Eins og svo margir aðrir réttir kom flatbakan (pizzan/pitsan) ekki upprunalega frá landinu sem er frægt fyrir hana. Heimildir um fyrstu flatbökuna segja að hún hafi verið bökuð af Forngrikkjum sem fyrstir bökuðu stórt, kringlótt, flatt brauð og settu ofan á það ólífuolíu, krydd, kartöflur og margt annað. Flatbökuhugmyndin fluttist til Ítalíu á 18. öld, flötu brauðin, sem kölluð voru pizzur, voru seld á strætum og mörkuðum. Ítalir notuðu fyrstir tómata á flatbökur og þess vegna eru þær sem við borðum og njótum í dag, kenndar við þá.

Það gerðist svo, líklega árið 1889, að Margherita, drottning Ítala, ferðaðist vítt og breitt um landið ásamt manni sínum, konungnum Umberto I. Hún sá mikið af fólki, aðallega smábændur, borða skrítið flatt brauð. Fyrir forvitnis sakir smakkaði drottningin á þessu brauði og fannst það ákaflega gott. Svo fór að hún borðaði mikið af því í hvert sinn er hún var úti meðal þegna sinna. Margherita jókst í vinsældum meðal almúgans fyrir þetta uppátæki sitt, en hneykslun ríkti meðal hirðarinnar þar sem ekki þótti sæma drottningu að borða bændamat. Þrátt fyrir það elskaði Margherita flatbökur og ákvað að taka málin í sínar hendur. Hún skipaði flatbökukokknum Rafaelle Esposito að baka handa sér flatbökur og koma með þær í konungshöllina.

Til heiðurs drottningunni bakaði Rafaelle sérstaka flatböku. Hann setti á hana tómata, mozarellaost og ferskt basil, svo að flatbakan sýndi ítölsku fánalitina, rauðan, hvítan og grænan. Þetta varð uppáhalds flatbaka drottningarinnar og þegar það spurðist út, varð Margherita enn vinsælli meðal Ítala. Flatbakan var nefnd til heiðurs drottningunni Pizza margherita, hún lifir enn þann dag í dag og hefur breiðst út um allan heim.

Flatbökubakstur þekktist lengi vel aðeins meðal ítalskra innflytjenda í Bandaríkjunum, og siðurinn breiddist ekki út fyrr en eftir seinni heimstyrjöldina. Margir bandarískir og evrópskir hermenn smökkuðu flatböku í fyrsta skipti í stríðinu, og var það ást við fyrsta smakk. Síðan hefur flatbakan farið sigurför um heiminn. Í dag er haldinn alþjóðlegur flatbökudagur, 9. febrúar, og á vef Heimsmetabókar Guinness stendur að stærsta flatbaka í heimi hafi verið bökuð í Norwood í Suður-Afríku 8. desember árið 1990. Hún var 37,4 metrar í þvermál.

Nafnið pizza er tilkomið af fugli sem heitir skjór og Rómverjar kölluðu pica. Fjaðrir hans eru tvílitar og þótti litaskrúðið minna á áleggið á flatbökunni. Auk þess er skjórinn haldinn þeirri áráttu að safna hinum og þessum hlutum og þótti sú hegðun minna á hvernig flatbakan er búin til. Ítalir drógu því nafnið pizza af pica.
Tekið af Vísindavef Háskólans
Kveðja Steinar Orri.