Einu sinni kallaði fólk þetta ávaxtabjór, en vonandi eru flestir farnir að skilja muninn á bjór og gosdrykk með áfengi. En það er einmitt það sem margir sækja helst í þegar kemur að áfengum drykkjum. Ég verð að játa lítinn skilning minn í þessum efnum, mér finnst þetta vera eins og gosdrykkur og lítið gaman að drekka þetta, en höfuðmálið er að þetta eru rándýrir drykkir.
Tökum hinn vinsæla Bacardi Breezer sem dæmi. Flöskurnar eru einungis 275ml en kosta heilar 289 krónur. Það gerir 1051 krónu á lítrann. Og ég er að væla yfir að uppáhaldsbjórinn minn sé dýr þegar 330ml flaska kostar undir 200 krónum.
En hví í ósköpunum er þetta svona dýrt? Þetta er auðvitað ekki annað en gosdrykkur blandaður áfengi og í tilfelli Bacardi Breezer er áfengið romm. Það getur ekki verið að þetta sé svona dýrt í framleiðslu, svo af hverju ekki að prófa að búa til sinn eigin áfenga gosdrykk?
Þrjú atriði hljóta að vega gegn því; fyrirhöfn, geymslumáti- og tími og bragð. Það er vesen að blanda eitthvað sem er hægt að kaupa út úr búð, það er vesen að finna ílát og við vitum ekki hve lengi þetta geymist eftir blöndun. Síðast en ekki síst erum við að vaða blindandi inn í tilraunamennsku sem gæti endað með því að svíkja bragðlaukana. Aftur á móti hlýtur verðið að vera stór hvatning.
Reiknum snöggvast út hvað við þurfum að kaupa af áfengi til að byrja að setja saman okkar eigin blöndu. Það liggur beinast við að taka fram flösku af Bacardi Carta Blanca rommi til að byrja að blanda, en 700ml flaska kostar 3090 krónur. Áfengis innihaldið er 37,5% en í Bacardi Breezer 5%. En hví að binda sig við romm? Við ættum að geta náð þokkalegum árangri með því brennivíni sem við kjósum ef vilji og smá heppni/hæfileiki er fyrir hendi. Ég ætla að taka fyrir vodka. Engin sérstök ástæða, en hann er tiltölulega ódýr og í svona blandi skiptir varla höfuðmáli hvað brennivínið er.
Tökum 1l flösku af Absolut vodka fyrir sem grunnefnið í fyrirætlaðri uppskrift. Skv. heimasíðu ÁTVR inniheldur hún 40% áfengismagn og kostar 4190. Einfalt og þægilegt með rúnnaðar tölur fyrir magn og vínanda og svo við séum ekki að gerast of bjartsýn þá er þetta ekki ódýrasti vodki í “ríkinu”. Miðað við að lokaafurðin innihaldi 5% áfengismagn myndi lítri af Absolut duga í heila 8 lítra af áfengu gosi. Hvað þarf þá til viðbótar?
Okkur vandar augljóslega kolsýrt vatn og bragðefni. Þeir sem eiga Soda Stream gætu séð sér leik á borði, en sódavatn út úr búð gæti einnig dugað eða jafnvel einhver gosdrykkur. Megnið af þeim sjö áttundu sem eftir eru þyrftu væntanlega að vera í formi kolsýrðs vatns með einu eða öðru móti. Í fljótu bragði sé ég tvær leiðir; annarsvegar að finna tiltölulega sterk bragðefni ásamt sódavatni, eða gosdrykk ásamt vott af bragðefnum.
Fyrri leiðin gæti tekist með t.d. sódavatni blönduðu með hreinum appelsínusafa og djúsþykkni, ef appelsínubragð er það sem sóst er eftir. Auðvitað þyrfti að fullkomna hlutföll og finna önnur efni til að bæta við, en ég held að hugmyndin sé alls ekki fráleit. Seinni leiðin aftur á móti gæti t.d. þýtt það að blanda saman Egils Grape, hreinum appelsínusafa og djúsþykkni. Útkoman yrði jafnvel ekki ólík Bacardi Breezer Orange gæti ég ímyndað mér! Hugsanlega gæti verið sniðugra að blanda saman Egils Grape og sódavatni til að jafna út bragðið samt.
En hver yrði þá kostnaðurinn við að framleiða þessa átta lítra af áfengu gosi? Gróflega séð getum við byrjað á 4190kr. fyrir vodka. Segjum 400kr. fyrir tvo lítra af hreinum appelsínusafa (ætti að vera auðvelt að fá það mun ódýrara), 3 lítrar af Egils Grape kosta varla meira en 800 og tveir af sódavatni í 0,5l flöskum kannski 600 í mesta lagi. Þá eru komnir átta lítrar, en blandan yrði harla bragðlítil held ég, svo við bætum við einum brúsa af appelsínuþykkni sem kostar varla meira en 300, bætt út í eftir smekk.
Heildarkostnaður er þá 6290 krónur, MJÖG gróflega reiknað, eða um 787 krónur á lítra. Þá munar ekki nema rúmlega 260 krónum á lítra m.v. Bacardi Breezer, en hagsýnir sjá snarlega að það er hægt að ná verðinu verulega niður á blöndunni sem ég lagði til. Þess fyrir utan geymist vodka nánast endalaust og önnur efni er auðvelt að fá í smáum einingum. Þetta gæti því orðið að hentugri bollu jafnvel og fiktið við að blanda þetta gæti orðið besta skemmtun. Tölum ekki um að maður getur búið til eigin uppskriftir eftir því hvaða bragðtegundir mann langar í.
Niðurstaðan er því væntanlega að sparnaður er ekki mikill m.v. fyrirhöfnina, en spurningin að lokum hlýtur að vera, hví er áfenga gosið svona dýrt út út búð?