Aliveness, er það nokkuð nýtt?
Hugtakið “aliveness”, eða að æfa lifandi er ekki neitt nýtt. En eins og það er notað til að
lýsa þessari æfingaaðferð þá er orðið frekar nýtt af nálinni og má þakka Matt Thornton úr
SBG samtökunum fyrir útbreiðslu þess. Matt hefur gert það að köllun sinni að leiða fólki
fyrir sjónir hversu mikilvægt er að æfa lifandi í bardagaíþróttum og til að auðvelda
skoðanaskipti þá kaus hann þetta orð til að lýsa því sem hann kennir.
Til eru bardagaíþróttir sem leggja áherslu á að æfa eingöngu lifandi án þess að hafa
nokkuð fyrir því að skilgreina hugtak yfir það, íþróttir eins og Júdó, hnefaleikar
(hefðbundnir og tælenskir) og grísk-rómversk glíma.
Það eru einnig fjölmargar bardagaíþróttir sem leggja ekki áherslu á að æfa lifandi og þeir
iðkendur sem leggja stund á þær íþróttir eiga stundum erfitt með að skilja hugtakið í
fyrstu. Þessi grein er samin handa þeim sem hafa áhuga á að skilja betur hvað í því felst
að æfa lifandi.
Tvær ólíkar aðferðir
Áður en ég fer út í formlega skilgreiningu ætla ég að byrja á að draga upp mynd af
tveimur ólíkum æfingaaðferðum. Báðar aðferðirnar miða að því að kenna tennis.
Með Aðferð I myndi ég byrja á að láta þig ímynda þér að þú
sért með spaðann í hönd að gera hreyfingar út í loftið. Eftir
nokkrar vikur læt ég þig hafa tennisspaða og þú æfir þig í að
slá út í loftið á móti ímynduðum bolta. Eftir nokkrar vikur af
þessu kemur loks að alvörunni: þú færð að spila heilan
ímyndaðan leik á móti ímynduðum andstæðingi með
ímyndaðan bolta. Og það besta er að að ég er búinn að
ákveða nákvæmlega hvernig viðureignin spilast, þannig að
þú þarft bara að fylgja mínum leiðbeiningum og leggja þær
á minnið; fyrst hlaupa á vinstri kantinn og þykjast slá
bakhönd, síðan upp að netinu og þykjast slamma boltann,
o.s.frv. Þegar þessu lýkur byrjarðu aftur á því sama. Þetta mun síðan mynda undirstöðuna
í tennis þjálfun þinni. Af og til muntu leika þennan leik á móti öðrum iðkanda og þá
þykist þið báðir vera að eltast við sama ímyndaða boltann.
Aðferð II er þannig að ég rétti þér spaðann. og kenni þér hvernig á að halda og slá. Síðan
einangrum við nokkrar hreyfingar þar sem þú æfir nokkrar uppgjafir með alvöru bolta,
æfir að taka á móti nokkrum mishröðum skotum frá mér og prófar þig aðeins áfram. Í lok
æfingarinnar spilum við svo nokkrar lotur.
Þessi tvö dæmi eiga að gefa þér almenna hugmynd um hvað “aliveness” er. Seinni
aðferðin er augljóslega það sem við köllum að æfa lifandi. Sú fyrri er hreint út sagt afleit
og myndu fáir tenniskappar taka það í mál að æfa á þennan máta. (Tennis og
bardagaíþróttir eru auðvitað ekki það sama, sbr. “íþrótt eða sjálfsvörn?” hér að neðan.)
“Aliveness” snýst sem sagt um að æfa sína íþrótt á sama máta og maður iðkar hana, en
ekki að æfa sig í að þykjast iðka hana.
Þrjú grundvallaratriði
Þrjú grundvallaratriði þurfa að vera til staðar til að æfing teljist lifandi. Þessi atriði eru
hreyfing, tímasetning og mótstaða. Skoðum þessa þrjá þætti aðeins betur:
Hreyfing.
Æfingafélaginn verður að vera á hreyfingu til að æfingin geti talist lifandi. Ef félaginn
stendur kyrr með útrétta hendi á meðan þú slærð hann tvisvar og snýrð svo niður þá ertu
ekki á réttri leið. Báðir aðilar verða að hreyfa sig óhindrað til að æfingin geti talist lifandi.
Timasetning
Tímasetning er það kallað þegar þú sætir færis og grípur síðan tækifærið þegar það gefst
til að henda inn höggi eða kasta félaga þínum. Tímasetning er hvorki að æfa alltaf í sama
takti eða undir talningu þjálfara, né heldur þegar þú endurtekur sömu fyrirfram ákveðnu
rulluna með félaga, aftur og aftur.
Mótstaða
Ef þú ætlar að æfa viðbrögð við beinni árás, segjum t.d. vinstri handar stungu, þá gerir
það þér lítið gagn ef félagi þinn slær út hendinni, lætur hana nema staðar 10 cm frá þér og
bíður svo eftir því að þú svarir. Þú ert miklu betur settur ef hann kastar til þín hendinni
með það fyrir augum að hitta. Hann byrjar þá af vægum krafti og eykur svo pressuna eftir
því sem þú verður leiknari í að bregðast við.
