Skv Brazilísku MMA/BJJ vefsíðunni Tatame þá er Zuffa Llc, móðurfyrirtæki Ultimate Fighting Championships og World Extreme Cagefighting búið að vera að hringja í alla samningsbundna keppendur WEC undanfarna viku til að láta þá vita af samruna sem er í farvatninu. Þetta er búið að liggja í loftinu lengi en virðist núna vera að skella á.
UFC mun þar með bæta við 145 og 135 punda þyngdarflokkum og titilhaldarar í þeim deildum í WEC munu klárlega halda þeim, en hvað verður gert með 155 punda WEC titilinn er erfitt að segja, þar sem UFC heldur einnig úti belti í þeim þyngdarflokk. Grunar mig þó að fyrsta keppnin eftir samrunann muni innihalda sameiningarbardaga milli þeirra tveggja meistara.
Þetta þýðir að við fáum að sjá virkilega góða menn eins og Donald Cerrone, Jose Aldo, Ben Henderson, Urijah Faber, Miguel Torres og fleiri á stóra sviðinu, og vona ég að þessi samruni verði til þess að “litlu mennirnir” fái meiri athygli og hærri launaseðla.
Eftirspurn eftir UFC sýningum er að stóraukast, og er þessi samruni skref sem tekið er til þess að hægt verði að bjóða upp á þrjár UFC sýningar í mánuði. Yfirvofandi gjaldþrot Sengoku í Japan bendir einnig til þess að Zuffa eigi ekki eftir að eiga í neinum vandræðum með að koma sér upp mjög svo “stacked” 135 og 145 punda deildum.
Einnig verður þessi sameining að teljast sterkur mótleikur gegn ágætis árangri Strikeforce MMA á CBS sjónvarpsstöðinni.
Source: http://tatame.com/2009/11/15/Report–UFC-WEC-merger-in-2010