Nú hafa Kínverjar ákveðið að minnast Bruce Lee í nýjum sjónvarpsþáttum. Var að lesa þetta á mbl.is. Það verður fróðlegt að sjá hvernig kínversku þáttagerðarmennirnir komast frá þessu. Hvort þetta mun draga upp raunsanna mynd af meistaranum eða hvort þetta verður eitthvað væmið áróðursdrasl (athugið þetta er kínverska ríkissjónvarpið sem er að fara í verkefnið).

Hér er fréttin af mbl.is:

Kínverska ríkissjónvarpið ætlar að framleiða 40 sjónvarpsþætti sem fjalla um ævi bardagastjörnunnar Bruce Lee. Goðsögnin um Bruce Lee er nú tekin upp í suðurhluta Kína en leikarinn Chan Kwok-kwan leikur Bruce Lee. Hann segist bæði vera „taugaóstyrkur og spenntur“ fyrir því að takast á við hlutverkið.

Lee, sem fæddist í San Francisco, öðlaðist frægð með því að leika í yfir 40 kung fu myndum, en meðal frægustu mynda hans eru Enter the Dragon og The Big Boss.

Hann lést í Hong Kong árið 1973 en bólga sem myndaðist í heila kappans dró hann til dauða. Hann var 32ja ára gamall.

Upptökur á þáttunum hófust í síðustu viku í Shunde í Guangdong-héraðinu sem er í Suður-Kína. Þar opnaði safn sem er tileinkað Lee fyrir fimm árum, að því er segir á vef BBC.

Faðir og afi Bruce Lee fæddust jafnframt í Shunde, en Lee kom þangað aðeins einu sinni þegar hann var fimm ára.

Litið er á framleiðslu þáttanna sem leið fyrir kínversk yfirvöld að kynna kínverska menningu á alþjóðagrundvelli fyrir Ólympíuleikana sem fram fara í Peking á næsta ári.

Kínverska ríkisfréttastofan Xinhua segir að þættirnir, sem kosta rúma 400 milljónir kr. í framleiðslu, verði einnig teknir upp að hluta í Hong Kong og Bandaríkjunum.
http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1264003