Ef þú ert að æfa þig í að beygja þig undir höggið, grípa hann og kasta honum, þá þýðir
sömuleiðis ekki að hann láti undan og leyfi þér að kasta. Hann fleygir til þín stungu,
reynir að hitta þig og reynir svo að halda sér á fótum þegar þú reynir að henda honum.
Í hnotskurn þá erum við að æfa lifandi þegar við erum á hreyfingu og þurfum að reiða
okkur á tímasetningu til að beita tækninni gegn vaxandi mótstöðu frá félaga okkar
Aliveness er fyrir alla
Með tilkomu Mixed Martial Arts (MMA), keppna á við UFC og Pride varð mikil
uppsveifla í bardagaíþróttum, að því leyti að fleiri og fleiri fóru að æfa lifandi byggt á því
sem var að gerast í þessum mótum. Þau sýndu óvéfengjanlega fram á að þeir sem æfðu á
lifandi máta stóðu iðkendum hefðbundinna bardagaíþrótta miklu framar. Í fyrstu voru
það brasilísku jiu jitsu kapparnir sem höfðu yfirburði í þessum mótum með því að draga
andstæðinginn undantekningarlaust í gólfið og yfirbuga þar með aðferðum sem þeir
höfðu fullkomnað í gegnum lifandi æfingaferli. Hefðbundnar bardagaíþróttir stóðust þeim
ekki snúning. Í seinni mótum hefur síðan áherslan orðið sú að keppendur séu fullfærir á
öllum sviðum bardagans: standandi, í standandi glímu og gólfglímu. Þessa þrjá þætti æfa
allir á lifandi máta. Það eru engar kata æfingar (poomse, form, dans) eða meðvirkir
mótherjar og allt er lifandi.
Þessi MMA mót hafa skapað þá hugmynd hjá almenningi að þeir sem leggi stund á
MMA og æfi lifandi séu eingöngu þrautþjálfuð sterabúnt á speedo sundskýlum og að
hinn venjulegi maður geti ómögulega æft á þennan máta. Þetta er ranghugmynd sem þarf
að leiðrétta. Það geta allir æft á lifandi máta. Að æfa lifandi er ekki að mæta í tíma og
byrja að slást við eitthvern af fullum krafti án þess að hirða nokkuð um velferð sína eða
annarra, og er það mikill misskilningur sem er oft notaður sem mótrök gegn því að æfa
lifandi, “Það endist enginn í þessu, menn slasa sig bara”. Hafa ber í huga að þegar við
æfum lifandi þá erum við að æfa með takmörkunum til að koma í veg fyrir meiðsli, en
ekki það miklum takmörkunum að það geri íþróttina gagnslausa.
Less is more (minna er meira)
Um aldamótin 1900-1901 kom Jigoro Kano fram á sjónarsviðið í Japan með íþróttina
júdó. Það sem skildi júdó frá öðrum íþróttum á þeim tíma var randori, eða frjáls viðureign
á móti félaga sem streittist á móti. Kano hafði áttað sig á því að með því að taka út
hættulegri brögð og leyfa aðeins brögð sem væri hægt að æfa með félaga án mikillar
hættu á meiðslum væri hægt að ná meiri árangri. Þeir sem æfðu í Kodokan skóla Kano
urðu því sigursælir í mótum, sem leiddi að lokum til þess að allir júdóskólar á þeim tíma
fóru að æfa á þennan máta. Þess ber að geta að í dag hefur júdó þróast út í ólympíska
keppnisíþrótt með talsvert fleiri takmörkunum en nauðsynlegt gæti talist, þó það breyti
því ekki að júdó þjálfun teljist lifandi.
Þessi sami andi ríkir enn í íþróttum eins og brasilísku jiu jitsu, og er lítil hætta á
meiðslum þar. Iðkendur geta tekist hraustlega á og beitt hver annan lásum og hengingum
án mikillar hættu á meiðslum, því öll brögðin eru þess eðlis að mótherjinn hefur alltaf
tækifæri tilað gefa glímuna um leið og hann er kominn í lás. Glíman er gefin með því að
klappa á dýnuna eða andstæðinginn sem merki um uppgjöf.
Það er í raun þversögn að þær íþróttir sem fækka hættulegum brögðum og æfa aðeins þau
brögð sem er hægt að æfa án mikillar slysahættu eru einmitt þær íþróttir sem duga best í
frjálsri viðureign með fáum eða engum reglum (MMA keppnir, sjálfsvörn). Því með því
að taka út hættuleg brögð skapast möguleikinn á að æfa lifandi og þar með geta
iðkendurnir aflað sér gífurlegrar reynslu við að beita þessum brögðum gegn andstæðingi
sem streitist á móti.
