Hapkido er kóresk sjálfsvarnarlist fyrir bæði kynin þar sem jöfn áhersla er lögð á standandi tækni eins og í systuríþrótt sinni Taekwondo, lása, fellur og glímutök eins og í Aikido, japönsku Jiu Jitsu og Júdó.
Allir eru vinir í Hapkido og vita hvaða afleiðingar gjörðir þeirra hafa. Þar er lögð áhersla á samhljóm, hringhreyfingar og mýkt. Hapkido er ný bardagalist hér á landi sem á uppruna sinn í Kóreu og þar er farið dýpra í hlutina en gert er í systuríþróttinni Taekwondo.
Hapkido er í grunninn hernaðarlist, bardagalist og sjálfsvörn. Fyrsta markmið er að verja sjálfan sig, en leiðin sem við notum til þess að verja okkur er þannig að hreyfingarnar eru tígulegar og það er oft stigið til hliðar og snúið þegar tekist er á við andstæðinginn, í stað þess að sparka eða kýla beint.
Hapkido er systuríþrott Taekwondo og þetta tvennt er að mörgu leyti svipað, allar skipanir eru á kóresku og öll högg og spörk eru nánast eins. En þegar kemur að flóknari tækni og meiri sjálfsvörn, þá fer Hapkido lengra og einbeitir sér að öndun og hugleiðslu. Eins og Taekwondo er stundað í dag þá er það fyrst og fremst bardagaíþrótt og ólympíuíþrótt, en Hapkido er meira bardagalist.
Um sextíu milljónir í heiminum æfa Taekwondo en um fimm milljónir æfa Hapkido. Fólk sem æfir Hapkido er með aðeins öðruvísi hugarfar en það fólk sem æfir Taekwondo. Í Hapkido er mikið um fólk sem hefur áður stundað Taekwondo og það sækir í meiri dýpt í listina sjálfa og vill læra hlutina vel.
Við sem æfum Hapkido leggjum áherslu á að allir séu vinir og viti hvaða afleiðingar það hefur sem við gerum og reynum að halda meiðslum í lágmarki. Þegar við stundum Hapkido þá viljum við hreyfa okkur í hringi og halda góðum samhljóm við alla í kringum okkur. Enda eru einkunnarorð Hapkido þrjú: Hwa, Won og Yu. Hwa stendur fyrir samhljóm og ef kemur upp ágreiningsmál eða möguleg slagsmál, þá viljum við leysa málin í samhljóm og við viljum ekki nota of mikið afl. Won stendur fyrir hringhreyfingu, en við reynum að snúa okkur frá árás með því að nota hringhreyfingar í stað þess að sparka beint eða kýla. Yu stendur fyrir mýkt.
Til að byrja með er farið vel í grunnatriði standandi viðureignar og svo koma sífellt fleiri lásar, fellur og slíkt inn í námsskránna. Hapkido iðkendur nýta sér einnig vopn og æfa varnir gegn einföldum vopnum fyrir hærri beltin. Taka skal frama að 16 ára aldurstakmark er til þess að æfa Hapkido. Við gætum fyllsta öryggis á æfingum og því er skilyrði að vera með á æfingum: punghlíf, tannhlíf og hlífar fyrir hendur og fætur. Nánari upplýsingar um það fást hjá þjálfara á staðnum.
Allar frekari upplýsingar má finna á www.hapkido.is
Hér má sjá video sem sýnir margar hliðar Hapkido listarinnar.