Hér á eftir koma nokkrar uppskriftir að heimatilbúnum barnamat fyrir börn 10 mánaða og eldri. Ef áhugi er fyrir hendi luma ég á fleiri uppskriftum.
Kvöldverður
1/2 bolli kjöt sem hefur verið hakkað eða skorið í bita (t.d. kjúklingur, kalkúnn, lamba-, svína- eða nautakjöt)
1/4 bolli soðið grænmeti í bitum (t.d. baunir, gulrætur, rófur, maís, o.fl.)
1/4 bolli soðin hrísgrjón, kartöflur eða pasta
1/4 bolli brjóstamjólk eða þurrmjólk
1.Blandið öllu saman í matvinnsluvél og maukið.
Tillögur að blöndum:
· Kjúklingur, gulrætur og hrísgrjón
· Lambakjöt, baunir og kartöflur
· Kjöt, eggaldin og makkarónur
· Svínakjöt, grænar baunir og kartöflur
· Kalkúnn, sætar kartöflur og maís
Hollt kívímauk
1 kíví
1/4 bolli kotasæla
1/4 bolli barnagrautur úr pakka (haframjöl eða annars konar korn)
1.Stappið kívíið með gaffli.
2.Bætið við kotasælu og grautnum.
Það má einnig nota banana eða ferskjur í stað kívísins og jógúrt í staðinn fyrir kotasæluna.
Epla- og perueftirréttur
2 epli
1 pera
1 eggjarauða
1/2 tsk sítrónusafi
1 tsk púðursykur
1 tsk vatn eða eplasafi
klípa af kanil
1.Afhýðið og kjarnhreinsið eplið og peruna og skerið í litla bita.
2.Bætið sítrónusafanum og vatni/eplasafa út á eplin og peruna eftir að þeim hefur verið komið fyrir í potti. Sjóðið á lágum hita þangað til þau verða mjúk, eða í um 20 mínútur.
3.Maukið þá ávextina með því að stappa þá eða setja þá í matvinnsluvél.
4.Hrærið eggjarauðunni og púðursykrinum saman við með pískara þar til blandan verður mjúk.
5.Bakið í ofni við 200°c í um 15 mínútur. Kælið áður en borið er fram.