Hæ, þetta er Jón Gunnar, sá sem hefur verið að kenna Brazilian Jiu Jitsu (BJJ) í Faxafeni 8 undanfarið ár. Ég ætla að koma með einstaklega langt innskot og svar við greininni “Matt Thornton ”Aliveness“”, ef ég má :) Sér í lagi vil ég svara “Deathblow” sem kom með marga mjög góða punkta.

Ég ákvað að hafa þetta í sér grein vegna þess hversu langt þetta varð hjá mér.

Í fyrsta lagi voru þessar æfingarbúðir MJÖG, MJÖG skemmtilegar og ég held að allir hafi lært heilmikið af þeim. Matt Thornton virtist vera mjög fínn náungi en hann er reyndar svona týpa sem liggur ekki á skoðunum sínum. Það gerir hann heiðarlegan, að því að ég best veit, sem er mikill kostur fyrir mig og Bjarna, sem ætlum að byrja að kenna BJJ og eitthvað MMA (Mixed Martial Arts) undir nafni fyrirtæki hans, “Straight Blast Gym”).
Ég var þegar byrjaður að nota hluti úr hugmyndafræði Matts á æfingum hjá mér, en núna verður þetta mótaðra og meira “professional”. Þessar áherslubreytingar verða auglýstar hér á huga og mma.is (og á öðrum stöðum) mjög fljótlega.

Athugið samt að Matt Thornton hefur sínar skoðanir, ég hef mínar eigin skoðanir og það sama gildir um Bjarna. Við þurfum ekki að vera sammála öllu eitt hundrað prósent til að geta unnið að sama markmiði og tilheyrt sama bardagalistaskóla. Ég er t.d. á því að maður ætti aldrei að halda að sú bardagalist sem maður stundar sé sú “besta”. Ég hef nokkrum sinnum gert það (ég hef æft nokkrar bardaalistir), þar á meðal með BJJ, og alltaf einhvernvegin skotið sjálfan mig í fótinn með einhversskonar rökvillu sem ég hafði haft í hausnum. Götuslagsmál eru óútreiknanleg og því mjög erfitt að bera bardagalistir saman. Allar hafa þær sína kosti og galla. Maður sem trúir í blindni á bardagalist sína er alltaf maður með veikleika. Þessi blinda trú er veikleikinn.

Þú kemur með marga góða punkta, Deathblow, og eftir skriftum þínum á huga að dæma þá skín það í gegn að þú ert skarpur strákur og skynsamur. Ég er sammála flestu sem þú segir.

Mig langaði til að koma með nokkrar athugasemdir inn í þessa umræðu.

Í fyrsta lagi erum ég og Bjarni EKKI að segja, né hugsa, að það sem við erum að kenna sé eitthvað “betra” en það sem er verið að kenna í öðrum bardagalistum. Við berum MIKLA virðingu fyrir öllum bardagalistakennurum landsins og vitum að þar er á ferðinni góður hópur manna og kvenna sem hafa eytt ótrúlegum tíma í að gera nemendur sína að betri bardagalistafólki og að betri einstaklingum. Hvernig er hægt að segja eitthvað slæmt um það? Ég æfði t.d. World Jiu Jitsu sjálfur í eitt ár fyri nokkrum árum, undir Hinrik og Don og báðir þessir kennarar hafa alla mína virðingu og aðdáun. Þeir eru góðir kennarar og góð fyrirmynd fyrir nemendur sína og í raun hvern sem er. Don var með okkur á Thornton námskeiðinu og ég hafði gaman af því að spjalla við hann og snæða hádegisverð með honum, Bjarna og Matt. Don var held ég fyrsti bardagalistakennari minn og því mun ég alltaf líta á hann sem fyrirmynd. Það seinasta sem ég vil gera er að mynda einhvern ríg á milli okkar og annarra bardagalista. Við erum öll í raun að vinna að sama markmiði, að mínu mati.

Ég tek undir það að bardagalistir ættu að gera meira fyrir fólk en að kenna því að læra að verja sig. Þetta er t.d. eitthvað sem ég hef reynt að kenna nemendum mínum í BJJ. Það að læra að “slást” ætti ekki að vera númer eitt á listanum. Í mínum huga getur það að stunda góða bardagalist hjá góðum kennara gert manni kleyft að kafa svolítið djúpt inn í sjálfa(n) sig, til að komast að því hvað í manni býr. Þetta er tækifæri til að uppgötva leynda hæfileika, þrautsegju og hugrekki sem maður vissi kannski ekki að maður hefði. Að stunda bardagalist er því fyrst og fremst áskorun á sjálfa(n) sig, tilraun til að komast nær fullkomnun á líkama og sál. Það er eitthvað sem ég hef alltaf haft áhuga á og slíkur hugsunarháttur hefur alltaf verið sterkur innan bardagalistageirans.

