Okkar fólk stóð sig frábærlega í dag. 2 gull, 1 silfur og 2 brons! Sighvatur Helgason vann gull í -88, Auður Olga Skúladóttir vann silfur í -64, Þráinn Kolbeinsson vann brons í -94 og Bjarni Kristjánsson vann brons í -100. Þetta var allt í blábeltaflokkum. Vignir Már Sævarsson vann svo til gullverðlauna í öldungaflokki hvítbelta (36-40 ára). Frábær árangur!
En okkar menn urðu líka fórnalömb ótrúlegs klúðurs mótshaldara. Jóhann Helgason var dæmdur úr leik á þeim forsendum að hann hefði ekki mætt til leiks. Það stóðst auðvitað ekki því Jóhann var þarna og, búinn að skrá sig og borga keppnisgjaldið og tilbúinn í slaginn. Síðar kom í ljós að hann hafði aldrei verið kallaður upp! Þegar þetta uppgötvaðist var orðið og seint að leiðrétta þetta. Mótshaldarar báðust afsökunar, greiddu honum einhverjar skitnar „skaðabætur“ og skráðu hann í opna flokkinn sem þeir einir eiga rétt á að keppa í sem eru í fyrstu þremur sætunum í þyngdarflokkunum.
Opni flokkur svartbelta var einnig í dag og þar var annað klúður! Gunni mætti Thiago “Monstro” Borges (+100) í fyrstu glímu. Gunnar taldi sig vera að vinna glímuna þegar hún endaði, hann væri með 2 stig gegn 1 advantage hjá Thiago en vallardómarinn hafði gefið Thiago 1 adv fyrir Takedown tilraun. Gunnar hélt því að hann væri tveimur stigum yfir þegar glímunni lauk en í millitíðinni hafði einhver starfsmaður mótsins komið að dómaraborðinu og látið þá gefa Thiago tvö stig fyrir þessa Takedown tilraun. Thiago er eitthvað númer þarna og var m.a. líka að dæma á mótinu. Gunni vissi ekki til þess að Thiago hefði fengið neitt advantage annað en fyrir þessa tilraun til Takedown. Thiago virðist því hugsanlega hafa fengið bæði 1 adv og 2 stig fyrir sama hlutinn sem er fræðilega ómögulegt samkvæmt reglunum. Þegar mistökin uppgötvuðust viðurkenndi aðaldómarinn þau og bað Gunnar afsökunar en því miður var orðið of seint að leiðrétta þau því Thiago þegar búinn að glíma aftur og því orðið of seint á láta endurtaka glímuna eða setja hana í framlengingu! Thiago fór alla leið í úrslit í opnum flokki og keppir því til úrslita þar á morgun.
Á morgun keppir okkar fólk í hvítabeltaflokkum (Bjartur Guðlaugsson, Sigurjón Viðar Svavarsson, og Hreiðar Már Hermannsson). Þá keppa verðlaunahafarnir okkar í bláu beltunum ásamt Jóhanni í opnum flokki. Gunnar keppir síðan í sínum þyngdarflokki.