Jólabjórinn 2003 Það er alltaf spennandi að fá nýjar bjórgerðir til að smakka, enda allt of lítið um spennandi nýliðun í úrvali ÁTVR. Jólabjórarnir eru því velkomnir gestir, jafnvel fyrir einhvern eins og mig, sem er ekkert spenntur fyrir jólastússi. Frá því að þessir bjórar komu í sölu 20. nóvember hef ég náð að smakka þá nánast alla og því tilvalið að taka hvern og einn fyrir í grein og gefa þeim einkunn. Byrjum á þeim íslensku og vindum okkur svo yfir í þá dönsku, en ekki er boðið upp á jólabjóra frá öðrum löndum.


* Egils Jólabjór
330ml glerflaska, verð 163 kr. Styrkur 4,8%

Þessi kom mér verulega á óvart þegar ég fékk að smakka hann á kynningu hjá Egils. Bjórfróðir kunningjar mínir voru mér ekki sammála um ágæti hans og þegar ég reyndi hann aftur stóð hann ekki undir fyrstu einkunn sem hann fékk frá mér. Samkvæmt bruggmeistara Ölgerðarinnar er þessi bjór bruggaður líkt Märzen bjórunum þýsku. Hann er tiltölulega dimmgullinn að lit með litlum haus, maltbragðið nokkuð brauðkennt og þokkalega biturt eftirbragð. Humlarnir virðast njóta sín betur í þessum en flestum Egils bjórunum. Á heildina litið óspennandi miðlungsbjór.
Mín einkunn: 2,6 (af 5 mögulegum)


* Egils Malt Jólabjór
330ml glerflaska, verð 189 kr. Styrkur 5,6%

Finnst þér Egils Malt gott? Þá gæti þér líkað við þennan, en þó mér finnist Maltið gott til síns brúks, skil ég alls ekki hvað heillar fólk við Malt Jólabjórinn. Flestir sem smökkuðu þennan ásamt mér voru á því að þetta væri frábær bjór. Hann er einna helst líkur sætu státöli, er mér tjáð, og mikið af auka- og bragðefnum notað í hann, t.d. lakkrís. Líkt og Egils Malt er þetta fallegur drykkur, en nánast án froðu nema fyrst eftir að honum er hellt. Hann er bragðlítill og sætur með eitthvað aukabragð í bakgrunni sem ég gat ekki borið kennsl á. Ef þig langar að verða fullur af Malti er þetta drykkurinn fyrir þig, en sem bjór er Malt Jólabjór frekar slappur. Ég er helst hissa að ég gaf honum ekki lægra, eftir á að hyggja.
Mín einkunn: 2,1


* Víking Jólabjór
330ml glerflaska, verð 169 kr. 500ml dós, verð 219kr. Styrkur 5,2%

Einhver hefur sett inn á www.ratebeer.com að þessi bjór sé bruggaður eins og amerískur dökkur lager, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti. M.v. lýsingu á stílnum gæti þetta staðist. Þessir bjórar eiga að vera með litlu humlabragði og sömuleiðis maltbragði þrátt fyrir að vera dekkri en venjulegur lager. Víking Jólabjórinn er alls ekki dökkur, frekar amber gylltur. Áberandi loftbólur í froðu sem deyr fljótlega niður og örlítil humlalykt. Bragðlítill og nokkuð vatnskenndur, óspennandi og í raun örlítið ógeðfelldur.
Mín einkunn: 1,8


* Albani Julebryg - Blålys
330ml glerflaska, verð 219 kr. Styrkur 7%

Albani jólabruggið sker sig úr þessum hópi. Hann er bruggaður í Bockstíl og 7% áfengisinnihaldið er eftir því, hæst af öllum jólabjórunum núna. Þetta er líka lang mest spennandi bjórinn í þessum hóp. Þessi rauðleiti bjór felur sjö prósentin sín nánast jafn vel og belgískur munkabjór. Sætur maltkeimur endar í örlítið súru eftirbragði. Nokkuð óvenjulegur bjór miðað við það sem gerist og gengur hérlendis og því vel þess virði að kynna sér hann. Ef einhver þessara bjóra getur komið mér í jólaskap er það Albani.
Mín einkunn: 3


* Ceres Royal X-Mas Blå
330ml glerflaska, ekki skráður á vefsíðu ÁTVR (http://www.atvr.is) og því vantar verðið. Styrkur 5,8%

Ásamt Tuborg jólabjórnum er þetta eini pilsnerinn í hópnum. Jólalegur bjór að sjá, dökkur og rauðleitur, en með lítilli froðu. Bragðið er því miður aðallega af pappa, ásamt maís og smá karamelu. Mjög óspennandi bjór sem sýnir verstu hliðar aukaefnanotkunnar við bruggun.
Mín einkunn: 1,8


* Faxe Christmas
1000ml dós, verð 379 kr. Styrkur 5%

Þennan hef ég ekki enn smakkað. Hann kemur eingöngu í líters dós og þar sem ég er ekki hrifinn af þess háttar ílátum óar mig við að borga 379 krónur bara til að smakka. Fyrri reynsla, þó takmörkuð sé, af Faxe hjálpaði ekki. Faxe bruggar þennan í amberöl stíl.
Mín einkunn: ekki smakkaður


* Tuborg Julebryg
330ml glerflaska, verð 189 kr. Styrkur 5,6%

Af sumum sagður besti Tuborg bjórinn. Mikil froða við hellingu, en deyr fljótt út. Liturinn er fallega amber gullinn og ætti að hjálpa jólaskapinu að komast í gírinn. Lyktin kemur á óvart með nokkrum ávexti, sem minnir á belgískt munkaöl, ristuðu malti og uppþvottavatni. Lítið af ristaða maltinu sem ég bjóst við í bragðinu og hann verður fyrst áhugaverður þegar eftirbragðið kemur fram, aðallega humlar ásamt karamelu kannski. Ekkert sérstakt, en allt í lagi.
Mín einkunn: 2,6


Því miður var aðeins einn þessara bjóra sem reyndist áhugaverður; Albani Julebryg. Ég held samt að ég eigi varla eftir að ná mér í kassa af honum fyrir jólin. Ef bjór til að koma manni í hátíðarskap er það sem fólk sækist eftir myndi ég frekar benda á einhver dökk öl. Það eru ágæt dökk belgísk Trappistamunkaöl fáanleg í ÁTVR, eins og t.d. Westmalle Dubbel og Chimay Rouge og Bleu (undir nafninu Reserve í 750ml flöskunum sem fást hér). Mín ráðagerð er að ná mér í þann síðastnefnda til að prófa með hamborgarahryggnum á aðfangadag.

Heimildir:
http://www.atvr.is
http://w ww.ratebeer.com