Þetta er smá grein um einn fyrsta manninn sem fór á móti hefðum og reglum í bardagaíþróttum og stofnaði sinn eigin stíl. Mas Oyama er líka oft talinn einn besti bardagamaður allra tíma, og af góðri ástæðu. Hann gat unnið bardaga við naut.
Mas Oyama fæddist í Kóreu árið 1923, en flutti til Japan þegar hann var unglingur. Hann æfði Júdó, Box og Karate og hafði náð mjög langt þegar hann var aðeins tvítugur. Oyama hafði gaman af dansi og mætti oft á slík mót til að slaka á eftir æfingar. Enn á einu slíku móti lenti hann í leiðinlegri reynslu. Einn maður á staðnum var að reyna að skapa vandræði, Oyama bað hann að róa sig niður en þá dró maðurinn upp hníf og ætlaði að ráðast á hann. Oyama varðist manninum og kýldi hann í hausinn af slíkum krafti að maðurinn dó. Oyama fór ekki í fangelsi fyrir þetta, enda staðfestu vitni að þetta hafi verið sjálfsvörn. Hann varð þó alveg eyðilagður eftir þetta, og það versnaði þegar hann frétti að maðurinn hefði átt konu börn. Oyama lagðist í þunglindi og hætti algjörlega að æfa bardagaíþróttir. Hann fór að vinna fyrir fjölskyldu mannsins og hætti ekki að hjálpa þeim fyrr en konan fullvissaði hann um að þau gætu séð um sjálfan sig, og hún fyrirgefði honum.
Oyama tók þá þá ákvörðum að flytja sig upp í fjall til æfa sjálfan sig í einangrun. Vinur hans, sem hann hafði hitt stuttu áður, rithöfundurinn Eiji Yoshikawa hvatti hann til að gera þetta. Oyama var eðlilega mjög einmanna þarna og eftir sex mánuði hugleiddi hann að snúa aftur heim. En vinur hans Eiji kom þá með ráð, hann lét Oyma raka af sér aðra augabrúnina. Hann leit nú frekar kjánalega út og sagði Eiji að hann vildi nú varla láta sjá sig svona meðal fólks. Oyama herti sig upp og hélt áfram þjálfuninni. Hann snéri aftur eftir 14 mánuði og tók þátt í Karate landsmóti í Japan og gjörsigraði það.
Honum fannst hann þó ekki hafa getað klárað þjálfunina sína og fór þess vegna aftur í einangrun á öðru fjalli. Þar reyndi hann algjörlega á mörk mannlegrar getu. Hann æfði 12 tíma á dag, notaði tré sem boxpúða, lyfti stórum steinum mörg hundruð sinnum og endaði daginn á því að hugleiða undir hálffrosnum fossum. Eftir átján mánaða þjálfun snéri hann aftur fullur sjálfstraust. Hann var orðinn nautsterkur. Hann fór því að glíma við naut. Hann barðist samtals við 52 naut. Hann reif yfirleitt hornin af nautunum og keyrði þau í jörðina. Hann drap þrjú þeirra. Einu sinni slasaðist hann svo illa að hann lá í 6 mánuði á sjúkrahúsi.
Oyama varð frægur fyrir þessar nautaglímur og ákvað að ferðast um Bandaríkin í ár til að sýna Karate. Hann hélt sýningar út um allt og barðist við 270 áskorendur. Bardagarnir kláruðust yfirleitt á einu höggi, enginn entist lengur en 3 mínútur. Eftir að hann snéri aftur til Japan opnaði hann sitt eigið Dojo og fékk marga nemendur. Hann var opinn fyrir öllu, hann kenndi ekki bara hefbundið Karate. Honum fannst Karate-ið sem kennt var þá vera allt of fast í reglum og sparrið of kraftlítið og aumingjalegt. Þess vegna kenndi hann full-contact sparr. Það voru engir búningar, fólk klæddist það sem það vildi. Og mikið var um meiðsli þar sem bardagarnir hættu ekki fyrr en annar lá í jörðinni og gafst upp. Yfir 90% af þeim sem æfðu hjá Oyoma héldu það ekki út og hættu fljótlega. Hann kallaði þennan nýja Karate stíl Kyokushin og öðlaðist hann fljótt miklar vinsældir.
Mas Oyama lést árið 1994 úr lungnakrabbameini, þá orðinn 71 ára gamall. Það er talað um að hann hafi verið frekar mikið fyrir það að fá sér vindla, þó að hann hafi ekki verið reykingarmaður. Dauði hans olli eðlilega miklu uppnámi og varð framtíð Kyokushin Karate óljós og er það í rauninni enn því þetta olli miklum klofningi hjá þeim sem kenndu stílinn. Sumir tala um að það hafi verið það sem Oyama vildi, að stíllinn myndi ekki lifa af án hans.
(Heimildir fékk ég á síðunum kyokushin.com, fightingmaster.com, australiankyokushin.com og úr bók sem ég las fyrir löngu en man ekki hvað heitir)