Ég var orðinn nokkuð þreyttur á úrvali verslana í nágrenninu þar sem ég bý. En þar sem margir sem ég þekki hafa hrósað Melabúðinni ákvað ég að koma við þar á leið heim úr skólanum og sjá hvort hún væri betri en það sem ég hef fengist að venjast að undanförnu.
Ég verð að viðurkenna að stór ástæða fyrir nýjungagirni minni var sú að góðkunningi minn hafði sagt að þarna fengist góð ribeye steik og á góðu verði. Grillveður var til staðar, konan í kvöldvinnunni og ég með þetta fína grill sem þurfti að nota áður en vetur konungur drottnar. Freistingin var ómótstæðileg og ég labbaði út með minn poka og í honum 400 grömm af ribeye sem kostuðu 720 krónur. Hæfilegur skammtur fyrir horrengluna mig og verðið ekki ósanngjarnt.
Þegar heim kom hófust tilfæringar við að gera meðlæti og sósu. Þemað var einfaldleiki, eða jafnvel bara kæruleysi, því kokkurinn (ég) sá þarna tækifæri til að grynnka á afgangsrauðvíni frá nýliðnu þrítugsafmæli. Grill var ræst, ofn var hitaður og hafið að malla Toro piparsósu. Tappað var af Frontera rauðvínskassanum í glas og skömmu síðar fór slurkur í sósuna. Restin af meðlætinu fólst í McCain 5 mínútna frönskum - ef þetta er nógu gott fyrir frakkana er þetta nógu gott fyrir mig!
Uppáhaldspannan mín var svo tekin fram og ribeye sneiðarnar tvær teknar fram og kryddaðar. Með einfaldleikan í fyrirrúmi langaði mig samt að gera samanburð, svo önnur steikin var krydduð með McCormick Grill Mates Montreal Steak Seasoning áður en hún ásamt systur sinni lentu á heitri teflonpönnu þar sem gróflega 30 sek. á hlið sáu um að loka steikunum. Safaríkt skal það vera. Hin steikin var svo söltuð lítillega á hvorri hlið eftir að þeim hafði verið lokað. Á grillinu yrði svo stráð á hana svörtum pipar.
Fram á svalir var svo arkað og logi grillsins fékk að leika um hvora hlið á steikunum í 3 mínútur og tæplega það ef eitthvað var. Þetta nánast smellpassaði, því þegar steikurnar voru tilbúnar var sósan byrjuð að malla og steikurnar fengu að bíða undir álpappír meðan hún kláraði sig og franskarnar rötuðu í skál.
Skemmst frá að segja var þetta einföld og snögg máltíð, en einstaklega góð. Eini gallinn við kjötið var að það virðist erfitt að skera ribeye svo að þykkt hverrar sneiðar sé jöfn, þannig að þunni parturinn var medium og jafnvel meira steiktur en þykkari hlutinn yndislega medium-rare yfir í rare. Hvað um það, steikurnar voru safaríkar og ljúffengar og ekki mátti í milli sjá hvort einfaldleiki piparsins eða nýjungin við McCormick Montreal kryddið væri betri. Svo góðar voru steikurnar að ég hreinlega gleymdi nánast frönskunum, þó passlega gullnar og kryddaðar, enn og aftur, með McCormick kartöflukryddi - en það er nokkuð ólíkt þessum kartöflukryddum sem maður fær á skyndibitastöðum og því góð tilbreyting.
Talandi um skyndibitastaði; síðast þegar ég fór á Subway og fékk mér 12" bát kostaði hann mig - góður sem hann var - 999 krónur og það bara báturinn! Ég get fengið stórstjörnumáltíð á McDonalds á 649 krónur, en minnumst ekki á pizzurnar. Í staðinn át ég 400 gr. ribeye nautasteik, með piparsósu (79 kr.), frönskum (man ómögulega hvað kílós poki kostar en ég notaði einungis smávegis) og rauðvíni (3l kassi af Concha y Toro Frontera Cabernet Sauvignon kostar 3490 kr. sem er í dýrari kantinum fyrir kassavín).
Auðvitað þurfti ég að elda þetta sjálfur, en fyrirhöfnin var ekki mikil. Segjum að það sé rúmlega 1000 krónur sem kostnaður af svona lúxus er, þá fer maður að spyrja sig hvort það sé ekki betra að sleppa skyndibitanum aðeins oftar og leyfa sér veislumat í staðinn?
Lítil fyrirhöfn segi ég og á enn eftir að ganga frá eldhúsinu… Súkkulaðiís í desert ætti að vera lögleg frestun, er það ekki?