Áhugaverð grein frá taekwondo.is:
——————-
Stofnfundur TKÍ
Stofnfundur Taekwondosamband Íslands, skammstafað TKÍ, var haldinn þriðjudaginn 17. september kl. 17:15 í ÍSÍ miðstöðinni í Laugardal. Á dagskrá fundarins voru formaður og nefndaraðilar kosnir auk þess sem táknmynd TKÍ var samþykkt. Fundurinn var vel sóttur, fólk frá öllum taekwondofélögunum mættu ásamt fólki frá ÍBR og HSK. TKÍ er 24. sérsamband innan ÍSÍ.
Fundurinn hófst með ávarpi Ellerts B. Schram forseta ÍSÍ. Í ávarpinu sagði Ellert að TKÍ uppfyllti öll þau skilyrði sem sérsamband þarf að uppfylla. Hann minntist einnig á að um sjöhundruð virkir iðkendur stunduðu íþróttina og um þúsund væru skráðir meðlimir í félagaskrám félaganna.
Stefán Snær Konráðsson framkvæmdarstjóri ÍSÍ færði TKÍ síðan styrktarfé að gjöf til uppbyggingar sambandsins og íþróttarinnar.
Snorri Hjaltason var kjörinn formaður sambandsins einróma. Í stjórn með honum voru svo kosnir Jón Ragnar Gunnarsson, Sigursteinn Snorrason, Kjartan Sigurðsson og Sverrir Tryggvason. Í varastjórn voru kosin Ari Normandy Del Rosario, Þórdís Úlfarsdóttir og Björn Þorleifsson. Endurskoðendur sambandsins voru kosnir Friðjón B. Friðjónsson og Hörður Gunnarsson.
Í ræðu Snorra, þakkaði Snorri þeim sem hann hefur unnið með sem formaður Taekwondo-nefndarinnar síðustu tvö ár. Hann nefndi einnig að stuðningur við keppnismenn myndi aukast, og stefnan væri sú að senda út fyrsta íslenska taekwondo keppendann á næstu ólympíuleika. Í lok ræðunnar sagði Snorri: “Þetta er stór dagur í hjörtum svo margra sem hafa lagt mikið á sig til að þessi stund mætti upp rísa, því endurtek ég það, til hamingju með TKÍ.”
Í lokin var haldin sýning fyrir fundarmeðlimi undir stjórn Sverris Tryggvasonar, og vakti hún góðar undirtektir viðstaddra.
Texti: Erlingur Jónsson
www.taekwondo.is