Hmmm… Það væri líklegast hægt, þó að maður geri sér sterklega grein fyrir því hvað gangi í krakka og hvað ekki…
Til dæmis; þá var nýi bekkurinn okkar hér í Schiedam (Hollandi) nokkuð skringilegur í upphafi. Flest allt strákar (ca. 10 til 12 ára) sem hentust inná gólf – 17 stykki – og hófu samstundis brjáluð hopp og spörk… Ekkert smávegis, enda dúndruðu þeir í hvorn annan eins og ofurhetjur með stælum ekki ósvipuðum því sem sést á Júrósportinu og úrvali af hringadróttins DVD sem fást hér fyrir sama og ekkert… Allavega, þá létum við þá bara hamast og pössuðum frekar að ekkert færi úrskeiðis og að þeir minni yrðu ekki undir í þessu öllu saman…
Þegar að meiðslin fóru svo að gera vart við sig, hreyfingarnar mýktust og ‘betri’ aðferðir uppgötvuðust; þá fór liðið að róast og eftir u.þ.b. 4 kennslustundir er búið að næstum þurrka út þessa ofbeldishneigð… Skrítið hvernig þetta virkar – og nú er fólk (krakkar líka) nokkuð mismunandi og oft til í að meiða hvort annað, hvað segi ég við því…???
Jú, Ninjutsu kennir svo sannarlega að meiða og valda hrikalegum – oft ‘varanlegum‘ – skaða á gaurum og öðrum tvífætlingum (fjórfætlingum líka, en það er nú önnur saga)… Hér væri jafnvel réttast að setja inn smá móral og fullvissa alla um hversu hættulegt þetta sé, þetta sé bara fyrir hina fáu útvöldu, allur ‘gauragangur’ bannaður o.s.frv… En svo einfalt er þetta ekki og vil ég miðla vitneskju frekar en einblína á hvað megi og hvað ekki. Mér finnst það mikilvægt að hver og einn (ekki einungis 11 ára gamlir gaurabryðjarar) sjá að undankoma og heilsa – þ.e.a.s. listin að halda í líf og limi – sé hið besta mál og þess virði að hafa í huga. Fyrir mér væri það ‘concept’ sem gengur og gildir, hvort sem er í daglegu lífi, útá götu og/eða innan hringsins…
Ég vona að Timer sjái sér fært að æfa, vaxa og þroskast samkvæmt því á heilbrigðan hátt. Ef svo fer – og það vona ég svo sannarlega – að hann komi á endanum og æfi með mér í ungmenna hóp, þá mun það koma á daginn; hversu mikilvægt það er að kunna að forðast meiðsli, á sjálfum sér og öðrum, með auknum skilning á líkama, hegðan og tækni (Taijutsu)…
Kveðja,
Diðrik