Grunnkerfi (Delivery system)
En hvernig stendur á þessu? Það er vegna þess að það sem mestu máli skiptir er að þjálfa
það sem má kalla grunnkerfi (delivery system), í stað þess að sanka að sér þekkingu á
brögðum, muna hvernig þau eiga að vera og æfa þau með meðvirkum mótherja. Lykillinn
er að æfa á lifandi máta og fá þjálfun í grunnkerfunum.
Tökum þrjár bardagaíþróttir: shootfighting, brasilískt jiu jitsu og submission wrestling.
Allar þessar íþróttir snúast að mestu um glímu og þá sér í lagi gólfglímu. Þrátt fyrir að
heita mismunandi nöfnum eru þær allar byggðar á sama grunnkerfi. Sem dæmi þá æfa
iðkendur í öllum þessum íþróttum hvernig á að losa sig undan mótherja sem situr
klofvega ofan á manni. Þó þetta séu ólíkar íþróttir þá æfa iðkendur þeirra að losa sig úr
þessari stöðu á nákvæmlega sama máta. Af hverju? Af því iðkendurnir æfa lifandi og
komast mjög fljótt að því hvað virkar og hvað virkar ekki. Grunnkerfi eru sannanleg að
því leyti að þú getur prófað þau á móti andstæðingi sem streitist á móti.
Í brasilísku jiu jitsu er kennt hvernig á að komast aftur fyrir andstæðinginn, tryggja sér
stöðu þar og ná hálstaki til að þvinga hann til að gefast upp. Iðkandinn getur lært þessa
aðferð á nokkrum mínútum, einangrað hana svo með því að æfa hana gegn félaga sem
veitir vaxandi mótspyrnu í svolitla stund og að lokum tekið glímu þar sem báðir reyna að
yfirbuga hvor annan. Fyrr eða síðar mun hann ná að beita þessu bragði á móti einhverjum
sem streitist á móti og sannfærast um ágæti bragðsins. Síðar lærir hann aðrar leiðir til að
ná hálstaki eða komast aftur fyrir andstæðinginn, sem hann æfir og prófar á sama máta Ef
þær eru einhvers virði þá munu þær verða sannaðar með því að æfa lifandi og falla þá inn
í grunnkerfið.
Svipuð grunnkerfi er að finna fyrir standandi glímu. Mjaðmakast (hip throw) fylgir sömu
reglum sama hvort það er í júdó, grísk-rómverskri glímu, íslenskri glímu eða sambó.
Allar þessar íþróttir æfa á lifandi máta og iðkendur komast fljótt að því hvað virkar og
hvað ekki.
Sömu sögu er að segja um hnefaleika (striking arts). Þeir sem hafa fylgst með K-1
sparkbox keppninni sjá strax að allir sem stíga þar í hringinn fylgja sama grunnkerfi
þegar þeir mæta lifandi mótherja, burtséð frá því úr hvaða íþrótt þeir segjast koma. Í K-1
skiptir engu hvort það er kung-fu, karate eða tae-kwon-do iðkandi, allir styðjast við sama
grunnkerfi og við sjáum í boxi og Thai-boxi; stunga er stunga, upphögg er upphögg og
snúningsspark er snúningsspark. Auðvitað hafa allir keppendurnir ólíkan stíl að því leyti
að sumir kjósa hærri spörk og aðrir lægri, enn aðrir kjósa að nota bara hendurnar o.s.frv.
En það er eingöngu persónuleg einkenni hvers og eins, þeirra persónulegi stíll -
grunnkerfið er hið sama.
Allir geta æft grunnkerfin á lifandi máta
Ef þú áttar þig á því hvað grunnkerfi er þá sérðu að það á að vera mjög auðvelt að æfa
þessi kerfi á lifandi máta án aukinnar hættu á meiðslum. Ungir sem aldnir eiga að geta
tekið þátt, hver eftir sinni getu. Allir eiga t.d. að geta rúllað í gólfinu og æft að ná lásum
og tökum án þess að vera sífellt í slysahættu. Eins og júdó menn uppgötvuðu fyrir 100
árum þá er hægt að ná hámarks árangri með að æfa grunnkerfi sem eru iðkendunum ekki
lífshættuleg, en nógu raunveruleg til að geta virkað í sjálfsvörn þegar þess þarf.
Íþrótt eða sjálfsvörn?
Nú kann einhver að benda á að allt sem hefur verið rætt hér sé í rauninni bara
íþróttaiðkun sem eigi lítið skylt við sjálfsvörn. Svarið við þessu er já og nei. Já, þú þarft
að æfa eins og íþróttamaður. Nei, það er ekki rétt að þetta eigi lítið skylt við sjálfsvörn.
Það er nefnilega mikill misskilningur að sjálfsvörn verði að byggja á fantabrögðum.
