Blessuð börnin
Hér fylgir smá saga sem ætti að varpa smá ljósi á Ninja-þjálfun og hverju má búast við…
Það var fyrir nokkru að ungur nemandi gekk upp að mér og mælti stóreygður og stoltur ‘’Meistari, meistari (blessuð börnin eru ætíð iðin við að koma mér á egó-trip); Ég vann tíu sinnum og tapaði aldrei!’’
Þetta var í lok kennslu og uþb. Tuttugu krakkar glímdu um júdó mottur sem lágu eins og hráviði útum allan sal. Takmarkið var að einn sæti eftir og héldi mottunni sem sigurvegari, meðan fórnarlömbin sætu upp við vegg og hugsuðu fyrrnefndum þegjandi þörfina.
‘’Meistari, meistari, hvað finnst þér?’’ Ég horfði á kauða og svaraði hispurslaust: ‘’Gott, gott… Farðu nú og tapaðu tíu sinnum…’’
Ég þurfti á öllu mínu að halda til að skella ekki uppúr yfir viðbrögðum drengsins þar sem stoltið gufaði upp og brosið rann af honum samstundis. Lotinn í herðum snérist hann á hæl og gekk lúfulega að félögum sínum sem biðu hans við eina mottuna, tilbúnir í slaginn að nýju…
Það liðu einhverjar vikur og ég var hálfbúinn að gleyma þessu þegar einn góðan þriðjudag, motturnar fóru á gólf og smá hópar mynduðust óðfluga, allir tilbúnir og fullir áhuga. Við Marco (Bujinkan shidoshi og yfirkennari) stóðum og fylgdumst með er allt fór af stað, þó rólega og með varúð, en krakkarnir börðust og hóparnir þynntust óðum þar sem málið var að ef einhver fór af mottunni og snerti gólf, þá tapaði viðkomandi samstundis… Einföld og létt regla!
Þrátt fyrir slagsmál og læti, tók ég fljótlega eftir einni stelpunni sem hellti sér yfir andstæðinga sína af miklu offorsi og kastaði öllum frá. Mér varð við brosi þar sem sú littla er ekki nema hvað átta/níu ára gömul, þó kraftmikil og dugandi, enda vann hún hvern sigurinn á fætur öðrum og oft gegn eldri – stærri og sterkari – nemendum.
Það kom brátt að því að allar mottur héldu einni ninju og var hetjunum samstundis skellt saman á stærri mottu þar til aðeins tvö voru eftir og var greinilega mikil spenna í loftinu… Hver yrði sigurvegari í þetta skiptið?
Ég fann fyrir eftirvæntingu þar sem þau sátu reiðubúinn gegn hvor öðru, stelpan og svo strákurinn fyrrnefndi, brosmildur og kjarkmikill, enda stór eftir aldri og sigurviss þar sem hann gnæfði yfir andstæðing sínum. Mér sýndist hann vel til búinn að ganga frá henni skjót og örugglega, án mikillar mótstöðu… en þar varð mér greinilega á. Stelpan hennti sér í hann af öllu alefli, tók á öllu sínu og mokaði honum af mottunni við mikil hróp og lófaklapp
Ég sá strax hvað hafði gerst og þegar ég leit á strákinn, brosandi á gólfinu, þá vissi ég að hann hann var hinn sanni sigurvegari og hafði lært það sem fæstir ná… að gefa sig undir og taka ósigri í góðvild. Nú veit ég – og vona jafnframt – að þessi drengur getur náð langt og orðið til góðs í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur. Sem kennari í Bujinkan Budo Taijutsu get ég ekki fengið betri verðlaun…
Bestu kveðjur,
Diðrik Jón Kristófersson (a.k.a. Nekron)