Grænmetisætur þrífast vel í nútíma samfélagi. Það er hægt að fara á salatbari á mörgum veitingahúsum, hægt að fá grænmetisrétti ýmsa sem og annað æti einungis unnið í metinu græna. Það má segja að tíðin sé betri fyrir grænmetisætur nú, heldur en var fyrir þær á árum áður, þegar þær voru einfaldlega ekki til.
Þá víkur sögunni af andstæðu grænmetisætna, svokölluðum kjötætum. Kjötætur hafa verið þekkt fyrirbrygði allt frá tímum risaeðlanna, þó að risaeðlur voru margar hverjar grænmetisætur, eins og hestar, þá þótti vinsælt hjá sumum þeirra að borða hvor aðra.
Ég er einmitt kjötæta, sem lýsir sér þannig að líkami minn hafnar flestu grænmeti, það flýtur uppúr þaðan sem það kom niður. Ég borða kjöt, pasta og kornvörur, en get ekki borðað grænmeti og ávextir fara heldur ekki vel í mig. Það er ekki slæmt, þannig séð, ég hef lifað góðu og heilbrigðu lífi, laus við næringarskort og þessháttar, en málið er að ég þori varla að láta sjá mig á veitingastöðum borgarinnar.
Ef ég panta mér hamborgara þá þarf ég að biðja sérstaklega um að öllu grænmeti sé sleppt, sem klúðrast því miður oftast. Ég pantaði mér til dæmis í gær Spagetti Bolognes, sem er spagettí í kjötsósu, mjög gott yfirleitt, nema í kjötsósunni var meira grænmeti en kjöt. Og þar sem ég átti í hættu á að kasta öllum matnum upp ef ég legði mér til munns þessa kjötsósu (sem ég hafði ekki hugmynd um að væri grænmetiskjötsósa, eins og kom í ljós) þá varð ég bara að borða spagettíið, og skilja um helminginn af því sem ég hafði borgað fyrir eftir, bara af því það var gert ráð fyrir því að ég gæti étið þetta.
Einnig ef mig langar í samloku, þá þýðir ekkert fyrir mig að kaupa tilbúna samloku því það er grænmeti á nánast öllum samlokunum frá sóma og júmbó, nema þeim sem maður hitar.
Þetta þykir mér mjög miður og það er afskaplega leiðinlegt að þurfa alltaf að spyrja þjónana spjörunum úr hvort það sé eitthvað grænmeti í hinu og þessu og biðja þá um að fjarlægja það, sem virðist samt aldrei komast til skila. Ég held að það sé farið verr með fólk sem borðar ekki grænmeti heldur en reykingarmenn, sem hafa átt mjög undir högg að sækja undanfarið.
Ég spyr nú bara, hvað í fjandanum er að? Er of mikið vesen að búa til kjötrétti sem innihalda ekkert grænmeti? Það er minnsta málið að leyfa þessu að fylgja með, sér, en að vera alltaf að blanda þessu saman er ómögulegt. Ég krefst úrbóta. Ef einhver sem les þetta á veitingastað, vinsamlegast breyttu til batnaðar. Þeir sem lesa þetta en eiga ekki veitingastað… Takk fyrir.