Íslandsmeistararmót barna og unglinga
í Brasilísku Jiu Jitsu árið 2010
Almennt
Mótið verður haldið þann 17. apríl í húsnæði Mjölnis. Húsið opnar klukkan 12:00 og þátttakendur eiga að vera mættir klukkan 12:30 en þá hefst vigtun á mótsstað. Keppnin hefst svo klukkan 13:00.
Eftirfarandi félög eru með aðild að BJÍ sambandi Íslands og eru því með rétt til þess að senda félagsmenn til þess að keppa á mótinu:
Fenrir, Akureyri
Fjölnir, Reykjavík
Mjölnir, Reykjavík
Pedro Sauer, Hafnarfjörður
Sleipnir, Keflavík
Aldursflokkar og Þyngdarflokkar
Hér á eftir verða taldir upp þeir aldursflokkar og þyngdarflokkar sem keppt verður í. Keppendur verða viktaðir í þeim gi sem þeir keppa í á mótinu samdægurs keppninni.
Mótshaldarar hafa rétt til þess að sameina þyngdarflokka til þess að hafa viðunandi fjölda keppenda í hverjum flokki. Viðunandi fjöldi keppanda í hverjum flokki skal vera tveir að lágmarki. Það má einungis sameina þyngdarflokk saman við þyngdarflokk sem er fyrir ofan og/eða neðan þann þyngdarflokk.
Karlar 8 til 9 ára á árinu (fæddir 2001-2002)
- 28 kíló
+ 28 kíló
# glímulengd er 2 mínútur.
Karlar 10 til 12 ára á árinu (fæddir 1998-2000)
- 38 kíló
+ 38 kíló
# glímulengd er 3 mínútur.
Karlar 13 til 17 ára á árinu (fæddir 1993-1997)
- 50 kíló
- 56 kíló
- 63 kíló
- 70 kíló
- 78 kíló
- 88 kíló
+ 88 kíló
# glímulengd er 5 mínútur.
Framkvæmd móts
Mótið á að hefjast klukkan 13:00 stundvíslega. Keppni hefst á karlaflokkum barna og það verður byrjað á léttustu flokkunum. Hver þyngdarflokkur verður kláraður áður en keppni hefst í næsta þyngdarflokk og verðlaunaafhending fer fram eftir að keppni er lokið í hverjum flokki.
Dómarar verða þrír fyrir hverja glímu, einn vallardómari og tveir borðdómarar. Vallardómari er eini aðilinn sem má standa á keppnisvelli á meðan glímu stendur og hefur yfirumsjón með því að sjá um að glíman fari fram eftir settum reglum. Vallardómari sér um að gefa keppendum stig og refsistig eftir settum keppnisreglum.
Glímulengd er mismunandi eftir aldurshópum og það er stigagjöf alla glímuna. Það er hægt að vinna glímu með eftirfarandi hætti:
• Með því að fá mótherja til þess að gefast upp munnlega eða með því að slá út áður en keppnistími líður (tapout).
• Ef annar keppandi verður ófær um að halda glímu áfram sökum meiðsla eða meðvitundarleysis þá telst hinn keppandinn sigurvegari glímunnar.
• Ef að hvorugur keppandi hefur gefist upp eftir að keppnistíma líður þá sigrar sá keppandi sem hefur fleiri stig samkvæmt stigagjöf.
 Ef að venjuleg stig eru jöfn þá skal líta til gagnstiga (aukastiga).
 Ef að venjuleg stig og gagnstig eru jöfn þá fer fram ein framlenging sem er tvær mínútur. (á einungis við aldurshóp 13 – 17 ára)
 Ef að stigagjöf er jöfn eftir fyrstu framlengingu þá fer fram önnur framlenging í tvær mínútur þar sem að sá fyrsti sem að skorar stig eða gangstig telst sigurvegari glímunnar. (á einungis við aldurshóp 13-17 ára)
 Ef að staðan er enn jöfn eftir aðra framlengingu þá úrskurða dómarar (vallardómari og tveir borðdómarar) sigurvegara með meirihluta ákvörðun.