Sumir vilja halda því fram að fantabrögð eins og að sparka í klof eða stinga fingrum í
augu séu nauðsynleg í sjálfsvörn og þar með sé sjálfkrafa búið að útiloka þessi grunnkerfi
sem minnst var á að ofan, því þau miðast einmitt öll við það að banna slík brögð á
æfingum. Þess vegna sé ekki hægt að segja að verið sé að æfa lifandi því ekki sé gert ráð
fyrir öllum breytum.
Þetta er misskilningur. Það er rétt að það er erfitt að æfa slík fantabrögð á lifandi máta og
þess vegna er það ekki gert, því það er hættulegt fyrir iðkendur. Talsmenn þessara
fantabragða eru sjálfir heldur ekki að æfa þessi brögð á lifandi máta af þessari sömu
ástæðu. Þeir hafa hinsvegar sett þau upp í ákveðin mynstur sem eru síðan æfð út í loftið
(kata, poomse, forms).
Það ætti að vera hverjum manni ljóst hver ber sigur úr býtum ef til kastanna kemur á milli
einstaklings sem er vel þjálfaður í grunnkerfunum (hefur æft á lifandi máta) og
einstaklings sem hefur það eitt að markmiði að bíta eða beita aðra fantabrögðum. Það er
nefninlega mjög erfitt að komast í yfirburða stöðu til að bíta/klóra/stinga nema vera vel
þjálfaður í grunnkerfunum. Þegar viðkomandi stangar þig niður (double leg takedown) og
sest klofvega ofan á þig (mount) er varla hægt að beita fantabrögðum, nema þú kunnir að
sleppa úr þessari sömu stöðu - en hvernig ætlarðu að gera það nema þú hafir æft það á
lifandi máta? Jafnvel þó að tækni þín virki fræðilega séð þá mun þér aldrei skapast nógu
mikil leikni til að beita henni. Fyrir auðveldari brögð (spark í klof) þá fer sá sem hefur
gott grunnkerfi í hnefaleikum (box, thai box) létt með að bæta slíku sparki við sína tækni
þegar við á. Hann á a.m.k mikið auðveldara með það en sá sem hefur æft sama spark út í
loftið eða á móti meðvirkum félaga. Hvers vegna? Jú: Hreyfing, tímasetning, mótstaða.
Hann hefur æft nógu mikið lifandi til að eiga auðvelt með að aðlagast. Hann er þjálfaður í
grunnkerfinu.
Það er við hæfi að enda þennan kafla á að benda á að fantabrögð eins og lýst er að ofan
leiða af sér eða laða að sér óæskilega þenkjandi einstaklinga. Margir sem iðka
bardagaíþróttir gera það vegna vinnu sinnar (lögreglumenn, öryggisverðir, flugþjónar)
þar sem þeim kæmi ekki til hugar að nota þesskonar brögð. Einnig er það óábyrgt að
kenna börnum slíka tækni. Ef við hins vegar erum að ræða um að verjast slíkum árásum
þá ætti það að vera ljóst að með góða kunnáttu í grunnkerfunum á að vera hægt að verjast
þeim og leiða viðureignina til lykta með hættuminni aðferðum.
Að lokumÞessi grein ætti að varpa ljósi á hvað Aliveness er. Fyrir þá sem vilja lesa meira bendi ég
á greinar á netinu:
Matt Thornton SBG. Aliveness blog: http://aliveness101.blogspot.com/
Gott blog sem útskýrir Aliveness. Matt fjallar líka mikið um Aliveness á síðu SBG,
http://www.straightblastgym.com
Aliveness 6 ÓÁrni Þór Jónsson
Ágætis grein á realfighting.com eftir John Danaher, þó hann sé ekki uptekinn af að
skilgreina orðið Aliveness þá er hann að fjalla um sömu hluti.
http://www.realfighting.com/0702/danaherframe.html
Algengar spurningar
Skiptir einhverju máli hvort maður æfir sjálfsvarnaríþróttir lifandi eða ekki? Í nútíma
þjóðfélagi eru meiri líkur á að maður lendi í umferðarslysi en að þurfa að verja hendur
sínar út á götu.
Það er rétt að sjálfsvarnar kunnátta er í sjálfu sér ekki stórmikilvæg í nútíma þjóðfélagi.
En það er samt mikilvægt að þeir sem gefa sig út fyrir að vera að kenna sjálfsvörn séu þá
að kenna eitthvað sem virkar. Sjálfsvarnar íþróttir sem einblína á að slá og sparka út í
loftið og æfa sig með meðvirkum mótherja eru að kenna fantasíu, ekki praktíska
sjálfsvörn. Ef slíkir kennarar myndu auglýsa íþrótt sína sem “skemmtilega hreyfilist” og
vera heiðarlegir hvað varðaði meinta sjálfsvarnar möguleika listarinnar þá væri ekkert við
þá að athuga. Þetta getur verið sérstaklega alvarlegt þegar verið er að kenna slíkar listir
fólki sem þarf að nota þær vinnu sinnar vegna.
Hvaða sjálfsvarnaríþróttir eru þá bestar?
