Æfingadagar og Maraþon Bardagalista Sælt veri fólkið,

(Eitthvað var Nekron seinn á sér að skella þessu inn, en nú má væla, kvarta og kenna hollenskum ‘vefþjóni’ um…;-)

Allavega; þá er komið að því að víkja þessu hér inn og gjörið nú svo vel…:


Æfingadagar Grímnis

Andinn var léttur og gefandi, aðsókn góð og stemmingin samkvæmt því, en æfingarsamkomur Grímnis fóru fram sem skyldi og öll áhersla - öðru fremur - lögð á grunntækni-atriði Kihon Happo og Taihenjutsu Ukemi Gata, ásamt Muto Dori Gata og kast-tækni Shurikenjutsu.

Þetta gekk vel og slysalaust eftir öllu (eins og búast mátti við), en nemendur stóðu sig vel og unnu fyrir þeim Kyu gráðum er voru gefnar í lok æfingar á sunnudegi. Nú er bara að halda sér við efnið og sjá hvernig fer…


Maraþon Bardagalista 2007

Maraþonið fór einnig kostulega fram og mæting reyndist tiltölulega góð þrátt fyrir vöntun á auglýsingum og nauðsynlegum tilkynningum til almennilegar mannsöfnunar. Salurinn var þó ‘létt’ fylltur og hinar 4 bardagalistir (Taekwondo, Ninjutsu, Aikido og Shaolin Kung Fu) kynntar í góðu samneyti, en allir skemmtu sér konunglega og reyndist ekkert því til fyrirstöðu; að fólk æfði saman og sýndi þá kosti er vonast var eftir.

Að lokinni stuttlegri kynningu; átti Hr. Sigursteinn Snorrason (4 Dan - Dójang Dreki) hina fyrstu lotu og reyndist tiltölulega fljótur að koma óreyndum - þó áhugasömum - kempum til að stíga sporin samkvæmt aðferðum Taekwondó. Gengu hliðar- og bogaspörk látlaust í höggpúða og verjur ýmisskonar, hvort sem úr kyrrstöðu eða með leiftursnöggum stökkaðferðum til aðgöngu og árása. Hnitmiðaðar - ef ekki auðskiljanlegar - lýsingar og útskýringar Hr. Sigursteins héldu öllum við efnið, en að lokum voru tilþrifin prófuð við sparr-æfingar og var mikið hlegið, slegist og svitnað. Kom þá mörgum nokkuð á óvart hversu kraftmikil spörkin sum reyndust, en allir urðu reynslunni ríkari og réð lofsvert umburðarlyndi húsum er allir gerðu hvað þeir best gátu…

Önnur umferð gafst Grímni á hönd og voru léttileg tilþrif Bujinkan Budo Taijutsu kynnt fyrir áhugasömum þátttakendum, en Ninju-aðferðirnar hófust með veltum ýmisskonar og voru hentugar gólfkúnstir sannreyndar gegn spörkum og hrindingum áður en frekari brögð tóku við. Blandað teygju-, þrek- og hreyfi-æfingum af ýmsum toga; gekk prógrammið fyrir sig nokkuð fyrirferðalaust og stemningin á hápunkti er handalömunar-aðferðir ‘Ken Kudaki’ leiddu til frjálslegra bardaga með viðarsverðum, dálkum og stöfum. Höfðu heiðursmenn Aikikai (Aikido) haft meðferðis nokkur stykki ‘bokken’ og ‘tanto’ til viðbótar þannig að allir höfðu sitt sér til lífsviðurværis er hvatt var til árása í lok æfingarinnar…

Þriðja kynningin féll ‘Aikikai’ Aikido félags Reykjavíkur í vil, en grunnatriði handa- og úlnliðslása voru tekin fyrir og gólfin pússuð þá er fólk féll - umsvifalaust?!? - fyrir hvor öðru. Tæknin var vel kynnt og allir hlutu góð ráð sér til framfæris, en Hr. Alexander Óðinsson (1 Dan) gekk um - í fylgd aðstoðarmanna - og veitti leiðsögn óspart, öllum til betrunnar og hélst salurinn á góðri hreyfingu þar til - fyrr en varði - komið var að stuttu hléi. Þóttu sumir hverjir ívið klunnalegri og stirðari fyrir; þá er síga fór á seinni hluta Aikido kynningar og þreytan fór að gera vart við sig, en skrefunum var haldið óspart og margt lært við hvert fótmál…

Hinn fjórði og síðasti hluti Maraþons gafst Hr. Ásmundi Jóni Marteinssyni á hönd, en hann hafði tekið að sér leiðbeinslu við fráfall kennara Heilsudrekans og bauð uppá á aðferðir ‘Shao-lin Long Fist (Shao-lin Chang Quan)’ til að bragðbæta samkomuna með rósömum - þó ívið sársaukafullum - kúnstum klassískrar árásartækni kínverskra bardagalista. Dínamískar beitingar á líkama og veiklegri árásarsvæði andstæðings lágu fyrir allra helst, en sérstök einkenni stílsins komu fram í tilteknum lágum spörkum ásamt samfelldum tilþrifum hnefaárása og varna. Niðursnúningar og limaherðandi æfingar komu svo í lokin, en voru þá afslappandi leikar og leiðsagnir vel þegnar er flestir voru að þrotum komnir. Gamanið hélst þó út í gegn og útskýringarnar vel meðteknar til náms á því er fyrir bar, en grunnurinn var vel meðtekinn í skugga flókinna aðferða er fæstir hefðu ráðið við undir hið síðasta og á hina fimmtu klukkustund.

…Var þá Maraþoni lokið við lófaklapp og lúðraþeyt (jæja…;-), en tafir og tímasetning höfðu vitanlega gert vart við sig - eins og við mátti búast - en leikar stóðu yfir frá ásettum tíma (13:00) og til u.þ.b. 18:30, enda gestir og þjálfarar orðnir þreyttir undir lokin. Var ágóðinn samansettur og látinn renna til hins verða málstaðar ‘Dojang Pequenos’ í Mexíkó, en voru flestir - ef ekki allir - ásettir um hversu aurinn myndi vel mega sín þar á slóðum…

Þar sem leikar höfðu sýnilega - og þá all greinilega - tekist vel, var vikið að endurtekt þessa atburðar - snemma - á komandi ári og skyldi þá láta reynsluna mæta áhuga vel, þ.e.a.s. huga að stærra húsnæði og vænlegum auglýsingahernaði með góðum fyrirvara svo þeim mun fleiri sjái sér fært að mæta og læra eitthvað nýtt. Enn fremur skyldi bæta í hópinn, en þó hagræða tímasetningu og listum þannig að meira beri á skemmtun en þreytu, hvernig sem að verður farið, en það mun koma í ljós á sínum tíma. Mikilvægast var þó og er; að allir skemmtu sér vel, kynntust rétt aðeins og sýndu fádæma kosti sem eiginleika í hvívetna, enda kom okkur Sigursteini saman um það hversu sjálflaunað athæfið hefði verið í alla staði og enginn verri fyrir vikið…

Ég þakka - enn og aftur - fyrir mig og okkur. Sjáumst fljótlega og sem fyrst…

Fyrir hönd Bujinkan á Íslandi,

Diðrik Jón Kristófersson (Nekron),
Bujinkan Sandan Shidoshi-Ho