• Vallardómari hefur leyfi til þess að stöðva glímu og úrskurða sigurvegara ef hann telur að annar keppandi sé í hættu vegna framvindu glímunnar.
• Í aldurshópunum 8 til 9 ára og 10 til 12 ára þá fer ekki fram nein framlenging ef að báðir keppendur eru jafnir af stigum. Í slíku tilviki þá úrskurða dómarar (vallardómari og tveir borðdómarar) sigurvegara með meirihluta ákvörðun.
Keppendur skulu fara eftir tilskipunum og ábendingum vallardómara.
Stigagjöf
Stig eru veitt á meðan glímu stendur fyrir eftirfarandi:
• 2 stig Að fella eða kasta andstæðing (takedown)
 Keppandi fær einungis stig ef hann framkvæmir fellingu eða kast og er talinn af vallardómara stjórna framvindu fellingarinnar eða kastsins með þeim hætti að hann nái andstæðing sínum í gólfið þannig að andstæðingurinn lendi á baki.
 Ef að keppandi framkvæmir fellingu eða kast en andstæðingnum tekst að snúa við stöðunni í sömu hreyfingu þannig að hann lendir ofan í toppstöðu þá fá báðir keppendur tvö stig.
 Ef að sá sem framkvæmir fellingu eða kast lendir ofan á andstæðing sínum í stöðu þannig að hann sitji klofvega yfir andstæðing (mount) þá öðlast sá keppandi tvö stig fyrir fellinguna eða kastið og fjögur stig fyrir „mount.“ Keppandinn verður að tryggja stöðuna í þrjár sekúndur til þess að öðlast fjögur stig fyrir „mount.“
• 2 stig Að sópa andstæðing (sweep)
 Ef að keppandi sem er í botnstöðu en með bakvarðarstöðu (guard) eða hálf-bakvarðarstöðu (half-guard) gagnvart andstæðingi sínum og tekst að snúa við stöðunni þannig að hann lendir ofan í toppstöðu þá fær sá keppandi tvö stig.
 Ef að keppandinn sem framkvæmir sópun gagnvart andstæðing sínum lendir ofan á honum þannig að hann sitji klofvega yfir andstæðing (mount) þá öðlast sá keppandi tvö stig fyrir sópun og fjögur stig fyrir „mount.“ Keppandinn verður að tryggja stöðuna í þrjár sekúndur til þess að öðlast fjögur stig fyrir „mount.“
 Ef að keppandi sem er með bakvarðarstöðu eða hálf-bakvarðarstöðu gagnvart andstæðingi sínum nær að framkvæma sópun en tekst ekki að halda toppstöðu í að minnsta kosti þrjár sekúndur og lendir aftur á bakinu eða báðir keppendur standa upp þá fær sá keppandi ekki stig fyrir sópun.
• 2 stig Hné á kvið (knee-ride)
 Ef að keppanda tekst að setja hné á kvið andstæðings síns án þess að hvíla hitt hnéið á jörðinni og heldur jafnframt með annarri hendinni í annaðhvort kraga eða ermi andstæðings síns og í belti með hinni hendinni í að minnsta kosti þrjár sekúndur þá öðlast sá keppandi tvö stig.
• 3 stig Að komast fram hjá bakvarðarstöðu (passing the guard)
 Ef að keppanda tekst að komast fram hjá bakvarðarstöðu og ná yfirburðarstöðu á toppnum gagnvart andstæðing sínum í að minnsta kosti þrjár sekúndur þá öðlast sá keppandi þrjú stig.