Þetta er afstæð spurning. En ef forsendan er sjálfsvörn (sem er jafnframt forsenda þessara
skrifa) þá er svarið eftirfarandi: Ef þú leggur áherslu á að æfa standandi viðureign,
standandi glímu, og gólf glímu (standup, clinch & ground) og gerir það á lifandi máta, þá
ertu á réttri leið. Það er líka góð regla að vera með æfingaraðferðirnar í stöðugri
endurskoðun.
Ef forsendan er ekki sjálfsvörn, heldur líkamsrækt og félagsskapur, þá skiptir litlu hvaða
íþrótt þú velur.
En eru bardagaíþróttir ekki afstæðar, fer þetta ekki bara eftir einstaklingnum hvað
virkar?
Nei, bardagaíþróttir eru ekki afstæðar. Ef ég tek Jón af götunni og kenni honum
sjálfsvörn á lifandi máta í tvö ár þá verður hann betur í stakk búinn til að verja hendur
sínar heldur en ef ég hefði eytt sama tíma í að kenna honum hefðbundna bardagalist með
dauðum aðferðum (kýla út í loftið, æfa kata og brögð með meðvirkum mótherjum).
Ef Royce Gracie hefði æft Aikido í stað Jiu Jitsu hefði hann aldrei unnið fyrstu UFC
mótin.
Það nægir að líta til MMA móta (UFC, Pride) til að sjá hvaða íþróttum vegnar best. Þar
etja kappi menn frá hinum ýmsu bardagaíþróttum og sést greinilega að það er bein fylgni
milli þess hvernig þeir æfa og hvernig þeim vegnar í mótunum. Þetta var sérstaklega
augljóst í fyrstu mótunum þegar flestir þátttakendur æfðu bara einn stíl. Í dag æfa allir
keppendurnir á svipaðan máta, þeir æfa lifandi. Þeir nota ekki endilega orðið “aliveness”
til að lýsa því, en það er það sem þeir eru að gera.
Er þetta ekki bara einhver styttri leið, “shortcut”, því ef maður æfir hefðbundna
bardagaíþrótt í 10 ár þá verður maður góður, ekki satt?
Þessi staðhæfing stenst ekki. Það er engin sönnun fyrir því að eftir 10 ár af iðkun
hefðbundinna bardagaíþrótta muni allar dauðu æfingaaðferðirnar allt í einu öðlast
merkingu og fara að virka. Enn og aftur nægir að líta til MMA móta. Það er einfaldlega
enginn sem kemur og sannar sig þar eftir að hafa æft í 10-20 ár með hefðbundnum
aðferðum.
Auk þess er fráleitt að halda því fram að með því að æfa lifandi muni menn á einhvern
hátt staðna eftir nokkurra ára iðkun, en með hefðbundnari aðferðum muni þeir halda
áfram að bæta sig. Því er einmitt þveröfugt farið. Lifandi bardagíþróttir gefa iðkandanum
tækifæri til að vaxa í getu á meðan hefðbundnar íþróttir gera það ekki. Hefðbundnar
íþróttir hafa oft gagnstæð áhrif með því að kenna gagnslausa og jafnvel hættulega
(hættulegar þeim sem beitir þeim) tækni.
En það sem hefðbundnar bardagaíþróttir hafa fram yfir lifandi bardagaíþróttir er það að
menn geta æft hefðbundnar bardagaíþróttir langt fram eftir aldri. Það er enginn gamall
að æfa lifandi bardagaíþrótt?
Það er lítið mál að æfa lifandi bardagaíþróttir langt fram eftir aldri, ef viðkomandi hugsar
vel um heilsuna, borðar rétt og hugsar vel um sig. Það er ekkert sem bendir til þess að
eldri borgarar geti ekki stundað lifandi bardagaíþróttir. Nægir að nefna Helio Gracie sem
æfir ennþá jiu jitsu á níræðisaldri. Thor Vilhjálmsson er gott dæmi um eldri borgara sem
tekur á í júdó reglulega, og svo mætti lengi telja.
Hefðbundnar bardagaíþróttir hafa ekki fundið eitthvern æskubrunn sem þeir hafa tryggt
sér einkarétt á.
En lifandi bardagaíþróttir eru ekki fyrir alla. Sumt fólk getur ekki æft á þennan máta.
Það eru bara steraboltar og ungir karlmenn sem geta lagt þetta á sig.
Karlar, konur, ungir og aldnir geta allir æft á lifandi máta, hver með sínu lagi. Rétt eins
og með allar aðrar íþróttir þá æfir hver og einn eftir getu og með þeim ákafa sem hentar
honum/henni.
Gleymist ekki lífsspekin þegar bardagaíþróttir eru stundaðar eins og hver önnur íþrótt?
Hefðbundnar bardagaíþróttir kenna göfuga lífsspeki og lífsleið sem er verðugt að fylgja.
