Jæja, þá er mótinu lokið og var þetta með einu skemmtilegasta Ísl. mót sem ég hef fylgst með og keppt á. Ég mun fara út í helstu glímur og úrslit í einstaklingskeppni sem og sveitakeppni eins og minnið leyfir mér. Endilega komið með ykkar álit á mótinu og/eða athugasemdir við greinina.
Byrjum á -60 kg flokknum. Þar var það Axel Kristinsson (Ármann) sem bar nokkuð öruggan sigur úr býtum. Þær glímur sem ég sá Axel glíma kláraði hann á ippon kasti.
-66 kg flokkurinn var mjög spennandi og er það glíma Vilhelms Svansons (Ármann) og Höskulds Einarssonar (JR) sem stóð upp úr. Báðir menn glímdu af varkárni og Vilhelm passaði vel að fara ekki í gólfið með Höskuldi, þar sem Höskuldur er þaulreyndur gólfglímukappi. Vilhelm náði að skora yuko (10 stig) á Höskuld en Höskuldur náði síðan taki á belti Vilhelms og kastaði honum þegar það voru einungis 3 sekúndur eftir af glímunni. Höskuldur fékk wazari (100 stig) fyrir það og dugði honum til að sigra þessa hörku viðureign.
Til úrslita glímdu síðan JR-ingarnir Höskuldur og Viktor Bjarnason. Þar náði Viktor mjög svo fallegu vinstri seoinage-kasti og fékk ippon fyrir það (Fyrir þá sem þekkja ekki til stiga í júdó, þá merkir ippon fullnaðarsigur og lýkur glímu þegar það næst).
Í -73 kg flokknum voru sterkir keppendur mættir til leiks og má þar helst nefna Kristján Jónsson, Jón Þór Þórarinsson (báðir úr JR) sem og Birgir Pál Ómarsson (Ármann). Tapaði undirritaður á móti Jón Þóri þar sem hann náði öflugu mótbragði snemma í glímunni og fékk ippon fyrir það. Í næstu viðureign Jóns, keppti hann á móti Bigga en þeir hafa oft áður att kappi við hvorn annan og því spennandi glíma, en hún endaði með því að Birgir felldi Jón sem lenti beint á bakinu og var þá Birgir búinn að tryggja sér sæti í úrslitum. Þar mætti hann Kristjáni en þess má geta að Kristján tapaði í síðustu viðureign þeirra. Eftir mikla baráttu í tökum og skemmtilega glímu, náði Kristján taki á belti Birgis og kastaði honum á mjög fallegu taiotoshi sem endaði í ippon. Kristján hefur verið að sækja í sig veðrið undanfarið og það kæmi ekki óvart þó hann myndi enda á verðlaunapalli á Norðurlandamótinu sem haldið verður 30. maí í Danmörku.
Í -81 kg var spáð því að Axel Ingi Kristinsson (JR) myndi vinna sem og hann gerði. -81 kg flokkurinn hefur oft verið mjög sterkur en nú voru fjarverandi tveir mjög sterkir keppendur, þeir Vignir (Ármann) og Snævar (JR). Einnig hefur Sveinbjörn Iura (Ármann) verið á hraðri uppleið en hann sigraði sterkan keppanda, Hermann (JR), á sumigase að mér skilst.
Axel mætti síðan Sveini Orra Bragasyni (JR) í úrslitaviðureign. Báðir menn eru mjög sterkir í gólfinu en þó hefur Axel ívið meiri reynslu og tókst honum að kasta Orra og þar með sigra flokkinn.
-90 kg náði ég ekki að fylgjast vel með en sá þó einhvern hluta úr úrslitaglímunni. Þar öttust þeir Bjarni Skúlason (Ármann) og Jósep Þórhallsson (JR). Hart var barist um tök og þar sem Jósep var undir á stigum ákvað hann að láta til skarar skríða en lenti í mótbragði og vann Bjarni á því. Menn höfðu búist við þessari úrslitaglímu en þar sem Bjarni Skúlason er einn besti júdómaður Íslands, kom ekki óvart að hann skyldi vinna þennan flokk.
-100 kg flokkinn sá ég ennþá minna af, en þó tók ég eftir einu athyglisverðu og það var að hinn gamalreyndi meistari, Vernharður Þorleifsson (Ármann) var að keppa. Þorvaldur Blöndal (Ármann) sigraði -100 kg nokkuð örugglega, að mér skilst. Það ætti svo sem ekki að koma á óvart þar sem Þorvaldur er mjög sterkur keppandi eins og kom skýrt fram í sveitakeppninni.
Í +100 kg flokknum sigraði Þormóður Jónsson (JR) en hann er búinn að vera við stífar júdóæfingar austantjalds. Undirritaður sá ekki mikið af glímunum hans Þormóðs en af því sem sást, var Þormóður sveiflandi mönnum eins og slönguvaðri.
Í opna flokknum öttust þeir Bjarni Skúlason og Þormóður í mjög svo spennandi úrslitaviðureign. Bjarni Skúlason fór inn í seoinage en Þormóður beitti mótbragði og vann glímuna á ippon sem verður að teljast stór sigur.
Anna Soffía Víkingsdóttir sigraði í -70 kg flokki og vann einnig opinn flokk kvenna. Í -78 kg flokki sigraði Árdís Ósk Steinarsdóttir og Ingibjörg Guðmundsóttir sigraði í -57 kg flokki.
Mesta spenna mótsins ríkti yfir þegar JR mætti Ármanni í sveitakeppninni, en þetta eru tvö sterkustu júdólið landsins.
Í -60 kg sigraði Axel Kristinsson sína glímu örugglega á ippon.
Í -66 kg glímdu Höskuldur og Vilhelm í annað sinn. Glíman var tvísýn og hefði getað farið á hvora vegu. Höskuldur, sem var undir á stigum, náði síðan Vilhelm á sinn heimavöll og hélt honum í fastataki í 25 sek. og vann þar með glímuna.
Í -73 kg flokknum mættust Kristján og Birgir aftur. Eftir spennandi og flotta glímu náði Kristján að kasta Birgir á ippon.
Í -81 kg flokknum sigraði Axel með því að halda Sveinbirni í fastataki.
Í -90 kg flokknum glímdu Bjarni og Jósep í annað sinn. Glíman fór á svipaðan veg og fyrri glíman, Bjarna í vil.
Í -100 kg flokknum mætti Jón Blöndal (JR) Vernharði. Þar sem Vernharður er þaulreyndur júdókappi frá alþjóðlegum vettvangi var ekki við öðru að búast en sigri af hans hálfu. Hins vegar stóð Jón sig vel og hefur farið mikið fram.
Þegar komið var að +100 kg flokknum voru stigin jöfn. JR var sem sagt með 3 vinninga, Ármann 3 vinninga og allt vallt á sigri annað hvort Þormóðs (JR) eða Þorvaldar (Ármann). Þormóður kom sterkur inn og skoraði yuko. Þegar glíman var rúmlega hálfnuð óx Þorvaldi ásmegin og náði Þorvaldur að lása Þormóð. Þar með tryggði Þorvaldur glæsilegum sigri Ármanns í sveitakeppninni og óskar undirritaður þeim hjartanlega til hamingju með það.
Þormóður Jónsson og Anna Soffía voru síðan valin júdómaður og júdókona Íslands árið 2007.
Eyjólfur Eyfells