Það má vera að manni finnist leiðinlegt að æfa tækni eða að manni finnist leiðinlegt að sparra. Gott og vel. En athugum hvað gerist ef maður sleppir öðru hvoru eða stundar það nánast ekki neitt:
Ef maður sleppir sparring, þá lærir maður ekki að nota tæknina í “lifandi” aðstöðu. Maður lærir grunntæknina en mun ekki hafa vald á að vinna vel með hana á móti andstæðingi sem berst tilbaka. Þegar maður framkvæmir einhverja tækni í sparring, þá er hún sjaldnast alveg nákvæmlega eins og hún er æfð í tækniæfingum. Maður verður yfirleitt að halla sér örlítið þangað, færa sig hingað, nota fleiri skref, setja bragðið upp o.s.frv. Ég held að flestir sem hafa eitthvað vit á grunn sparring séu sammála þessu.
Ef maður sleppir tækniæfingum þá er mikil hætta á að maður staðni og noti alltaf sömu brögðin. Þó að það geti reyndar stundum verið allt í lagi þá getur það einnig gerst að þessi “uppáhaldsbrögð” fari að ryðga. Þú vilt hafa vopnin þín beitt og það gerist m.a. með því að æfa grunntæknina.
Ef við líkjum þessu við skylmingarmann þá mætti segja að tími í grunntækniæfingar sé jafngilt því að sverðið sé beitt og að tími í sparring sé jafngilt því að maður sé fimur og góður að skylmast með þessu beitta sverði sínu. Góður skylmingarmaður með bitlaust sverð er álíka gagnlaus og lélegur skylmingarmaður með beittasta sverð í heimi.