Ég bjóst alveg við því að fá svona skot á mig og það kom í raun á óvart að það hafi ekki gerst fyrr. Leyfðu mér að útskýra og svara fyrir mig.
Það hefur aldrei verið meiningin með BJJ kennslunni minni að lítilsvirða neinn og sér í lagi ekki alla þá háttvirtu bardagalistaskóla sem reknir eru hér á landi. Ég ber mjög mikla virðingu fyrir þessum skólum og þeim kennurum sem kenna hér, enda hef ég iðkað nokkrar þeirra og get vottað fyrir því að þar eru margir einstaklega góðir kennarar á ferð. Einn fremstan þar í flokki get ég nefnt Hinrik Fjeldsted sem kennir World Jiu Jitsu á sama stað og BJJ-ið er kennt (bara í öðrum sal). Hann kenndi mér World Jiu Jitsu í eitt ár fyrir nokkrum árum síðan og er frábær kennari sem ég ber mikla virðingu fyrir. Einnig hef ég haft góða Júdókennara sem allir kunna sitt fag mjög vel. Ég get skilið það ef að BJJ-ið fer fyrir brjóstinu á einhverjum og biðst afsökunar á því ef ég hef móðgað einhverja.
Það má vera að þetta hafi eitthvað haft með auglýsinguna að gera sem ég hengdi upp á nokkrum stöðum í bænum en ef grannt er á hana litið má sjá að hún er í raun og veru bara að útskýra það að BJJ varð fræg fyrir að ganga vel í þessum Ultimate Fighting Championship Keppnum og að áherslan sé á að læra að nota tækni á andstæðinga sem streitast á móti. Meirihluti af tækninni er gólftækni. Hugsanlega væri hægt að breyta auglýsingunni og segja að við kennum “Submission grappling”, ef að það friðþægir einhverja. Samt sem áður er þetta Brazilian Jiu Jitsu. Nánar tiltekið það afbrigði af BJJ sem kallast oft “no-gi BJJ”, því að við æfum 99% í venjulegum íþróttafatnaði og ekki í júdógöllum. Þetta er eitt stærsta afbrigði af BJJ sem til er og vel þekkt af fólki sem er inni í þessu. Sumir vilja reyndar kalla þetta “Submission Grappling”. Það kemur reyndar út á eitt hvað þetta er kallað. Ég vildi bara vekja áhuga þeirra sem hafa áhuga á BJJ, að ég hef áhuga á að koma einhverju svona af stað hérlendis. Einhversstaðar verður maður að byrja.
Við sem höfum verið með þessa BJJ (Brazilian Jiu Jitsu) tíma höfum aldrei haldið því fram að við höfum kennararéttindi í þessu. Allir þeir sem æfa og hafa æft með okkur hafa fengið að vita þetta strax og hafa einfaldlega haft frjálst val um hvort þeir halda áfram eða ekki. Þetta er það fyrsta sem við segjum nýjum nemendum. Meirihluti þeirra sem hafa mætt hafa haldið áfram vegna þess að þeim líkar kennslan og finnst þeir fá mikið út úr tímunum. Við erum alls ekki að sigla undir fölsku flaggi. Við erum sér í lagi ekki að bera okkur saman við Royce Gracie eða neinn annan, kennslulega séð og ég veit ekki hvaðan þú færð þá staðhæfingu.
BJJ tímarnir eru EKKI EINHVER UNDERGROUND *FIGHT CLUB*, fyrir þá sem halda það.
Markmið okkar sem erum að kenna þetta, sem er aðallega ég þessar mundir, er að reyna að koma af stað BJJ, sem bardagalist og íþrótt hér á landi. Upprunalega fékk ég áhuga á BJJ og byrjaði að kaupa kennslumyndbönd til að læra eitthvað um þetta því að þetta hefur hingað til ekki verið kennt á Íslandi. Mig langaði samt mikið til að læra þetta og taldi að Júdó væri sennilega “næstbesti” kosturinn. Ég fór í Júdó og komst að því að það er hreint frábær bardagalist, stórskemmtileg og mikið af góðu fólki þar. Ég ber heilmikla virðingu fyrir Júdó.
Ég lenti síðan í því að slíta krossbönd á æfingu og þegar ég var búinn að vera í sjúkraþjálfun í marga mánuði, datt mér í hug að ég væri kannski orðinn nógu góður í hnénu til að fikta eitthvað í gólfglímu (því að hún er ekki svo hörð við hnéin) og sér í lagi eitthvað við þetta BJJ efni sem ég átti á vídeóspólum. Ég auglýsti því hér á huga.is eftir fólki sem væri til í að læra BJJ með mér af spólunum og athuga hvort að við gætum hugsanlega komist eitthvað langt með þetta. Það kom á daginn að það var mikill áhugi fyrir þessu og við byrjuðum að æfa reglulega.
Líttu á þetta þannig: Það eru margir sem hafa áhuga á að læra eitthvað í BJJ. Ég hefði getað og get sleppt því að vera að kenna þetta, vegna þess að ég hef ekki raunveruleg réttindi til þess og sumir kynnu að “móðgast” yfir því að ég sé að þessu. En fyrir fólk sem langar til að kynna sér BJJ, þá er það þetta eða ekkert á Íslandi. Júdó kemst næst þessu en hefur aðrar áherslur og er, þegar allt er á botnin hvolft, einfaldlega önnur bardagalist, alveg eins og að Karate er önnur bardagalist. Að koma til mín er betra en EKKERT fyrir BJJ áhugafólk, er það ekki? Ég sé ekki betur en að þeir sem æfa með mér séu þakklátir fyrir að geta lært eitthvað í þessu og að þeir séu mun betri í gólfglímu en þeir voru.
