Nokkur umræða hefur spunnist hér á Huga um Aikido og hvort sú „bardagalist“ virki við raunverulegar aðstæður. Þessi umræða kemur alltaf upp öðru hverju og afar athyglisvert að sjá viðbrögð við þeirri umræðu oft á tíðum. Áður en lengra er haldið, og til að taka af allan vafa fyrir þá sem ekki þekkja skoðanir þess sem þetta skrifar, þá skal ég strax taka fram að Aikido er að mínu mati (og ég er ekki einn um þá vissu) afar gagnslítið (hugsanlega gagnslaust) sem sjálfvarnaríþrótt, í það minnsta eins og það er víðast kennt í dag. Aikido hefur litla eða enga virkni við raunverulegar aðstæður þar sem um alvöru árás eða átök er að ræða. Það þýðir auðvitað ekki að Aikido geti ekki veitt þeim sem það stundar ánægju og gleði eða gert þeim gott á marga vegu. Um það deili ég ekki. En slíkt á auðvitað líka við um margt annað en það gerir það ekki að virki bardagatækni eftir sem áður. Þetta eru náttúrlega engin ný sannindi og menn hafa lengi átt í þessari baráttu innan martial arts, þ.e. baráttunni gegn allskyns mýtum og blekkingum. Sjálfur varð ég fyrst áþreifanlega var við þetta eftir að hafa upplifað muninn á „Kung Fu“ þjálfun sem ég fiktaði við fyrir um 30 árum eða og svo full contact kickboxi sem ég stundaði á Keflavíkurflugvelli í kjölfar þess. Einnig eftir að hafa stundað einhverslags sambland af World Jiu Jitsu/Aikido (var nú bara kallað jujitsu af þeim sem það kenndi) og fara síðan í Judo og vera pakkað saman vini mínum (Magnúsi Haukssyni o.fl.) í Keflavík. Það var fínt reality check og síðan hefur auðvitað mikið vatn runnið til sjávar og allt framboð á bardagaíþróttum orðið mun fjölbreyttara og betra í dag og umræðan opnari… svona yfirleitt. Enn er þó mikið verk óunnið í að efla veg bardagaíþrótta hér á landi, sem og annarsstaðar, og að vinna gegn öllum þeim villuljósum sem kveikt eru til að afvegaleiða þá sem ekki vita betur og eru í góðri trú að nema eitthvað sem þeir telja að veiti þeim raunverulega bardagafærni og/eða kenni þeim alvöru sjálfsvörn.
Og þarna liggur hundurinn grafinn. Nefnilega í þeirri staðreynd að t.d. Aikido er iðulega auglýst sem „sjálfsvörn“ sem það er ekki og þar með er verið að selja fólki falska vöru, eða eigum við að segja að selja því annað en það telur sig vera að greiða fyrir. Verra er þó að slíkar fullyrðingar geta beinlínis veitt fólki falsa öryggistilfinningu og látið það vaða í þeirri villu að það ráði við aðstæður sem eru því gjörsamlega ofviða. Þetta er reyndar ekkert nýtt í heimi bardagaíþrótta eða bardagalista (martial arts). Það er auðvitað með hreinum ólíkindum hversu mikið bull og þvæla hefur viðgengist gegnum tíðina, allskyns peningaplokk dulbúið sem bardagalist. Alltaf reglulega spretta upp einhverjir „gúrúar“ og „senseiar“ sem halda því fram að þeir geti jafnvel yfirbugað andstæðinga sína með leyndri orku og slegið þá niður án þess að snerta þá og guð má vita hvað. Aðspurðir hafa þessir sjálfskipuðu „snillingar“ iðulega numið tækni sína af „leyndum austurlenskum meistara“ sem dvelur í hlíðum Himalaya eða einhversstaðar í myrkustu frumskógum Kína eða annarsstaðar þar sem enginn finnur þá. Og auðvitað finnur engin þá sem ekki eru til og hafa aldrei verið til. Einkenni þessara nýju gúrúa sem selja ósigrandi tækni sína á markaðstorgum Vesturlanda er auðvitað sú að þeir geta bara sýnt fram á getu sína með sínum eigin nemendum sem eru meðvirkir í blekkingunni. Þeir geta hins vegar aldrei sýnt þetta við raunverulegar aðstæður gegn ómeðvirkum andstæðingi. Stundum hefur það gerst að menn verið orðnir svo sjálfdauna eigin blekkingum að þeir hafa verið farnir að trúa þeim sjálfum og þá jafnan verið afhjúpaðir ef þeir hafa látið á þetta reyna. Yfirleitt er það þó þannig að þegar þeir hafa verið kallaðir fram til að sanna getu sína gegn andstæðingi sem ekki er „samvinnufús“ þá hafa með sett upp mysterískan helgisvip (þannig að þeir virðast helst ætla að bresta í bæn) og haldið því fram að tækni þeirra sé svo hættuleg og banvæn að það sé því miður ekki hægt sýna hana við raunverulegar aðstæður. Þegar menn eru þá bara beðnir um að sýna það sem þeir sýndu með nemendum sínum (sem allir lifðu þó af) hefur verið fátt um svör og ofurmennin iðulega sagst vera „yfir það hafin“ að þurfa að sanna sig. Þeir hafa hins vegar auðvitað ekki verið yfir það hafnir að taka við háum greiðslum frá nemendum eða verið yfir það hafnir að sýna „kraftanna og ofurtæknina“ með réttum meðvirkum andstæðingum.
