Bi-bim-bap er einstaklega ljúffengur réttur frá Kóreu, þar sem steikt grænmeti og kjöt er lagt á hrísgrjónabeð. Það má notast við nærri hvaða hráefni sem er, en uppskriftin hér er eins og ég bý það til. Þetta er tvímælalaust uppáhalds maturinn minn.
(fyrir 2)
2 bollar hrísgrjón
150 g nautakjöt (innlærisvöðvi eða bara snitzel)
2 tsk sykur
2 hvítlauksgeirar
1 bolli baunaspírur
2 gulrætur (eða ein stór)
1 dós dvergmaísstönglar
2-3 bollar ferskt spínat
2 egg
6 tsk sesamfræ
1 msk + 5 tsk sesamolía
salt og pipar
Gochujang (sjá að neðan)
Gochujang: Kóreubúar borða þetta með öllum mat. Þetta er svona sæt chilipiparsósa. Þetta er erfitt að finna á Íslandi þannig að ég fann upp aðferð til að búa til ágætis eftirlíkingu heima. Einfaldlega finnið rauða chilihvítlaukssósu (frá Lee Kum Kee, fæst í Hagkaup og Nóatúni) og bætið sykri við eftir smekk. Þetta á að vera meðalsterkt og örlítið sætt. Þetta er algerlega ómissandi með þessum rétti.
1. Sjóðið hrísgrjónin í 2 bollum af vatni. Látið þau sjóða á meðan þið gerið annað.
2. Ristið sesamfræin á þurri sléttri pönnu þangað til þau eru léttilega brún og lykta vel. Hreyfið þau stanslaust til svo þau brenni ekki.
3. Blandið saman 1 msk sesamolíu, 1 tsk ristuðum sesamfræjum og 2 tsk sykri í skál. Saxið 2 hvítlauksgeira og bætið út í. Skerið kjötið í þunna strimla (bulgogi) og veltið þeim í þessu. Bætið við örlitlu af salti og pipar og leggið til hliðar til að láta marinerast.
4. Sjóðið baunaspírurnar með örlitlu af salti í u.þ.b. 3 mínútur. Takið úr vatninu og stráið sesamfræjum yfir. Steikið á pönnu með 1 tsk sesamolíu í 3 mín. Leggið til hliðar.
5. Sjóðið spínatið með örlitlu af salti þangað til það er orðið mjúkt. Takið úr vatninu og setjið í skál með 1 tsk ristuðum sesamfræjum. Leggið til hliðar.
6. Skerið gulræturnar í strimla og steikið á pönnu með 1 tsk sesamolíu og 1 tsk sesamfræjum þangað til þær eru mjúkar. Leggið til hliðar.
7. Hellið af maísstönglunum og steikið á pönnu með 1 tsk sesamolíu þangað til þeir brúnast lítillega. Leggið til hliðar.
8. Nú ættu hrísgrjónin að vera tilbúin. Skiptið þeim jafnt í skálar.
9. Leggið baunaspírurnar, maísinn, spínatið og gulræturnar ofan á hrísgrjónin þannig að hvert grænmeti þekur fjórðung af yfirborði hverrar skálar. Skiljið eftir svæði í miðjunni fyrir kjötið.
10. Snöggsteikið kjötið á pönnunni við háan hita og leggið ofaná hrísgrjónin fyrir miðju.
11. Steikið eitt egg í einu í 1 tsk sesamolíu og leggið ofaná skálarnar. Kóreubúar vilja steikja öðrumegin og halda rauðunum fljótandi.
Berið fram með rauðu sósunni og afgangnum af sesamfræjunum til að strá yfir eftir smekk. Það er engin kúnst við að borða þetta, bara ráðast á skálina og verði þér að góðu.