Fyrir áhugasama, þá voru eftirfarandi spurningum svarað í seinasta tíma:
- Hvernig er hægt að plata mann til að falla fyrir “keylock frá side mount”, ef hann veit að maður vill ná þessu bragði á hann OG hann er góður að sleppa úr side mount í þokkabót?
Svar: Ein mjög góð leið er að leggja framhandlegg manns þvert yfir háls andstæðingsins og pressa hægt niður, til að fá fjær hendina til að ýta hausnum manns upp. Það er mikilvægt að hafa þyngdarpunktinn neðarlega þegar maður gerir þetta, svo að andstæðingurinn rúlli manni ekki yfir sig og einnig svo að hann noti ekki NÆR höndina til að verja sig. Um leið og fjær höndin byrjar að ýta hausnum manns upp - þá keyrir maður höndina niður með enninu og grípur hana síðan með “keylock” gripinu til að læsa honum. Athugið til að þetta verði ekki algjör ritgerð hjá mér, neyðist ég til að nota hugtök sem við notum á æfingu, þannig að margir munu sjálfsagt ekki hafa hugmynd um hvað ég er að bulla.
- Hvaða brögð frá “side mount” virka hvað oftast í grappling keppnum?
Þau eru nú mörg en einna helst eru það “keylock”, “kimura” og “step over armbar” sem maður sér. Þar að auki virkar vel að fara í “kneebar” (jafnvel “heel hook” eða “ankle lock”) og að færa sig yfir í full mount. En kannski það mikilvægasta að læra frá side mount er að SJÓRNA andstæðingnum því án þess er frekar vonlaust að ná neinum lásum. Svo að lokum er ENN mikilvægara að vera góður í að SLEPPA úr slæmum stöðum, eins og t.d. side mount, því að maður sem er góður í að sleppa, nær YFIRBURÐA stöðum aftur og aftur og getur prufað sig áfram með lása sem hann/hún hefur verið að læra í tímunum - án mikils ótta við að mistakast og enda í slæmri stöðu. *byrjar að anda aftur vegna langrar setningar*
- Hvaðan kemur aðal vogaraflið sem þarf til að klára “kimura” lásinn?
Ef þú notar mikinn styrk til að reyna að klára “kimura” lásinn með því að SNÚA hendinni (sem er lokastigið í lásnum), þá er í fyrsta lagi meiri hætta á því að þú slasir andstæðinginn óvart (í staðinn fyrir að fá hann til að gefast upp) OG einnig er vogaraflið ekki svo gott í þessarri loka-snúningshreyfingu). Betra er að nota kraftinn (ef einhvers kraftar þarf) til að toga olnbogann eins nálægt hausnum (og þá fjær mjöðm) og hægt er, ÁÐUR en maður byrjar að snúa upp á hendina til að klára lásinn. Því kjósa margir kimura sérfræðingar að klára lásinn frá “north-south” stöðunni þó þeir byrji lásinn frá “side mount” stöðunni.
Málið er að maður þarf að snúa hendinni MIKLU minna til að klára lásinn þegar olnboginn er svona hátt upp en þegar hann er niðri. Prufiði þetta, þeir sem kunna þennan lás og sjáið hvað ég á við.
- Er hægt að gera eitthvað sem virkar mjög vel þegar andstæðingur minn stígur yfir mig þegar ég hef hann í “omo plata” lás?
Það að stíga yfir andstæðinginn þegar maður er að lenda í omo plata er eitt besta gagnbragðið við omo plata og þar að auki er eðli bragðsins það að maður hefur talsvert vogarafl til að geta stigið yfir andstæðinginn. Því er mikilvægt að vita hvað maður getur gert þegar þetta gerist, því það gerist frekar oft að þetta sé reynt.
GAGNBRAGÐIÐ VIÐ GAGNBRAGÐINU er að vefja handlegg manns í kring um læri andstæðingsins þegar hann reynir að stíga yfir mann og velta honum síðan yfir sig. Maður heldur svo áfram að snúa sér og endar ofan á honum. Ok, maður kláraði ekki omo plata lásinn en er þó kominn ofan á hann og er í betri stöðu en maður var (var í “guard” stöðunni, reyndi omo plata og endaði ofan á í “side mount” stöðunni).
Það er að sjálfsögðu mjög erfitt að útskýra svona brögð vel í rituðu máli og ég hef sleppt hinum og þessum smáatriðum hér að ofan til að stytta mál mitt. Allt þetta og miklu meira er útskýrt aftur og aftur á æfingum okkar.
Bestu kveðjur,
Jón Gunna