Þessu er einmitt þveröfugt farið. Grundvallarforsendan er nefnilega röng. Að halda því
fram að að hefðbundnar bardagaíþróttir séu á einhvern hátt mannbætandi gegnum göfuga
lífsspeki er einfaldlega rangt. Hefðbundnar bardagaíþróttir rækta undirlægju hjá frjálsum
einstaklingum gagnvart “Sensei-um” eða “Sifu-um” sem eiga að vera óbrigðul uppspretta
leyndardóma um lífið og tilveruna. Bardagaíþróttir sem á yfirborðinu segjast kenna
auðmýkt og aga standast ekki nánari skoðun. Meistararnir eru sjaldnast auðmjúkir, heldur
valdsjúklingar með mikilmennskukomplexa, segjandi nemendum sínum að hneigja sig í
hvert skipti sem þeir mæta meistaranum, ávarpa meistarann með austurlenskum titli (sem
undirstrikar bilið á milli meistara og nemanda) og umframt allt aldrei að mótmæla
meistaranum eða leiðrétta hann
Það er heldur ekki agi að hlýða hverri skipun meistarans í tíma, hlaupa í beina röð og
haga sér eftir formúlu, það er þrælslund og ekkert annað. Ef meistarinn stendur sig “vel”
með slíkum heraga þá tekst honum á stuttum tíma að skapa andrúmsloft þar sem enginn
þorir að benda á að keisarinn er ekki í neinum fötum.
Ef við berum þetta saman við lifandi bardagaíþróttir þá er enginn “meistari”, heldur bara
þjálfari. Þjálfarinn er einfaldlega ávarpaður með nafni og er opinn fyrir skoðunum
nemenda. Ef hugmynd er varpað fram í tíma þá er létt mál að prófa hana á staðnum.
Hvað agann varðar þá er hann praktískur en ekki heragi, og enginn þarf að standa beinn í
röð til að teljast agaður. Það getur enginn agað þig nema þú sjálfur. Þú lærir aga með því
að mæta og leggja þig allan fram á æfingu, með því að gera eina armbeygju enn eða
glíma eitt skipti í viðbót, ekki vegna þess að meistarinn stendur yfir þér og öskrar í eyrað
á þér.
(Þessu hugarfari er vel lýst í grein eftir Scott Langley, “Sod This for a Game of Soldiers”
sem má finna á vefnum undir http://www.thejks.com/pages/sodthis.htm. Það sem er
sorglegt við greinina er að Scott er stoltur af að hafa látið þetta yfir sig ganga og heldur
áfram að æfa með þessum samtökum.)
En það er líka djúp andleg hlið á hefðbundum bardagaíþróttum, zen búddismi, að tæma
hugann, að vera sem tær lind, lifa í stundinni. Vantar þetta ekki allt í lifandi
bardagaíþróttir?
Langt frá því. Andleg reynsla er ekki bundin við að sitja í lótusstöðu með lokuð augu og
einbeita sér að öndun. Trúfélög og bardagaíþróttir hafa engan einkarétt á andlegri reynslu.
Lífið býður upp á andlega reynslu á hverjum degi án tilgerðar og án umbúða. Fæðing og
dauði, sólarupprás og sólsetur, tónlist sem og önnur list, náttúran í allri sinni dýrð og, sem
er mikilvægt, í samskiptum manna á milli. Að sýna öðru fólki tillitsemi, að læra að
fyrirgefa, að læra að taka tapi og sigri. Allt eru þetta dæmi um tækifæri til að öðlast
andlega reynslu og dýpri tengingu við það sem mögulega býr innra með okkur. Ritúalar
og tilgerð eru bara hækjur, skiljanleg í sumum tilfellum, en ekki nauðsynleg.
Þeir sem iðka lifandi bardagaíþróttir þurfa að læra að takast á við tap sem og sigur. Að
læra að taka tapi á hverjum degi býður upp á tækifæri til andlegs þroska, sömuleiðis að
vinna sigur. Lifandi umhverfi er fullt af tækifærum til slíks þroska. Það sem er einnig
mikilvægt er að í lifandi umhverfi er ekki þessi stöðugi baggi efa og óöryggis sem hvílir á
herðum þeirra sem stunda hefðbundnar bardagaíþróttir. Þetta er mjög mikilvægt atriði,
því umhverfi sem byggir á blekkingum og áunninni þrælslund býður ekki upp á mikinn
andlegan þroska nema þá (og í því liggur kaldhæðnin) þegar einstaklingurinn loksins
frelsar sig frá því.
En þurfa ekki að vera belti og búningar til að hægt sé að reka bardagaíþrótta félag?
Fólk vill ekki leggja stund á íþrótt ef það hefur ekkert að sýna fram á eftir áralanga
iðkun.
Bardagaíþrótta skóli þar sem allir klæðast búningi og fá svo belti á þriggja mánaða fresti
er stereótýpa sem allir þekkja. Skiljanlega á fólk erfitt með að ímynda sér að það geti
gengið að reka bardagaíþróttafélag án beltakerfis. Þetta er ágætis athugasemd, því
beltakerfi eru mjög öflugt markaðstól, sérstaklega fyrir börn en ekkert síður fyrir
fullorðna. Tvö stærstu vandamálin með beltakerfin eru þau að annarsvegar er fólk
eingöngu að eltast við beltin (ímynd) og hinsvegar að þau verða að stjórntæki þar sem
iðkendurnir verða meðfærilegir vegna löngunar sinnar til að fá næsta belti.
