Frægðarhöll taekwondo íþróttarinnar (THE OFFICIAL TAEKWONDO HALL OF FAME®) eru alþjóðleg samtök sem hafa það markmið að leita uppi einstaklinga eða hópa sem hafa unnið frábært starf í þágu taekwondo og veita þeim viðurkenningu. Viðurkenningarnar eru gjarnan veittar til frumkvöðla sem eru stofnendur fyrstu félaganna í einstökum löndum eða fyrir annað þróunarstarf.
Feðgarnir Snorri Hjaltason og Sigursteinn Snorrason fá viðurkenningu frá samtökunum á föstudaginn langa og verða þá teknir inní frægðarhöll taekwondo íþróttarinnar. Þeir eru fyrstu Norðurlandabúarnir og einir af fáum Evrópubúum sem hafa hlotið þessa miklu viðurkenningu fyrir störf sín.
Viðurkenningarnar verða afhentar á árlegri hátíð samtakanna í New Jersey í Bandaríkjunum. Á athöfninni verður margt af fremsta taekvondo fólki heims viðstatt m.a. verðlaunahafar á Ólympíuleikum og Heimsmeistaramótum.
Þeir Snorri og Sigursteinn eru vel að viðurkenningunum komnir enda hafa þeir unnið mikið og gott starf fyrir taekwondo íþróttina á Íslandi: Snorri var formaður Ungmennafélagsins Fjölnis árin 1993-1998. Á þeim árum var taekwondodeild Fjölnis stofnuð. Snorri hefur stutt nær allar taekwondodeildir landsins bæði fjárhagslega og með pólitískum stuðningi. Þá var hann einn aðal hvatamaðurinn að stofnun Taekwondosambandsins. Menn höfðu reynt að stofna sérsamband fyrir taekwondo í yfir tíu ár en ekki tekist, Snorri náði því hinsvegar í gegn á nokkrum mánuðum. Snorri er í dag heiðursformaður Fjölnis og Taekwondosambands Íslands.
Sigursteinn stofnaði Taekwondodeild Fjölnis árið 1994 og hefur stofnað sex aðrar deildir eftir það, nú síðast Taekwondodeild KR árið 2006. Hann kemur að þjálfun leikmanna og þjálfara hjá átta félögum á Íslandi auk þess að vera landsliðsþjálfari. Á síðasta Norðurlandamóti náði landsliðið undir hans stjórn 16 verðlaunum og þar af 4 gullum sem er besti árangur Íslendinga hingað til. Þá hefur Sigursteinn síðastliðin fjögur ár staðið fyrir taekwondo æfingum á heimili fyrir munaðarlaus börn í Mexíkó ásamt Jóni Levy Guðmundssyni. Þar stunda nú 150 manns taekwondo og er í undirbúningi annað slíkt verkefni í Brasilíu.
Öflug þróun og hröð útbreiðsla taekwondo íþróttarinnar á Íslandi hefur vakið athygli erlendis. Íslenskt taekwondofólk hefur staðið vel að sínum málum og hafa feðgarnir Snorri og Sigursteinn farið þar fremstir í flokki . Snorri og Sigursteinn hafa áður verið heiðraðir á alþjóðlegri grundu fyrir góð störf í þágu taekwondoíþróttarinnar. Snorri er með 4.dan Heiðursmeistaragráðu frá Kóreu og Sigursteinn hefur fengið verðlaun frá Taekwondo Promotion Foundation í Kóreu og framistöðuviðurkenningu frá Kukkiwon, höfuðstöðvum Taekwondo í Kóreu.
Nánar um hátíðina má finna hér: http://www.taekwondohalloffame.com.
Stjórnandi á