En sjálfsvörn mun þó alltaf verða stór hluti bardagalista. Ég viðurkenni að þó að núna sé ég fyrst og fremst að æfa vegna þess að ég finn fyrir þessarri áskorun, sem ég talaði um hér á undan, þá byrjaði ég í þessu út af tveimur ástæðum:

1. Ég var orðinn þreyttur á að heyra endalausa sögur af OFBELDI í hinum ýmsu myndum, hérlendis jafnt sem erlendis. Ég vildi ekki lengur vera mögulegt FÓRNARLAMB.

2. Ég hugsaði með mér að eitt af því sem maður yrði að gera í þessu lífi væri að fá svart belti í einhverri bardagalist, þ.e.a.s. að verða “asskicker”. Ég hafði þegar lært á gítar, skiljiði, sem var eitt af hinum hlutunum á listanum :)

Síðan þroskaðist ég svolítið og þessir hlutir urðu minna mikilvægir :)

Varðandi “aliveness”:

Ég vil benda fólki á það að þó að ein af grunnhugsununum á baki lifandi æfinga sé að æfa mikið (en ekki að öllu leyti) á móti andstæðingi sem streytist á móti, þá er MIKLU meira á bak við þessa fræði en það. Ég vil ekki að fólk kíkji á www.mma.is, lesi það sem stendur um “aliveness” og hugsi með sér “ó, svo að þessir strákar eru bara að láta fólk streytast á móti brögðunum. Hmmm? Já, ætli það sé ekki best að við förum að æfa okkar eigin bardagalist svolítið svipað”, og spái svo ekki meira í það.

Málið er að það er ekki sama HVERNIG er farið að því að æfa á móti andstæðing sem streytist á móti. Við notum t.d. oft “takmarkanir” í mótspyrnu, þ.e.a.s. andstæðingurinn má streytast á móti en bara á vissan hátt. Hann má kannski ekki nota hendurnar. Hann má kannski ekki byrja að streytast á móti fyrr en lásinn er kominn vel áleiðis.

Ef að andstæðingurinn einfaldlega STREYTIST Á MÓTI ÖLLU SEM ÞÚ ERT AÐ ÆFA, og “aliveness” er ekki notað á flóknari hátt en það, þá munu nemendurnir aldrei læra að gera brögðin, nema þeir allra sterkustu á móti þeim veikustu, því að það verður allt of erfitt. Þess vegna höfum við mótspyrnuna þannig að allir ættu að hafa góða möguleika á að gera brögðin, vegna þess að mótspyrnan er tekin í skrefum og stigum. BJJ var hannað fyrir veikari fólk á móti sterkari fólki, eins og í raun og veru allar góðar bardagalistir.

Svo er málið það að því meira sem fólk streytist á móti og því betri sem andstæðingurinn verður, þeim mun meira byrjar “bardaginn” að líkjast því sem maður sér í KEPPNUM í hinum og þessum bardagalistum. Þegar keppt er t.d. í Karate, þá sést t.d. MJÖG lítið af flóknum blokkum til að verjast höggunum og viðureignin fer að líkast hnefaleikum og sparkboxi meir og meir. Helsta ástæðan fyrir því að Karate keppnir líta ekki ALVEG eins og sparkbox er út af REGLUNUM. Það má ekki sparka til að meiða (af ráði). Í “full contact” sparkboxi, sér í lagi í Muay Thai, sést mun meira af þungum höggum og spörkum í höfuð og í læri. Flóknum blokkum, spörkum og kýlingum er hent út, vegna þess að þau virðast einfaldlega ekki virka vel á móti góðum andstæðingum.