Ef beltakerfið er byggt upp í kringum raunverulega færni einstaklingsins - s.s. mælanlega
getu í viðureign gegn jafningja - og þess er gætt að enginn félagsleg fríðindi fylgi beltinu,
engir titlar, engin tilgerðarðkurteisi sem þarf að sýna hærra gráðuðum, o.s.frv., þá ættu
beltin að vera ágætis markaðstól og skemmtilegt “prófskírteini” sem endurspeglar
raunverulega getu.
Belta kerfið í brasilísku jiu jitsu er ágætis dæmi þar sem engin formleg próf eru haldin:
Einstaklingum er einfaldlega veitt beltið þegar þeir eru farnir að geta staðið í iðkendum
með svipaða gráðu, þannig að til að fá blátt belti þarftu að geta staðið í blábeltingunum
sem eru á þínu reki. Beltakerfið þjónar jafnframt þeim praktíska tilgangi að raða
keppendum í flokka á móti, svipað og forgjöf í golfi, þannig að keppendur af svipaðri
getu eru settir saman í flokk. Þannig fá þeir sem eru styttra komnir jafna keppni í flokkum
sem henta þeim þar til þeir eru tilbúnir að keppa á móti þeim bestu.
Annars ber þess að geta að hver og einn á að ákveða hvaða hátt hann vill hafa á þessu,
athugaðu bara að láta ekki beltin verða að stjórntæki eða takmarki í sjálfu sér. Takmarkið
í lifandi bardagaíþróttum á alltaf að vera mælanleg frammistaða (í viðureign á móti
andstæðing) en ekki einhver ímynd sem þú hugsanlega stendur ekki undir.
Þeir sem æfa hefðbundnar bardagaíþróttir eru ekki bara að æfa bardagaíþrótt, heldur er
þeir líka að standa vörð um ævaforna menningu og sögu. Á bara að henda því á glæ?
Já. Skapaðu þína eigin sögu. Það er eitthvað athugavert við fólk á vesturlöndum sem kýs
að viðhalda austurlenskri menningu með því að apa hana eftir (oft mjög illa) þrisvar í
viku. Oft er þetta menningararfur sem er jafnvel talinn einkennilegur í heimalandinu.
Ef þessi menning og saga hefur lítið praktískt gildi fyrir frumforsenduna (sjálfsvörn) þá
er ekki mikið vit í að viðhalda henni öðruvísi en í sögubókum.
En er ekki hægt að segja að sumt sé gott í hefðbundnum bardagaíþróttum?
Þó verið sé
að kýla og sparka út í loftið þá er verið að kenna ákveðna líkamsbeitingu sem á eftir að
skila sér þegar farið er að æfa lifandi.
Það má vel vera að eitthvað sé gott í hefðbundnum bardagaíþróttum, ég ætla ekki að
leggja dóm á það. Skoðaðu það gegnum “aliveness” gleraugun og dæmdu sjálf/ur.
Hvað varðar líkamsbeitingu, ef það sem þú ert að æfa skilar sér ekki beint þegar þú ferð
að æfa lifandi þá er það gagnslaust og tímasóun. Til hvers þarftu að geta staðið í hyldjúpri
stöðu og undið upp á mjöðmina í hálfhring ef það er síðan ekki það sem þú gerir þegar þú
slæst á móti félaga á æfingu? Ef tæknin sem þú ert að æfa út í loftið, líkamsbeitingin,
skilar sér ekki beint út í íþróttina þá er hún gagnslaus.
En má ekki líta á þetta þá sem styrktaræfingu?
Nei, því það eru til betri styrktaræfingar (lóð og box pokar) og auk þess eru þessar
æfingar ekki kynntar sem styrktaræfingar. Þær eru kynntar sem “sports specific” æfingar,
svipað og þegar knattspyrnumaður skýtur bolta á mark, og eiga augljóslega að hafa beint
gildi fyrir íþróttina. Af hverju ættu menn annars að vera að gera þessar æfingar dag eftir
dag, ár eftir ár?
Meistari Yahoo-Yipee-Yei er hrikalegur “fighter”. Hann var ósigraður á sínum tíma og
hann æfir eingöngu hefðbundnar bardgaíþróttir. Sannar það ekki að það sé hægt að
verða góður með hefðbundnum leiðum?
