20 Janúar 2002
Eitt gull og tvö brons á Norðurlandamótinu 2002


Í fyrsta skipti í sögu TaeKwonDo á Íslandi hefur Íslendingur afrekað að standa uppi sem Norðurlandameistari í flokki fullorðinna. Þessi stórviðburður átti sér stað laugardaginn 19. janúar 2002 í Svendborg í Danmörku. Hinn nýbakaði Norðurlandameistari, landsliðsþjálfarinn sjálfur Björn Þorleifur Þorleifsson úr Björk, er reyndar enginn nýgæðingur á verðlaunapallinum því að árið 1998 hampaði hann gullverðlaununum í flokki unglinga á Norðurlandameistaramótinu

Björn vann fyrsta bardagann sinn á móti Magnus Olsen frá Svíþjóð 7 – 6. Björn sagði í viðtali við Taekwondo Ísland (www.taekwondo.is): “ég var lengi í gang, og fann mig ekki í bardaganum fyrr en í lokin”. Hann sagði einnig: “mér fannst ég hefði getað gert betur, en ég náði að kreysta fram sigur”. Þetta voru óvenju mörg stig í einum bardaga, enda var hann harður og tók nokkuð á.

Í bardaga númer tvö, mætti Björn Jan Hirvonen frá Finnlandi, og sigraði 5 – 2. Eftir bardagann sagði Björn: “ég hélt mér við tæknina og strategy, eins og ég ætlaði mér að gera frá upphafi, og stóð við það. Mér fannst ég hafa staðið mig vel í þessum bardaga.”. Jan Hirvonen þykir einn efnilegasti bardagamaður Finna, og er hátt skrifaður á alþjóða stigatöflunni yfir sterkustu Taekwondo keppendur í heiminum í dag. Björn sagði ennfremur um Jan: “hann er mjög teknískur og sparkar gífurlega fast og var mjög góður.”.

Í úrslitabardaganum mætti Björn, Riki Alahame einnig frá Finnlandi. Björn mætti einbeittur til leiks og stjórnaði bardaganum strax í byrjun og sigraði örugglega 3-0. Þetta hafði Björn um bardagann að segja: “ég byrjaði rólega og náði mínu fyrsta stigi í fyrstu lotu sem var mjög gott. Eftir það reyndi ég bara að halda stigunum mínum, sem komu í annarri og þriðju lotu” , “mér fannst ég stjórna bardaganum allan tímann frá upphafi til enda”. Björn sagði einnig: “mér fannst hinir tveir bardagarnir erfiðari en þessi, og þessi mótherji ekki eins sterkur og hinir tveir”.

Þegar á heildina var litið sagðist Björn vera ánægður með árangur sinn þennan daginn. Íslendingar mega vera stoltir af þessari glæstu framgöngu hins nýja Norðurlandameistara, og vonandi mun þetta hvetja hina fjöldamörgu TaeKwonDo iðkendur á Íslandi til að setja markið hátt í framtíðinni.

Keppendur fyrir Íslands hönd voru:
Björn Þorleifur Þorleifsson
Sverrir Ingi Sverrisson
Trausti Már Gunnarsson
Þórdís Úlvarsdóttir
Örn Sigurbergsson

Björn var ekki sá eini sem fékk að bíta í eðalmálm á mótinu, því að landsliðið nældi sér einnig í tvo bronspeninga.

Sverrir Ingi Sverrisson úr Ármanni fékk brons í sínum riðli. Hann sat hjá í fyrstu umferð og mætti síðan Saku Selm frá Finnlandi. Því miður náði Sverrir sér aldrei almennilega á strik í bardaganum og varð að lúta í lægra haldi.

Þórdís Úlvarsdóttir úr Þór nældi sér einnig í brons. Hún tapaði fyrir ofurjarli sínum Christine Rasmussen frá Danmörku.

Örn Sigurbergsson úr Fjölni keppti við Tore Larssen frá Svíþjóð. Tore hafði betur í fyrsta bardaga riðilsins.

Trausti Már Gunnarsson úr Fjölni keppti við Michael Nyboel frá Danmörku, og tapaði fyrir honum. Trausti náði þó að skora 9 stig í þeim bardaga, en var það ekki nóg þar sem Michael gerði 11 stig.

Michael Jørgensen landsliðsþjálfari Noregs og fyrrum landsliðsþjálfari Íslands var ánægður fyrir hönd íslenska landsliðsins og sagði árangur Björns frábæran.

Keppendur mótsins voru tæplega 100 og því er óhætt að segja að árangur Íslendinga hafi verið glæsilegur. Ísland mætti til leiks með minnsta liðið en stóð síðan uppi með sjálfan Norðurlandameistarann um borð í lok leiks.



Texti og myndir:
Erlingur Örn Jónsson
Taekwondo Ísland

Grein frá www.taekwondo.is
Stjórnandi á