OK… Gott að hljóta góð viðbrögð (takk fyrir), enda er ég frekar spenntur yfir þessu öllu og hvernig þetta gæti orðið…
Allar upplýsingar og annað slíkt um Ninjutsu (Bujinkan) er vitanlega hægt að nálgast á netinu hér og þar, þó að ég vari fólk við að gleypa við öllu því sem það rekst á. Samt sem áður mun ég gera mitt besta til að koma smá grein inná Huga sem fyrst og ætti þá ýmislegt að komast á hreint…
En þangað til það gerist, er ekki verra að útskýra þetta aðeins:
Stefnan er sú að koma upp ágætis aðstoðu í nokkuð ´traditional´ japönskum stíl (þ.e.a.s. hörð viðargólf og annað slíkt), þó að það sé ekki ólíklegt að eitthvert íþróttahúsið á höfuðborgarsvæðinu verði að duga í fyrstu. Það er alls ekki ætlunin að stíga í fótspor ákveðinna vitleysingja og reyna að koma upp einhverskonar súperninju herdeild sem mun vaða um í myrkraverkum þangað til að einhverjar leiðinda skjaldbökur gera vart við sig og allt fer út um þúfur. Heldur vil ég hafa þetta frjálst og létt á sér, fólk hafi gaman af og finni á sér þær breytingar sem Ninpo-Taijutsu hefur í för með sér í góðu og gildu andrúmslofti. Hvað varðar gráður, reynslu og réttindi, þá hef ég allt í hendi mér samkvæmt Bujinkan og verð svo bara að sjá hvað lög og reglur segja uppá skeri… en það verður líklega ekkert í vegi að ég held. En samkvæmt Bujinkan reglugerð mun ég geta þjálfað fólk uppá fjórða Dan sem ætti nú að duga í einhver ár eða svona rétt til að byrja með…
Hvað varðar kennsluna sjálfa (og nú reyni ég að hafa þetta sem einfaldast) þá mun ég bjóða uppá þjálfun í handalögmáli (Dakentaijutsu + Koppojutsu + Jutaijutsu etc…) sem inniheldur allt það sem fólk þarf á að halda: Spörk og hnefaleika ásamt fantabrögðum (grappling), fimleikum (eins og fólk getur) og mörgu öðru. Svo mun ég kenna á öll Ninja-vopn svokölluð og verður það gert samkvæmt lögum, þ.e.a.s. hvað og hvernig yfirvöld segja til um. En til að gefa smá hugmynd um þau vopn sem ég vil hafa helst við hendina (og nú geta menn farið og leitað á netinu) þá vildi ég nefna: Katana og/eða Tachi – Ninja Ken – Shoto og/eða Wakisashi – Tanto (hnífur) – Jutte – Tessen – Hira shuriken og Bo shuriken – Hanbo – Jo – Rokushaku Bo – Yari (spjót) – Naginata – Nagamaki – Bisento – Kusari fundo – Kusarigama – Kyoketsu Shoge – Koddar (tsk tsk) og fleira… Auðvitað verður einblínt á ´örugg´ vopn, þ.e.a.s. úr viði og/eða gúmmí svo að fólk fari nú ekki að valda óþarfa mannskaða á æfingu, en annars verður þetta bara að fá að gerast rólega…
Svona til að ljúka þessu (og róa Mr. Leonheart aðeins), þá verður þetta haft nokkuð raunsætt og eðlilegt í alla staði. Auðvitað mun ég reyna að fá fólk til að hlaupa með og klifra í trjám og svoleiðis ef færi gefst… og þá er ég ekki enn farinn að blaðra um hugmyndir eins og að hendast niður á tjörn að vetri til og æfa á ísnum (það verður gaman að sjá kollhnísana þar), eða fara í ferðir og æfa aðeins undir berum himni. …En ef svo vill til að fólk setji upp grímur, spásseri um í görðum á kvöldin og hræði nágranna sína, þá vona ég að það verði þess virði… en ég kem líklegast ekki til með að eiga neinn þátt í því.
Þangað til næst,
Diðrik Jón Kristófersson (a.k.a. Nekron)