Skoðum fyrst forsenduna. Í hverju var hann góður? Mótum sem byggja á punkta kerfi,
svo kallað “point-sparring” eða klukk-keppnir? Var hann kannski góður í að keppa í því
hvor gæti sparkað oftar í hinn yfir þrjár fimm mínútna lotur? Má vera að hann hafi verið
undrabarn í því og er það allra góðra gjalda vert, enda lofsvert þegar menn ná metárangri
í sinni íþrótt. En var Meistari Yahoo-Yipee-Yei einhvern tímann keppandi í MMA
keppni? Sannaði hann sig einhvern tíma í þeim keppnum sem etja saman öllum stílum
með eins fáum reglum og siðmenntað þjóðfélag leyfir? Ef ekki, þá fellur fullyrðingin um
sjálfa sig. Það dugar ekki að nefna flökkusögur eða óskjalfestar (festar á myndband)
frásagnir, því eins og allir vita þá ganga menn á vatni og rísa upp frá dauðum í
flökkusögum.
Betri spurning væri, ef Meistari Yahoo-Yipee-Yei hefði ætlað að reyna fyrir sér í MMA
keppni, hvernig hefði hann þá æft? Hefði hann eytt tímanum í að gera Kata æfingar allan
daginn eða hefði hann æft sig á lifandi máta á öllum stigum bardagans (standup, clinch,
ground)?
En ef maður æfir á hefðbundinn máta er þá ekki alltaf eitthvað sem skilar sér ef maður
þarf að verja sig? Það er varla allt gagnslaust sem er æft í hefðbundnum bardaga
íþróttum?
Eflaust er eitthvað nýtilegt sem færist á milli. Má vel vera að á móti óþjálfuðum
einstakling náirðu að verja hendur þínar að einhverju leyti með hefðbundnum aðferðum.
Ég skil bara ekki af hverju nokkur maður kysi að æfa eitthvað þar sem bara brot af því
virkar í sjálfsvörn. Það finnst mér ekki hyggileg nýting á tíma.
Það er líka ansi léleg réttlæting á bardagaíþróttinni að sumt virki og þessvegna sé í lagi að
stunda hana. Það er annað dæmi um þrælslundina, allir æfa ákaft á dauðan máta til þess
eins að geta staðist næsta beltapróf. Þú verður að vera heiðarlegur við sjálfan þig,
annaðhvort ertu að æfa til að ná næsta belti og þóknast kennaranum, eða þú ert að æfa
eitthvað sem á að virka í sjálfsvörn. Ekki vera með málamiðlanir, það er ekkert frelsi í því
að selja sjálfan sig á svo ódýran máta.
Fyrst “aliveness”er svona miklu betra og hefðbundnar aðferðir svona glataðar, hví eru
þá svo margir sem æfa á hefðbundin máta. Af hverju æfa ekki allir á lifandi máta?
Í fyrsta lagi er vandamálið líklega það að þegar fólk velur sér bardgaíþrótt þá er það
frekar illa upplýst og auðvelt að ljúga að því. Ég er ekki að halda því fram að allir séu
viljandi að ljúga að nýjum iðkenndum, því eflaust trúa margir kennarar því sem þeir eru
að segja við byrjendur, en það breytir því ekki að það er samt sem áður í eðli sínu ósatt.
En ég held að stærsta hindrunin hjá flestum sem æfa nú þegar hefðbundnar
bardagaíþróttir og hafa áttað sig á því hvað “aliveness” snýst um, sé sú að menn óttast að
missa ákveðna ímynd. Mjög margir bardagaíþrótta iðkendur eru reknir áfram af þeirri
ímynd sem þeir hafa af sjálfum sér innan íþróttarinnar. Þeir eru meistarar/kennarar í sinni
íþrótt, njóta virðingar og vinsælda. Það er mjög erfitt að snúa baki við því og finnst fólki
oft betra að sitja bara í sínum polli og viðhalda blekkingunni.
Menn þurfa jafnvel ekki að vera meistarar/kennarar til að vera tregir til að gera breytingu
á því hvernig þeir æfa. Margir hafa ánetjast beltakerfinu eða öðrum þáttum og vilja
tryggja stöðu sína innan kerfisins. Þetta er sama ástæðan, leit við að viðhalda ímynd.
En ertu ekki að gleyma því að sumir gætu einfaldlega bara haft gaman af hefðbundnum
bardagaíþróttum?
Jú ég er opinn fyrir þeirri hugmynd og tel reyndar að svo megi vel vera. En mig langar að
prófa að taka frá þeim beltin og búningana og sjá hversu lengi þeir hafa gaman af því þá.
Því eltingaleikurinn við ímynd er oft mjög sterkur og fær menn til að ímynda sér
furðulegustu hluti. Ef þú kennir manni einhverja vitleysu til að verja sig þá eru líkur á að
hann muni mótmæla ef hann sér vitleysuna. Ef þú hinsvegar bætir inn að hann fær belti ef
hann lærir vitleysuna vel og að allir sem tóku beltið á undan honum hafi gert sömu
vitleysuna þá eru stórar líkur á að hann láti til leiðast.
Ég er reyndar þeirrar skoðunnar að fæst sleppum við alfarið frá því að eltast við ímynd.
En ættum við ekki frekar að byggja hana á bjargi heldur en sandi?
*************************