 Ef að keppandi sem kemst fram hjá bakvarðarstöðu beint í þá stöðu að hann sitji klofvega yfir andstæðing (mount) þá öðlast sá keppandi þrjú stig fyrir að komast fram hjá bakvarðarstöðu og fjögur stig fyrir „mount.“ Keppandinn verður að ná stjórn á „mount“ stöðunni í að minnsta kosti þrjár sekúndur til að öðlast fjögur stig.
• 4 stig Að sitja klofvega yfir andstæðing (mount)
 Ef að keppanda tekst að ná yfirburðarstöðu á toppnum þannig að hann sitji klofvega yfir maga andstæðings í að minnsta kosti þrjár sekúndur þá öðlast sá keppandi fjögur stig.
• 4 stig Að ná baki með tveimur krókum (back-mount)
 Ef að keppanda tekst að tryggja stöðu sína á baki andstæðings með tveimur krókum þá fær hann fjögur stig.
 Til að öðlast stigin þarf keppandi að tryggja stöðu sína með báðum krókum í að minnsta kosti þrjár sekúndur.
• Gagnstig (aukastig)
 Gagnstig eru veitt fyrir að framkvæma lás sem er nálægt því að neyða andstæðing til uppgjafar að mati vallardómara. Þessi stig eru talin sjálfstætt frá ofangreindi stigagjöf og geta einungis úrskurðað úrslit glímu ef að glíma endar án uppgjafar keppanda og almenn stigagjöf er jöfn eftir keppnistíma. Einungis eitt gagnstig er veitt í hvert skipti.
• Refsingar
 Refsingar eru veittar í hvert sinn sem að dómari telur að keppandi sé vísvitandi að draga glímu á langinn eða tefja glímu.
 Einnig er refsing veitt ef að keppandi neitar að fara að fyrirmælum dómara.
 Refsing er veitt ef keppandi er staðinn af því að reyna óleyfilegt bragð.
 Vallardómari í samráði við borðdómara hefur leyfi til að vísa keppanda úr keppni eða enda glímu og lýsa yfir sigurvegara hvenær sem hann telur þörf á því.
 Refsingar fara þannig fram að andstæðingur keppandans sem telst brotlegur í glímu fær eitt almennt stig bætt við stigagjöf sína.
 Ef að keppandi er í ráðandi stöðu í glímu en er aðgerðarlaus þá getur valldardómari látið báða keppendur standa upp og hefja glímuna aftur.
 Ef að vallardómari telur að keppandi sé sífellt að skipta um stöðu
einungis til að safna stigum en ekki að reyna að vinna að því að ljúka glímu með lás þá getur valldardómari hætt að gefa þeim keppanda stig fyrir stöður í glímunni.
 Dómara-ákvarðanir eru endanlegar, óeðlileg afskipti af dómara vegna ákvarðana er hægt að refsa með því að vísa keppanda endanlega úr keppni með samþykki allra þriggja dómara (vallardómara og keppnisdómara).
 Óeðlileg afskipti áhorfenda af dómara vegna ákvarðana er hægt að refsa með því að vísa þeim áhorfenda úr húsi með samþykki allra þriggja dómara og framkvæmdarstjóra mótsins.
Aukapunktar
• Markmið glímunnar er að ná að sigra með uppgjöf andstæðings
• Keppandi má draga andstæðing sinn niður með sér í gólfið jafnvel þó að hann sé ekki að reyna að framkvæma lás í þeirri hreyfingu. (pulling guard)
 Sá keppandi sem reynir að draga andstæðing sinn með sér í gólfið verður þó að hafa grip á galla andstæðings síns.
 Ef að keppandi reynir að draga andstæðing sinn með sér í gólfið en missir gripið og lendir í sitjandi stöðu á gólfinu þá er það ákvörðun andstæðingsins sem er enn standandi hvort að hann sækji eða bakki en þá gefur dómari sitjandi keppanda merki um að standa upp ef andstæðingurinn bakkar.
