vatni með smá olíu)

Laukurinn og hvítlaukurinn eru skornir smátt og mýktir upp í olíu, við lágan hita. Stráið salti yfir. Laukurinn á ekki að brúnast en vera orðin mjög mjúkur. Hellið tómatdósinni yfir og látið krauma við vægan hita í 10-15 mín. Bætið rjómanum við og takið af hitanum.

Þegar pastað er soðið, hellið vatninu af og setið það aftur í pottinn. Hellið vodkanum yfir og setið smjörið útá. Hrærið.

Blandið saman tómatblöndunni við pastað (hellið pastanu á pönnuna með blöndunni eða blöndunni í pottinn). Hrærið þannig að allt pastað sé vel þakið í tómötum, smjöri og vodka.

Skellið þessu á borðið ásamt parmesan osti og rifjárni og njótið. Salat er alltaf gott með pastaréttinum. Vatn og hvítvín eru bestu drykkirnar með þessum rétti.

Ef einhver vill breyta þessum rétti aðeins er hægt að bæta beikoni eða þurrkuðum chili-flögum við tómatblönduna.


Nú Vodka Pasta er hinn yndislegasti réttur og hentar við öll tækifæri, Nigella er með þetta í veislubókinni sinni sem dæmi um rétt sem auðvelt er að bjóða upp á fyrir marga. En afhverju að setja vodka í pastarétt? Ég er ekki mikið að staupa mig af vodka, enda ekki sérlega bragðgóður drykkur. En vodkað gefur réttinum mikla dýpt sem rétturinn hefði ekki ef vodkanu væri sleppt. Þannig að nei, ég get ekki mælt með að vodkanu sé sleppt eða því skipt út fyrir eitthvað annað.

Nú er því ekki annað að gera en að stelast í vínskápinn og næla sér í smá lögg af vodka!