Athugaðu að ég geng ekki um bæinn lítandi í kring um mig og spá í hvort að ég eigi eftir að lenda í slagsmálum og hvort að ég myndi ráða við fólkið sem gengur fram hjá mér :) Ég veit að sumir bardagalistamenn gera þetta en ég er ekki einn af þeim. Ég vil bara verða góður í því sem ég stunda og kenna öðrum að vera það líka. Ég er í þessu vegna þess að mér finnst þetta gaman. En af og til finnst mér líka gaman að pæla aðeins í sjálfsvörn.
Ég notaði orðalagið “redda sér” vegna þess að götuslagsmál eru óútreiknanleg, eins og þú veist, og það að “redda sér” getur einfaldlega þýtt það að maður slapp ómeiddur frá slagsmálunum en ekki endilega að maður kýldi manninn í köku og stal kærustunni hans. Að einhver bardagalist “virki best” eða “virki vel” í götuslagsmálum hljómar einhvern vegin einkennilega í mínum eyrum, vegna þess að sjálfsvörn felur í eðli sínu í sér að maður “verji” sjálfan sig en ekki endilega að hún virki svo “djésskoti vel”. Sama hvernig þú ferð að því.
Ég veit til þess að erlendur BJJ maður lenti í slagsmálum og setti andstæðinginn í “guard” (hann var sjálfur á bakinu með manninn á milli lappanna og krosslagði ökklana) og hélt honum þétt og nálægt sér þannig að hann gat ekki kýlt og þannig var þetta í nokkrar sekúndur þangað til að slagsmálin voru leyst upp. Hann setti manninn ekki í lás - en hann slasaði sig ekki - og það var aðalatriðið.
Ef maður er að fá spörk frá öðrum en þeim sem maður er að slást við, þá erum við að tala um 2 á móti einum. Eða fleiri en 2 á móti einum. Þetta er alveg gilt komment hjá þér. En spáðu aðeins í það, heldurðu að það “virki” endilega betur að reyna að kýla og sparka á móti fleiri en einum? Ef margir ráðast á þig í einu, SAMTÍMIS, þá eru sennilega MEIRI líkur á því að þeir ná þér niður á jörðina, og þá getur kunnátta í grappling munað því að þú slasast illa eða slasast lítið.
Margir frægir bardagalistamenn, úr hinum og þessum stílum, telja það að hinn kaldi raunveruleiki sé sá að það sé nær ÓMÖGULEGT að sigra fleiri en einn árásarmann í einu, ef þeir eru ekki töluvert minni en þú og hafa það eitt í huga að virkilega slasa þig. Við erum að tala um fullorðna karlmenn sem vinna saman á móti þér, þ.e. sem “teamwork”, en ekki einn í einu.
Í BJJ byrjum við á því að læra að sigra EINN andstæðing. Síðan lærum við meira og meira í kýlingum og spörkum til að geta hugsanlega átt við fleiri en einn í einu. En það er ágætt að byrja á því að geta sigrað EINN óvopnaðan mann, JAFNVEL þótt hann sé stærri og sterkari en þú, og byggja síðan ofan á það með tíðari æfingum á kýlingum og spörkum. Það eru ekki öll BJJ gym sem æfa kýlingar og spörk, en gym-ið mitt og Bjarna gerir það, sér í lagi fyrir þá sem lengra eru komnir.
Athugaðu að ekki allir götubardagar innihalda marga árásarmenn, vopn og glerbrot út um allt. Slíkt er þó líklegra að lenda í fréttunum og því heldur margt fólk að þetta sé ögn algengara en það í raun er.
Svo eru margir sem telja það vera ögn ofmetið hvað spörk frá vinum gera mikinn skaða. Ég þekki t.d. nokkra dyraverði sem hafa lent oft í því að vera að setja fólk í lása á jörðinni á MEÐAN vinir þeirra eru að sparka í þá. Þeir náðu ekki að sparka í nógu “góða” staði á dyraverðinum og ekki nógu lengi til að meiða hann nógu mikið. Og adrenalínið hjá dyraverðinum hélt honum gangandi þangað til að hann gat snerið sér að næsta manni. Eins og ég sagði, ég hef heyrt þetta frá fleiri en einum.
Hér er annað sem ég hef heyrt frá mörgum frægum bardagalistamönnum sem vita betur en flestir hvað þeir eru að tala um: “BJJ er besta 'one-against-one-no-weapons bardagalist sem til er”. Svona “challenge matches”, eða “áskorunarbardagar”, þar sem einn berst á móti einum með engum reglum og engum vinum til að hjálpa og engum vopnum, hafa verið haldnir það oft að það má segja að þetta hafi verið tölfræðilega sannað. Stór punktur í kladdann fyrir BJJ.
En til að koma svo með mótrök gegn sjálfum mér og BJJ, bardagalist minni, þá er það líka möguleiki á því að ef að þú ert mjög, mjög góður boxari, eða Karate maður, að þú náir að MEIÐA (ekki endilega rota) fyrstu 2 árásarmennina HRATT - þannig að restin af vinahópnum heldur sér í fjarlægð frá þér, vegna þess að þeir verða hræddir við þig. Þetta er erfiðara að gera með BJJ.
Þegar ég fór að spá í svona hlutum fyrir löngu síðan, tók ég þá ákvörðun að ég ætlaði að HÆTTA að hugsa þannig að sú bardagalist sem ég æfi sé BEST. Ég hef æft nokkrar bardagalistir og oft hugsað með mér, vegna þess að ég var yngri og óreyndari :), að NÚNA hefði ég loksins fundið BESTU bardagalistina. Ég ákvað loks að hætta þessum hugsunarhætti. Það eru einfaldlega of margar rökvillur í öllu sem snertir götubardaga og of mikið sem getur farið úrskeiðis, sama hvaða stíl þú kýst að nota. Sumt virkar betur en annað í sumum aðstæðum. Svo eru líka miklu betri ástæður en “sjálfsvörn” til að æfa bardagalist. Bardagalistir ættu að gera okkur að betra fólki. Alla vegna ögn betra.
En það sem að laðar margt fólk fyrst að brasilísku Jiu Jitsu er það að það horfði á þessar MMA keppnir, yfirleitt UFC, og sá að litli gaurinn, Royce Gracie, var að VALTA yfir andstæðing eftir andstæðing, stóra og sterka bardagalistamenn. LOKSINS var hið heilaga loforð bardagalistanna, um að veikari maður gæti sigrað sterkari, SÝNILEGT í UFC. Og það var Royce sem gerði það. Það er stórkostlegt að sjá þetta. Þetta vill margt fólk kynna sér nánar. Það vill komast að því hvaða tækni býr á bak við velgengni Royce Gracie. Eins og Royce sagði sjálfur - “það er ekki ég sem er góður, það er tæknin í Jiu Jitsu. Bróðir minn er t.d. 10 sinnum betri en ég”.
Kveðja,
Jón Gunnar.