Það er gaman að geta sagt frá því að Íslendingar munu í fyrsta skipti eiga fulltrúa á ADCC (Abu Dhabi Combat Club) í september í haust því Gunnari Nelson hefur verið boðin þátttaka! Eins og margir vita er ADCC haldið annað hvert ár og er vafalítið erfiðasta glímukeppni í heimi. Hún verður núna í fyrsta sinn í Evrópu en keppnin fer fram í Barcelona á Spáni helgina 26.-27. september. Það var Sheik Tahnoon Bin Zayed Al Nahyan af Abu Dhabi, sonur Sheik Zayed sem þá var forseti sameinuðu arabísku furstadæmanna, sem fyrstur kom ADCC keppninni á fót 1998 en markmiðið var að fá bestu glímumenn heims úr hinum ýmsu greinum, Jiu-Jitsu, Wrestling, Judo, Sambo, Shooto o.s.frv., saman í eina keppni með sameiginlegum reglum þar sem flestir stílar gætu notið sín. Keppendur ráða því t.d. hvort þeir eru í galla (Gi) eður ei og hvort þeir klæðast Wrestling-skóm eða ekki. Keppnin náði strax gríðarlegum vinsældum og er af flestum talin hálfgerð óopinbert heimsmeistarakeppni þeirra bestu meðal þeirra bestu í heimi glímuíþrótta. ADCC er í raun einskonar MMA í glímu, þ.e. engin högg né spörk, og meðal þekktra nafna sem hafa staðið á verðlaunapalli í ADCC eru t.d. Alexandre Ribeiro, Andre Galvao, Braulio Estima, Dean Lister, Demian Maia, Fabricio Werdum, Gabriel Gonzaga, Jeff Monson, Marcelo Garcia, Mark Kerr, Matt Hughes, Matt Lindland, Márcio Cruz, Pablo Popovitch, Renzo Gracie, Ricardo Arona, Ricardo Arona, Ricco Rodrigues, Robert Drysdale, Rodrigo “Minotauro”, Roger Gracie, Rolles Gracie, Ronaldo “Jacare” Souza, Royler Gracie, Tito Ortiz, Vitor “Shaolin” Ribeiro o.fl., en þess má geta að Fedor Emelianenko verður með þátttakenda í ár. Þetta er í áttunda sinn sem ADCC keppnin er haldin en hún var í fyrstu haldin árlega í Abu Dhabi, þ.e. á árunum 1998-2001. Árið 2003 var keppnin haldin í Brasilíu (Sao Paulo), 2005 í USA (Kaliforníu), 2007 í USA (New Jersey) og núna 2009 á Spáni (Barcelona). Til að öðlast þátttökurétt í keppninni þarf annað hvort að sigra í svokölluðum trials sem eru haldin víða um heim (ein í Evrópu, tvær í USA, ein í S-Ameríku, ein í Asíu o.s.frv.) eða þá að vera boðin þátttaka.

Gunnar komst ekki á trials í Evrópu en fyrir nokkru sendi Renzo Gracie mér sms um að það væri áhugi fyrir því að veita Gunna þátttökurétt í ár (þetta var eftir sigur hans á Pan Am og NY Open). Sá áhugi dofnaði eðlilega ekki eftir árangur Gunna á Heimsmeistaramótinu. Núna um helgina voru síðan austurstrandar trials í New Jersey og þó Gunni hefði ekki þátttökurétt á þeim var á laugardagskvöldið haldin sameiginleg „skoðunaræfing“ sem hann og fleiri tóku þátt í fyrir aðstandendur keppninnar. Í gær fengum við svo endanlega staðfestingu á því að Gunna væri boðin þátttaka. Þess ber þó að geta að sá þyngdarflokkur sem Gunni myndi að öllu jöfnu keppa í, þ.e. -77kg, er algjörlega fullskipaður og býðst honum því að keppa í -88 kg flokki (þyngdarflokkar í ADCC eru -66, -77, -88, -99 og svo er opinn flokkur) og hefur Gunnar fallist á það (Demian Maia sigraði þann flokk 2007). Það er því ljóst að Gunnar verður með léttari mönnum í -88kg flokkum en Íslendingar munu þó í ár eiga í fyrsta skipti keppanda á ADCC.

Nánar um ADCC hér og hér

Highlight frá ADCC
[YouTube]http://www.youtube.com/watch?v=zm-3tU36t3A