Sæl og blessuð.
Í gær var ég staddur í verslun ÁTVR í kópavogi, og var þar búinn að næla mér í pela af hinu ágæta Gordon´s Dry Gin, sem ég ætlaði mér að setja útí tonic, og bæta við vænni skvettu og lime, svona eins og ég geri alltaf þegar ég kaupi gin.
En fyrir nokkrum dögum var ég að fletta upp á netinu, og var þar að skoða uppskriftir fyrir einhverjar ginblöndur, þar á meðal uppskrift að hinum geisivinsæla Martini.
Mig hefur ávallt langað að prufa þennan drykk, enda mikill sælkeri þegar kemur að áfengum drykkjum. Ég hafði nú samt aldrei fengið mig til þess, því að það var innihald í drykknum sem ég hafði aldrei séð í ríkinu, og þegar ég fletti því upp á www.atvr.is þá kom ekkert upp.
Dry Vermouth hét þetta innihald.
Ég var að ganga framhjá sterka áfenginu, í átt að bjórnum, þegar ég rek augun í stóra stafi uppá vegg, og þar stendur “Vermút”. Ég leit niður og sá þar þónokkrar flöskur, og það fyrsta sem ég rak augun í var orðið “Martini” framaná flöskunni. Ég skoðaði þessar flöskur aðeins betur, og sá að þar stóð litlum stöfum, “Vermouth” á þeim miðjum.
Ég hló ofurlítið innra með mér, og skellti flöskunni í körfuna, enda á mjög viðráðanlegu verði, aðeins 890 kr. Extra Dry Vermouth varð fyrir valinu.
Þegar heim var komið, var kominn tími til að gera nokkrar tilraunir. Bragða sig áfram. Ég skellti gininu í frystinn, og vermouth-num í ísskápinn, og beið.
Þegar vínið var orðið sæmilega kalt, þá dró ég fram tvö glös, bauð pabba að þróa drykkinn með mér.
Fyrst prufuðum við þetta bara í skotglösum, og sötruðum úr þeim, vildum ekki eiga í hættu á að búa til blöndu sem var ódrekkanleg og þurfa að hella heilu glasi.
Skotglösin voru með 5 línum á, skreytt með röndum. Ég sá mér leik á borði og notaði þetta til að miða saman hlutana á drykknum, og byrjaði á 3 hlutum Vermouth, 2 hlutum Gin. Pabba fannst þessi blanda ágæt, en ég prufaði meira gin, og skellti 3 hlutum Gin, 2 hlutum Vermouth, og sat þar sáttur við.
Þetta sötruðum við í stutta stund, og ákváðum að setja þetta í almennileg glös og fá okkur meira.
Seinna um kvöldið endaði ég í mannfagnaði, góðvinur minn átti afmæli, og ákvað ég að taka flöskurnar með og bjóða honum á þessum gæðadrykk.
Fyrir mikla tilviljun hafði hann einmitt fengið kokteilhristara í afmælisgjöf, og þegar ég dró upp ginið og vermútinn og útskýrði hvað hann ætti í vændum krafðist hann þess að fá hann “shaken, not stirred” og skellti ísmolum ofaní hristarann. Það vildi mjög heppilega til, að þessir hlutar sem ég blandaði í heima, pössuðu akkúrat, 5 hlutar = 5cl drykkur.
Ég hristi drykkinn örsnöggt, og hellti honum í glas, og bragðaði..
Þetta var ógeðslegur martini. Hann var orðinn þunnur útaf klökunum og var bara allskostar ekki að virka.
Ég hellti þessu og bjó til annan, hrærðann í þetta skipti. Sem betur fer var ginið ennþá ískalt og gott, og þessi martini tókst fullkomlega.
Ég nældi mér í tannstöngul og skreytti með sítrónuberki, og hóf að blanda fleiri drykki.
Kvöldið tókst ágætlega, það voru reyndar ekki allir jafnhrifnir af þessu, og í fyrsta skipti sem menn brögðuðu á þessu, þá kom ógeðissvipur á það, en það skellti sér svo í annan sopa.
Martini..
Martini drykkurinn sem ég blandaði var samsettur úr Gordon´s Dry Gin og Extra Dry Vermouth, sjálfum finnst mér betra að fá hann frekar bragðmikinn og set því meira gin en vermouth, en hlutarnir á því sem flestir voru sáttir við var 3cl vermouth, 2cl Gin.
Drykkurinn sjálfur er mjög stílhreinn, bragðið sterkt og einfalt, og miklir möguleikar á að búa til margvíslegar tegundir af þessum drykk.
Niðurstaða..
Martini er komið í mína bók sem Guðaveigar.
Mig grunar að ginið sem ég keypti í drykkinn sé e.t.v ekki það besta sem völ er á í martini, og hefði ég ekkert á móti því að prufa almennilegt gin eins og Tanqueray eða Bombay Sapphire. Sapphire gæfi drykknum fágaðann lit og fyllra bragð, og hugsa ég að ég prufi það næst.
Þó er ekki ráðlagt að drekka of mikið af þessum drykk í einu, 2-3 á kvöldi er ágæt tala að mínu mati.