Leyfileg og óleyfileg brögð
Flokkur 8 til 9 ára
• Við keppni í þessum flokki skal leggja höfuðáherslu á að passa upp á að fyrirbyggja meiðsli. Dómari hefur leyfi til þess að stöðva glímu hvenær sem á henni stendur til að forða keppendum frá meiðslum og er mælst til þess að hann geri það.
• Svæfingarlásar með fatnaði og án fatnaðs eru leyfðir en skal miða við að ef að dómari telur að keppandi sé nálægt því að ná lásnum þá skal dómari stöðva glímuna og úrskurða viðkomandi sigurvegara.
• Beinir handarlásar eru leyfðir svo sem armbar en únliðslásar og axlarlásar eru óleyfilegir. Ef að dómari telur að keppandi sér nálægt því að ná lásnum þá skal dómari stöðva glímuna og úrskurða viðkomandi sigurvegara.
• Allir fótalásar eru óleyfilegir, hvort sem um er að ræða beina eða snúandi.
• Allir lásar sem fela sér að snúa upp á háls/hrygg eða setja háls/hrygg í óþægilega stöðu eru óleyfilegir
Flokkur 10 til 12 ára
• Við keppni í þessum flokki skal leggja höfuðáherslu á að passa upp á að fyrirbyggja meiðsli. Dómari hefur leyfi til þess að stöðva gímu hvenær sem á henni stendur til að forða keppendum frá meiðslum og er mælst til þess að hann geri það.
• Svæfingarlásar með fatnaði og án fatnaðs eru leyfðir en skal miða við að ef að dómari telur að keppandi sé nálægt því að ná lásnum þá skal dómari stöðva glímuna og úrskurða viðkomandi sigurvegara.
• Beinir handarlásar eru leyfðir svo sem armbar sem og einnig eru axlarlásar leyfðir eins og Americana og Kimura. Únliðslásar eru óleyfilegir. Ef að dómari telur að keppandi sé nálægt því að ná lásnum þá skal dómari stöðva glímuna og úrskurða viðkomandi sigurvegara.
• Allir fótalásar eru óleyfilegir, hvort sem um er að ræða beina eða snúandi.
• Allir lásar sem fela sér að snúa upp á háls/hrygg eða setja háls/hrygg í óþægilega stöðu eru óleyfilegir.
Flokkur 13 til 17 ára
• Leyfileg brögð
 Öll svæfingartök, naktar (án fatnaðs) og með fatnaði.
 Allir handarlásar, axlarlásar og únliðslásar.
• Óleyfileg brögð
 Það má ekki kýla, sparka, bíta eða pota í líkamsop.
 Það má ekki rífa í hár.
 Það má ekki pota í sár eða vísvitandi valda skaða.
 Það má ekki reyna að snúa háls í óþægilega stöðu (neck crank).
 Það má ekki framkvæma lás sem snýr upp á hryggjaliði.
 Það má ekki framkvæma fótalása, hvorki beina né snúandi.
 Það má ekki lyfta manni sem liggur á baki í loftið og skella honum í gólfið.
 Ef gripið er í fingur þá verður að grípa í að minnsta kosti þrjá fingur í einu.
 Það má ekki vísvitandi snúa upp á fingur og/eða tær.
Það má vera að ofangreindur listi sé ekki tæmandi og því skal spyrja út í vafamál með hvort eitthvað megi eður ei á fundi sem verður haldinn á mótsdegi. Dómarar áskilja sér rétt til að banna ákveðin brögð þó þau hafi ekki verið tilgreind á ofangreindum lista. Það er ítrekað við keppendur að sýna ávallt íþróttamannslega hegðun og er reiknað með því að keppendur hafi vit og þekkingu til að framkvæma ekki aðgerðir sem líklegt er að valdi líkamlegum skaða. Ef að dómari telur að keppandi hafi brotið af sér með því að stofna vísvitandi til líkamsskaða á öðrum keppanda þá skal þeim keppanda umsvifalaust vísað úr keppni.