Og að mínu mati er kennsla mín talsvert betri en engin og ég skal bera rök fyrir því hvers vegna mér finnst það. Í fyrsta lagi hef ég fengið í hendurnar, í gegn um kennslumyndbönd, bækur, netið og í tölvupósti frá mörgum af bestu BJJ kennurum í heiminum, margoft, byrjenda prógrömm í BJJ og þau eru öll MJÖG svipuð. ÉG ER EINFALDLEGA AÐ KENNA SLÍKT BYRJENDA PRÓGRAMM. Og þetta prógramm ætti að getað enst fólki í 1-2 ár. Þú spyrð þig kannski hvað gerist þegar fólk er búið að vera hjá mér í 1-2 ár. Á þeim tíma verð ég búinn að sanka að mér meiri þekkingu á “millistigs” eða “intermediate” BJJ og verð tilbúinn þegar það gerist. Einnig er það planið hjá mér - eða einhverjum duglegum nemanda mínum, að hitta einhvern virtan erlendan BJJ kennara og FÁ kennsluréttindi í BJJ.
Í öðru lagi geri ég mér fulla grein fyrir því að fólk ætlast til þess að fá góða kennslu í þessu jafnvel þótt ég sé ekki viðurkenndur kennari. Þar af leiðandi hef ég í um það bil 1-2 ÁR (já, ár) verið að læra, læra og læra meira heima hjá mér af kennsluefninu mínu á hverjum degi eins mikið og ég get, senda tölvupósta á kennarana sem ég þekki í útlöndum með endalausum spurningum, hanga á spjallrásum til að læra meira, og fá lausnir við öllum mögulegum og ómögulegum spurningum sem nemendur mínir eða ég sjálfur kynni að spurja mig. Hingað til hefur ekki komið upp sú spurning sem ég hef ekki getað svarað og vitað rétta svarið við. Ef það kæmi upp myndi ég einfaldlega segja að ég vissi ekki svarið en að ég skyldi spyrja kennara í gegn um tölvupóst eða netið.
Það jaðrar á suman hátt við óheilbrigði hvað ég hef eytt miklum tíma í að pæla í BJJ, svo mikið að vinna og einkalíf hefur stundum þurft að sitja á hakanum. Ég hef verið, og er búinn að hugsa um BJJ dag og nótt og hef jafnvel verið andvaka að hugsa um lausnir á hinum og þessum brögðum í þessari bardagalist. Ég geri þetta vegna þess að ég set mjög háar kröfur á sjálfan mig í hverju sem ég tek mér fyrir hendur og sér í lagi í þessari BJJ kennslu. Við erum ekki að grínast með þetta. BJJ er farið af stað fyrir alvöru og með miklum krafti.
Fólk borgar mjög lítið fyrir þessa tíma (2900 kr á mánuði) miðað við aðrar bardagalistir og aðrar íþróttagreinar. ALLUR þessi peningur fer til Hnefaleikafélags Reykjavíkur, því að við höfum húsnæði hjá þeim. EKKERT fer til mín, enda kynni ég ekki við að taka pening fyrir kennslu í einhverju sem ég hef ekki raunveruleg réttindi til að kenna. Þetta er því langt því frá að vera eitthvað gróðaplokk. Ég vil líka minnast á að Hnefaleikafélag Reykjavíkur er ekkert tengt BJJ kennslunni fyrir utan það að við leigjum húsnæðið og aðstöðu þeirra. Þeir hafa reynst okkur vel en ég vil taka það fram að ÉG ber ábyrgð á öllu því sem BJJ tímunum viðkemur og það er ekki hægt að saka H.R. um neitt. Þetta verður að vera á hreinu.
Ekki HALDA að ég geri mér ekki grein fyrir því hversu erfitt allt þetta er fyrir mig og hversu marga nemendur ég gæti hugsanlega misst út af því að hafa ekki kennsluréttindi. En eins og ég sagði áður, mjög margir af þeim sem hafa kíkt á þetta hafa haldið áfram, merkilega margir í raun og veru, og þetta hefur gengið betur en mér nokkurn tíma dreymdi.
BJJ er ekki ennþá orðið það útbreitt að fólk geti farið í BJJ tíma í hvaða borg sem er í heiminum, eins og ástandið er með t.d. Karate og Tae Kwon Do. Það er satt best að segja ekki óalgengt að SVONA BYRJI BJJ KENNSLA í borgum, þar sem kennari er búsettur. EINHVERSSTAÐAR VERÐUR MAÐUR AÐ BYRJA!
Og að lokum er það ekki rétt að segja að “BJJ er engan vegin það sama og Gracie Ju Jitsu”. Royce, Rickson og fleiri úr Gracie fjölskyldunni hafa sagt að BJJ SÉ það sama og Gracie Jiu Jitsu. Hins vegar hefur BJJ verið að þróast talsvert á undanförnum tíu árum eða svo og nánast því enginn notar nafnið “Gracie Jiu Jitsu” lengur.
Virðingarfyllst,
Jón Gunnar Þórarinsson.