Það hnussaði í pabba mínum þegar ég mætti í lambalærisdinner hjá honum og konu hans í kvöld. Ástæðan var að hann bauð mér rauðvín með matnum og ég svaraði að bragði “æ, ég hefði bara átt að koma með pilsner með mér.”
Þetta þótti nú ekki merkilegur drykkur og þurfti fátæki námsmaðurinn sem hafði ekið milli bæjarfélaga í von um frítt fóður að velja á milli rauðvíns og tilheyrandi veseni með heimför og bifreiðir eða sykurvatns að nafni Sinalco.
Auðvitað var vatn í boði, en þar sem mér þykir vatnið í Neðra Breiðholti (eða bara “Neðra” eða “Harlem” eða “Gettóið” eins og ég kalla það oftar) þar sem ég bý ekki gott, hef ég gleymt þeim góða vana að drekka vatn. Þess fyrir utan langaði mig ekki í einfalt H2O með bragðmiklu lambalæri!
Þannig að sykrað ropvatn þurfti ég að sætta mig við með ljúffengri steikinni. En ég veit betur næst, ég tek bara með mér dós af pilsner!
Pilsner er nefnilega þeim kostum búinn að maður getur óhræddur (nema maður sé enn meiri hænuhaus en ég er!) drukkið stóra dós og ekið síðan bifreið. Auðvitað bragðast þetta ekki jafn vel og bjór af betri gerðinni, en ég skal segja ykkur að með aldrinum er ég orðinn sérvitrari á bjórinn. Flestur bjór er bragðlítill og óspennandi og hví að slokra þannig með öllum ókostum sem fylgir? Ég drekk nefnilega bjór vegna bragðsins mun frekar en vegna áhrifanna.
Reyndar er þetta sér-íslensk málvilla að kalla léttöl sem inniheldur að hámarki 2,25% vínanda pilsner. Pilsner er ljós bjór sem fyrst var bruggaður á 19. öld og náði strax fádæma vinsældum. Gott dæmi um vinsælan pilsner er Carlsberg með sín 4,6% vínanda, en ég held ég fari ekki með rangt mál þegar ég segi að pilsner og lagerbjór séu eitt og það sama.
En höldum okkur við rangnefnið pilsner um þennan drykk sem getur verið merkilega bragðgóður, þó léttöl væri líklega betra orð. Almennt, ef ekki alltaf, er pilsner of mildur og skortir fyllingu. Þrátt fyrir það getur hann verið merkilega bragðgóður og sérstaklega með mat. Ég mæli t.d. eindregið með pilsner með tælenskum mat enda hentar líka mildur lager bjór frábærlega með krydduðum og bragðsterkum réttum. Að sama skapi væri ég hissa ef pilsner væri ekki mjög fínn með grilluðu svínakjöti og mér finnst bátur hjá Nonna langbestur ef það er flaska af Egils Pilsner með.
Fyrir utan að vera góður staðgengill bjórs er pilsner líka tiltölulega ódýr og ef maður er naskur og verslar hann í ódýrari stórmörkuðum getur hálfs lítra dós kostað allt niður í hér um bil 60 krónur. Það kæmi mér líka verulega á óvart ef pilsner, bruggaður úr malti og humlum, væri ekki tiltölulaga hollur drykkur m.v. það sem við látum venjulega ofan í okkur. Það er ekki þetta gífurlega magn sykurs eða sætuefna ásamt öllum gerviefnunum sem er að finna í gosi.
Og ef maður er orðinn þreyttur á leiðinda leigubílakostnaði, þynnku og því sem fylgir oft djammi, er góður kostur að fá sér bara pilsner. Ef djammað er lengi ættu tvær flöskur að vera innan marka svo maður þarf ekki að sulla í annars ágætu sódavatni allt kvöldið. Á mörgum skemmtistöðum er hvort eð er ekki boðið upp á bjór sem er mun betri en þokkalega góður pilsner!
Ég skora á bjórunnendur sem eru orðnir þreyttir á gosþambi þegar ölvun er ekki leyfileg að gefa pilsnernum séns. Félagar ykkar eiga eftir að gera grín að ykkur og gretta sig, en hvað vita þeir?
Fyrir þá sem hafa ekki reynslu af hinum mismunandi tegundum væri ekki úr vegið að minnast á skárri gerðir pilsners. Sjálfur er ég einna mest fyrir Bear léttölið sem fæst oft á sanngjörnu verði í 10/11 og stundum Bónus. Carlsberg er líka prýðilegur ásamt Egils Pilsner. Egils Pilsner er þó mun betri úr flösku því hann er mjög mildur og bragðið viðkvæmt. Enda er Egils hugsanlega sá besti þegar maður ber saman pilsner í gleri. Víking er líka oft að finna í gleri á skemmtistöðum og er vel boðlegur og sama má segja um Tuborg léttöl, þó mér finnist þessir tveir síðri þeim þremur fyrst nefndu.
Hefur þú tekið pilsner áskoruninni?