Nú er ég ekki að segja að því sé haldið fram í Aikido að menn geti yfirbugað andstæðinga sína með „duldum kröftum“ þó dæmi um slíkt megi vafalítið finna hér og þar. En Aikido er þó langt frá því að vera laust við blekkingar í mörgum tilfellum. Blekkingarnar felast einfaldlega í því sem áður hefur verið nefnt, nefnilega að halda því fram að Aikido sé sjálfsvörn og veiti þannig mönnum tækni sem virki gegn raunverulegum árásarmanni. Á vefsetri Aikido.is segir að í Aikido sé „áhersla lögð á að æfingafélagar vinni saman að því að bæta sig í stað þess að keppa að árangri á kostnað annarra“ (stafsetningaleiðréttingar mína). Gott og blessað. En hvernig getur þá verið um virka sjálfsvörn að ræða? Hvernig getur árásarmaðurinn og fórnalambið unnið saman? Í myndböndum af Aikido eru „meistararnir“ iðulega sýndir henda „andstæðingum“ sínum til og frá með örlítilli hreyfingu og því haldið fram að þetta sé gert með því „að beina krafti andstæðings frá sér“ svo aftur sé vísað til Aikido.is. Notkun á krafti andstæðingsins er alþekkt í virkum bardagaíþróttum eins og BJJ og Judo en í Aikido er því miður sjaldnast um slíkt að ræða, heldur er andstæðingurinn fullkomlega meðvirkur og rúllar sér til og frá í samræmi við það sem til hans er ætlast. Útkoman yrði hins vegar auðvitað allt önnur ef „andstæðingurinn“ myndi beita sér í alvöru og væri ekki meðvirkur þeim sem er að „verjast“ árásinni. Og þegar menn æfa ekki með „lifandi“ og raunverulegri mótspyrnu þá munu menn aldrei ná virkri tækni við alvöru aðstæður og því getur ekki verið um neina sanna sjálfsvörn að ræða né raunverulega bardagagetu. Aikido kennarinn sem „þeytir“ mönnum til og frá þegar hann sýnir „færni“ sína gæti því aldrei geta gert neitt þessu líkt gegn neinum sæmilega hraustum andstæðingi sem ekki tæki þátt í leiknum, hvað þá einhverjum sem hefði t.d. æft BJJ eða Judo. Þess vegna er Aikido ekki raunveruleg sjálfsvörn eða bardagatækni að mínu mati þó ástundum þess geti vafalítið verið bæði skemmtileg og gagnleg að mörgu öðru leyti.
Að lokum. Til að forðast allan misskilning þá held ég því ekki fram að einhver ein bardagaíþrótt sé miklu betri eða öðrum æðri. Ég veit að svo er ekki, heldur þurfa menn helst að iðka sambland af ýmsum til að ná alvöru bardagahæfni og getu. Ég veit það hinsvegar að „dauð“ bardagaform munu ekki skila mönnum neinni alvöru bardagagetu. Til þess að ná slíku þarf þjálfunin að vera lifandi, raunhæf og falslaus. Það besta fyrir þá sem hafa æft dauða og óvirka „bardagatækni“ hingað til er að staldra aðeins við, hugsa málið og vera hreinskilnir við sjálfan sig. Ef þeir síðan hafa áhuga á að öðlast alvöru bardagafærni þá er bara að taka þau mál föstum tökum og snúa sér að lifandi bardagaíþrótt. Ef maður er á villigötum þá mun maður aldrei rata rétta leið nema leiðrétta stefnuna. Sannleikurinn mun gera yður frjálsa.