Íslendingar taka á móti Dönum í sannkallaðri hnefaleikaveislu í gömlu sundhöllinni við Framnesveg í Keflavík föstudaginn 4. september næstkomandi. Keppnin er liður í Ljósanæturhátíðinni og hefur verið haldin árlega um nokkurra ára skeið. Komdu og upplifðu einstakt andrúmsloft og horfðu á 10 hörkuviðureignir!

Af okkar mönnum í Hnefaleikafélagi Reykjaness (HFR) mæta til leiks fjórir keppendur. Ástþór Sindri Baldursson fær verðugan andstæðing frá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar (HFH), Tom Wolbers fær tækifæri á því að snúa tapi í sigur gegn Valentyn Bukavin frá Hnefaleikafélaginu ÆSIR (HFÆ) og Njarðvíkingurinn síkáti, Pétur „Smiley” Ásgeirsson, mun skiptast á höggum við Rasmus Hansen frá Danmörku. Í lokaviðureign kvöldsins mætast svo tveir efnilegustu boxarar landsins, þeir Hafsteinn Smári Óskarsson, og Adam Freyr Daðason (HFH) í þriðja sinn. Þeir háðu einvígi síðasta vetur og hafði Hafsteinn betur bæði skiptin, en naumlega þó. Adam fékk ekki tækifæri til þess að spreyta sig á Íslandsmeistaramótinu í apríl þar sem Hafsteinn varð Íslandsmeistari en getur nú gert óbeint tilkall til titilsins á föstudaginn kemur.

Aðrar áhugaverðar viðureignir eru endurkoma bestu hnefaleikakonu Íslands, Arndísar Birtu Sigursteinsdóttur, sem hefur ekki stigið í hringinn um nokkurt skeið og svo bardagi milli þeirra Kenneth Nemming og Juri Jaanissoo. Kenneth er margfaldur danskur meistari og heimavanur í Reykjanesbæ en hann hefur komið hér þó nokkrum sinnum að keppa og æfa, síðast á Ljósanótt fyrir tveimur árum. Hann mun keppa fyrir hönd Reykjanesbæjar gegn Jaanissoo, sem hefur m.a. lent í 5. sæti á EM.

Húsið opnar 19:00 og keppni hefst kl. 20:00. Aðgangseyrir eru 1.000 kr og er selt inn við innganginn.

1. viðureign – Diploma – 3 x 2 mín
Guðmundur Guðmundsson (HFH) vs Ástþór Sindri Baldursson (HFR)

2. viðureign – Diploma – 3 x 2 mín
Daníel Hauksson (HFH) vs Elías Shamsudin (HFÆ)

3. viðureign – Millivigt (75 kg) – 3 x 2 mín
Kristján Orri Arnarson (HFH) vs Gunnar Gray (HFÆ)


4. viðureign – Léttþungavigt (81 kg) – 3 x 2 mín
Valentyn Bukavin (HFÆ) vs Tom Wolbers (HFR)

HLÉ

5. viðureign – Léttveltivigt (64 kg) – 3 x 2 mín
Marek Kaban (HFÆ) vs Gunnar Þór Þórsson (HR)

6. viðureign – Léttþungavigt (81 kg) – 3 x 2 mín
Danny Steiness (Team Denmark) vs Mustafa Mikael Jobi (HFÆ)

7. viðureign – Léttveltivigt – 4 x 2 mín
Rasmus Hansen (Team Denmark) vs Pétur Ásgeirsson (HFR)

8. viðureign – Léttveltivigt – 4 x 2 mín
Maria Jacobsen (Team Denmark) vs Arndís Birta Sigursteinsdóttir (HR)

9. viðureign – Léttveltivigt (64 kg) – 3 x 3 mín
Juri Jaanissoo (HFÆ) vs Kenneth Nemming (HFR)

10. viðureign – Léttveltivigt (64 kg) – 4 x 2 mín
Adam Freyr Daðason (HFH) vs Hafsteinn Smári Óskarsson (HFR)
“My name is Floyd, my name is Floyd, my name is Money Mayweather!”