Gleymum því ekki að Sighvatur er 17 ára! Þessi strákur á eftir að gera stóra hluti í BJJ í framtíðinni og sama má segja um fleiri á þessu móti. Því miður var ég nokkuð upptekinn á “mínum” velli og sá því ekki eins mikið af mótinu og ég hefði viljað. En það eru svo sannarlega fullt af mönnum úr öllum félögum sem hafa alla möguleika á að ná langt í sportinu.
Kvennaflokkurinn er að ná sér á strik og gaman að sjá hversu jafnar þær voru Auður, Sólveig og Kristín. Sá ekki mikið til hinna stelpnanna en efast ekki um að þarna séu fleiri efnilegar.
Alex er frábær í -66 og ég skrifði annarsstaðar að hann væri eins og kóbraslanga. Slátrar mönnum svo leiftursnöggt að myndavélarnar mega hafa sig alla við að ná því á filmu. Drengurinn hefur allt til að náð langt í BJJ á heimsvísu og ég vona svo sannarlega að hann haldi áfram í sportinu.
-73 var gríðarlega flottur flokkur það sem ég sá af honum. Úrslitaglíma Haraldar Gísla Sigfúsonar og Arnas Bjarnasonar hefði ekki geta verið jafnari og báðir voru sigurvegarar þarna að mínu mati. Frábærir glímumenn báðir tveir sem og fleiri þarna.
-81 er pakkaður af góðum strákum. Gunnar hafði auðvitað nokkra sérstöðu þarna en þarna er fullt af glímumönnum sem geta látið að sér kveða í framtíðinni á alþjóðlegum mótum. Vignir Már er í stöðugri framför og lítur ekki út fyrir að vera deginum eldri en 22 ára (hann verður 37 ára í febrúar!). Bjarni B er alltaf solid og mér fannst svakalega gaman að horfa á Helga Rafn (Sleipni) glíma. Flottur íþróttamaður. Þarna eru líka ungir efnilegir strákar eins og Stefán Geir (bróðir Haraldar sem sigraði -73), Jóhann Páll og fleiri sem ég þyrfti þó að sjá meira af.
-90 flokkurinn fór eiginlega eins og mig grunaði fyrir mótið, þ.e. þrjú efstu sæti þeir Sighvatur, Jóhann og Óðinn tóku. Hef þegar nefnt Sighvat sem gæti átt eftir að verða legend í sportinu. Jóhann bróðir hann er ekki langt undan og náði að sigra Sighvat í einni af þremur skiptum sem þeir mættust á sunnudaginn. Reyndar með ólíkindum að þeir skuli mætast í úrslitum í þyngdarflokkinum, undanúrslitum opna flokksins og svo í liðakeppninni líka! Óðinn er líka að bæta sig ört þessa dagana og það skilaði sér þarna.
Ég sá því miður alltof lítið af -100 flokknum en þar eru margir frábærir glímumenn. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um Þorvald Blöndal sem er einn besti íþróttamaður sem Ísland hefur alið fyrr og síðar og að fá hann í mótið var magnað alveg hreint. Þessi maður er með gulláskrift af öllu sem hann gerir. Halli (HwaRang) bætir sig stöðugt ár frá ári og er orðinn magnaður glímumaður með baneitraðan triangle. Ég vil fara að sjá kappann keppa eitthvað erlendis. Efa reyndar ekki að slíkt gerist á næsta ári. Úrslitaglíma Valda og Halla var geysiskemmtileg og jöfn en að lokum hafði Valdi betur á stigum. Báðir eiga hins vegar mikið hrós skilið fyrir frábæra skemmtun og ég efa stórlega að margir aðrir en nafni hefðu veitt valda eins harða keppni og hann gerði. Þráinn er að mínu mati einn efnilegasti BJJ maður á landinu í dag. Drengurinn er nautsterkur og ungur (þeir eru jafnaldrar hann og Gunnar, þ.e. 21 árs) og Þráinn hefur frábæra tækni sem batnar dag frá degi. Bjarni Kristjáns er aðeins ári eldri og magnaður glímumaður einnig. Allir þessir strákar og eflaust fleiri í flokknum þurfa bara að ná sér í meiri reynslu á alþjóðlegum mótum (nema auðvitað Valdi sem er hokinn af reynslu úr júdóinu) og eiga vafalítið eftir að láta að sér kveða alþjóðlega í náinni framtíð.
Það má segja það sama um +100 og aðra flokka að þar er fullt af efnilegum BJJ mönnum þó augljóst sé að margir þeirra hafi júdó bakgrunn. Ingþór og Björn voru samt í nokkrum sérflokki þarna að mér fannst. Björn var óheppinn að finna til meiðsla í úrslitaglímunni sem varð til þess að hann varð að biðja dómarann að stöðva glímuna. Hann er samt harðjaxl og reyndi að taka þátt í opna flokknum. Eftir á að hyggja hafa það kannski verið mistök því hann var augljóslega ekki búinn að ná sér þó ég sé ekki að segja að það hafi skipt sköpum um úrslitin. Kappinn á samt örugglega eftir að láta að sér kveða í BJJ í framtíðinni. Ingþór er alltaf solid og fór í úrslit í opna flokknum líka. Þeir Gunnar mættust þar líkt og í fyrra en þá sigraði Gunni á stigum. Nú varð Ingþór þó að játa sig sigraðan á submission. Hann sagði mér þó eftir mótið að hann hygðist breyta þessu á næsta ári! ;) Svona eiga menn auðvitað að hugsa.
Yfirhöfuð þá geta allir verið sáttir við mótið að ég tel enda frábær mæting og þátttaka en aukningin var tæp 70% milli ára. Það er með ólíkindum að sjá gróskuna í félögunum og hversu framfarirnar hafa orðið miklar allsstaðar á einu ári. Það er allt að gerast hjá þessum klúbbum og það geta allir verið stoltir af sínu fólki og sínu starfi! Til hamingju öll með tölu og nú bara áfram veginn og byggjum enn meira á þessu góða starfi með góðum anda, metnaði og samstarfi milli félaganna.