Breski UFC og Cage Rage milliviktarfighterinn Lee Murray var stunginn þrisvar sinnum í brjóstholið í gærmorgun fyrir utan næturklúbb í miðborg Lundúna eftir heilmikið afmælispartý til heiðurs Lauren Pope, nektarfyrirsætu og alræmdri djammgellu meðal miðbæjarrottna í London.
Samkvæmt BBC og The Sun brutust út gríðarleg hópslagsmál fyrir utan Funky Buddah næturklúbbin þar sem afmælisveislan fór fram og tóku allt að 20 manns þátt í látunum. Þegar lögreglan kom á staðinn lágu þrír í valnum af stungusárum, en var Murray langverst farinn af þeim.
Murray, sem keppti einu sinni og vann í UFC áður en hann flæktist í málaferli á bretlandseyjum sem komu í veg fyrir frekari þáttöku hans, er alræmdur “streetfighter” og handrukkari og var nafn hans á allra vörum eftir UFC 38 þegar hann rotaði Tito Ortiz í eftirparýinu. Hann hefur undanfarin ár einbeitt sér að keppnum í heimalandi sínu og verið einn besti og þekktasti MMA maður englands.
Honum er haldið sofandi á sjúkrahúsi í London og er talið að örlög hans ráðist á næstu 48 klukkustundum.
Þetta sýnir svo um munar að það skiptir ekki máli hversu vel þjálfaður þú ert, ef þú snapar þér götuslagsmál þá borgarðu brúsann fyrr eða seinna.