Ferðasaga frá Kóreu 2006
Í Kóreuferð sinni í september síðastliðnum fékk Master Sigursteinn Snorrason leyfi til að senda nemendur sína í hinn virta og þekkta Kyung-Hee Háskóla í Kóreu. Þessi skóli er þekktur fyrir að vera einn af bestu skólunum fyrir taekwondoiðkendur, enda hafa margir heimsmeistaranna komið þaðan.
Ég og Þorri komum til skólans 6. janúar síðastliðinn. Æft var tvisvar á dag, milli 7 til 10 tímar í heild, mun lengri æfingadagar en mig hefði nokkurn tímann grun. Við vorum án efa að æfa með mjög efnilegu og góðu taekwondofólki, enda er reynt að sjá til þess að taekwondogrunnur nemenda úr fyrra námi sé góður.
Æfingarnar voru svo erfiðar að oft á tíðum hélt ég að líkaminn myndi hrynja niður, en einhvernveginn tókst mér að þrauka áfram með svita og tárum. Ég undra mig oft á því og á erfitt með að skilja að hægt sé að æfa svona mikið í svona langan tíma. En við þraukuðum þó í fjórar vikur, sem var áætlaður tími, en vorum ansi fegnir því að sleppa út úr “fangelsinu” eins og sumir kalla það.
Nú var ferðinni heitið til höfuðborgarinnar Seol. Þar beið okkar önnur erfið æfingatörn. Master Kim 7.dan í Yonsei Háskólanum bauð okkur að æfa með nemendum í Lila gagnfræðiskólanum. Þessi skóli er mjög góður og þar eru mjög góðir taekwondoiðkendur, þá sérstaklega stelpuhópurinn, enda er skólinn þekktur fyrir sterkt stelpulið. Það var gaman að sjá hversu öflugar og snöggar besta stelpnalið í Kóreu eru. Við Þorri héldum að við værum tiltölulega lausir við svita og tár, en nei, það var nú aldeilis ekki. Við æfðum þarna tvisvar á dag í ca. 8 klukkutíma á dag undir handleiðslu Master Kim.
Eftir viku æfingar í Lila fengum við liðsauka frá Tinnu Maríu Óskarsdóttur og Rut Sigurðardóttur að heiman. Þær komu og deildu með okkur erfiðinu og ánægjunni.
Við komum líka við í öðrum skólum og fengum að spreyta okkur á æfingum hjá þeim flestum. Okkur var alltaf mætt með bros á vör og kynnt fyrir skólanum og árangri hans í Taekwondo. Hver skólinn á fætur öðrum gat skartað stórtitlum og fjöldanum öllum af verðlaunum. Við fengum ótrúlega góða innsýn í atvinnuheim taekwondo í Kóreu og lærðum mjög mikið í ferðinni. Núna skiljum við af hverju Kórea er enn öflugasta taekwondo land í heimi. Ég kom heim reynslunni ríkari og ánægður með að hafa geta fengið tækifæri til að æfa með allra besta taekwondofólki í heimi. Ég vonast eftir að komast til Kóreu aftur sem fyrst.
Ég vil að lokum þakka Master Sigursteini fyrir að gera okkur kleift að komast í þessa ferð og alla þá aðstoð sem hann hefur sýnt okkur við undirbúninginn. Þetta verður okkur gott vegarnesti í framtíðinni og reynslunni munum við aldrei gleyma.
Texti og myndir: Helgi Rafn Guðmundsson
Stjórnandi á