Var að tala við þann sem stóð að mótinu í Svíþjóð (Manos Terzitane) og honum þykir þetta afar leitt. Það er nýlega búið að leyfa MMA í Svíþjóð og það er einhver nefnd sem þarf að samþykkja alla bardaga, þ.e. ef mótshaldarinn sjálfur er ekki löglegur matchmaker. Ef ég skyldi Manos rétt þá hefur varla nokkur í þessari nefnd hundsvit á MMA né þekkir til keppenda. Þetta er því bara dæmi um sænskt skrifræði. Þarna situr þó einhver náungi sem sjálfur er að halda MMA keppnir og það var hann sem hélt því fram í nefndinni að Gunni hefði ekki þá reynslu sem þyrfti til að berjast við Diego Gonzalez. Þetta væri mismatch. Því stóð hann fyrir því að nefndin leyfði ekki bardagann. Manos sagði mér hins vegar að þessi náungi hefði einfaldlega gert sér grein fyrir því að þetta yrði hugsanlega flottasti bardagi kvöldsins og því hefði hann ekki viljað að hann færi fram þar sem hans keppni er í samkeppni við þessa keppni (talandi um hagsmunaárekstur). Gonzalez var víst svo brjálaður útaf þessu að hann ætlaði að berja þennan gaur og þurfti maður við mann að ganga á milli og róa hann niður. Eftir þessa keppni getur Manos hinsvegar séð um svona matchmaking sjálfur og hann mun halda næsta mót í mars og hefur þegar boðið Gunna að taka þátt í því. Gunni sagðist líka hafa talað við Gonzalez og umboðsmann hans og þeir vilja sjá þennan bardaga verða að veruleika. Það er því aldrei að vita nema þeir berjist í marsmánuði. Sjáum til.