Jafnvel þótt þú æfir þau í mörg mörg ár, virðast þau bara ekki virka eins vel eins og þau sem hafa sannað sig í “keppnisbardagalistum” eins og Full contact Karate, boxi, sparkboxi, Júdó og BJJ. Svona brögð geta verið ágæt undir vissum kringumstæðum, eins og til að koma reyndum anstæðingi svolítið á óvart, eða til að yfirbuga fullan mann með snöggum úlnliðslás, en það er skelfilega erfitt að fá þau til að virka á móti andstæðingi sem getur eitthvað slegist. Lítiði bara á hvaða bardagalistakeppni sem er, t.d. Ultimate Fighting Championship (UFC), og sjáið hvað ég á við. BJJ var náttúrulega fyrst og fremst fræg fyrir þessar UFC keppnir, þar sem mátti sjá minnsta keppandan, Royce Gracie, hreinlega valta yfir alla þá sem á vegi hans voru, stóra og hættulega menn, með því að nota BJJ. Andstæðingar hans voru kannski ekki eins góðir eins og þeir sem eru að keppa í UFC í dag, en Royce Gracie var heldur aldrei besti BJJ maður í heimi og nógu stórir voru andstæðingar hans þó, eins og t.d. Kimo, Dan Severn og Keith Hackney. Fyrir þá sem hafa ekki séð UFC, þá er hægt að leigja svona spólur á Laugarásvídeó. Ég mæli eindregið með því og þá sérstaklega að horfa á fyrstu 4 keppnirnar.

Og ef maður æfir gólfglímubrögð á móti andstæðingum sem streytast á móti og hendir reglulega út úr kerfinu þeim brögðum sem virka ekki, þá muntu að lokum enda með bardagalist sem er keimlík BJJ :)

Varðandi að nota BJJ á móti fleiri en einum árásarmanni:

Það er rétt að það hljómar betur og er sennilega betra að berjast standandi á móti mörgum í einu. Eða að hlaupa í burtu. Náttúrulega er best að reyna að forðast slæmar aðstæður þar sem slíkt gæti komið upp og reyna að tala sig út úr slagsmálum í staðin fyrir að lenda í þeim. Ég held reyndar að hnefaleikar og Muay Thai gefi manni einna bestu sénsana á því að sigra fleiri en einn andstæðing.

Þegar vopn eru komin í spilið verða málin ennþá flóknari. Og ekki má gleyma því að götuslagsmál hafa oft einhverja eftirmála í för með sér, t.d. það að fólk “hefni sín” nokkrum dögum seinna. Götubardagar eru því leiðindamál og eitthvað sem ætti einugist að gerast í hreinni sjálfsvörn í ítrustu neyð.

Staðreyndin er sú að ef þú ert að slást við tvo eða fleiri í einu, á móti einhverjum sem kunna EITTHVAÐ að slást, þá eru góðar líkur á því að þú sért, ahem, “fucked”, sama hvað. Það er einfaldlega mjög erfitt að rota alla í kringum sig eins í í bíómyndunum, þrátt fyrir mikla þjálfun. En ef þú getur MEITT einn eða tvo með snöggum höggum (já, það er erfitt að ROTA harðan andstæðing með einu höggi) og fengið hann/hana til að hræðast þig, þá áttu betri möguleika. Athugði að þó að við kennum mest megnir BJJ í tímunum mínum, þá kennum við líka eitthvað af höggum, hvernig á að verjast þeim og hvernig hægt er að ná fólki í gólfið.

Svo er líka annað, sem margir virðast ekki gera sér grein fyrir. Á móti fleiri en einum andstæðingi eru oft MEIRI líkur en áður á því að þú lendir í gólfinu, vegna þess að það er auðveldara fyrir árásarmennina að ná þér niður ef þeir eru margir á móti einum. Þar getur kunnátta í gólfbardögum kannski komið í veg fyrir að þú slasist alvarlega. Það að “vinna” götubardaga í mínum huga, ef það er hægt, er í raun og veru að slasast ekki alvarlega sjálfur – ekki að koma 30 mönnum á spítala og labba í burtu með sömu hárgreiðslu og áður.

Að lokum: Ég veit að margir segja að þeir vildu ekki “fara í gólfið í götubardaga”. Jæja, ÉG VIL EKKI LENDA Í GÖTUBARDAGA TIL AÐ BYRJA MEÐ. Ég fæ ekkert út úr því. En ef að það gerist, veit ég að ég á ágætis möguleika á að sleppa heill á húfi með þekkingu minni á BJJ. Ef að ég þarf að slást í gólfinu til að gera það, þá verður bara að hafa það. Ég mun finna adrenalínið flæða um æðar mínar, sennilega fá einhver högg á mig, þó sennilega og vonandi ekki nein góð högg. Og eftir stutt andartak af brjálæði mun ég vonandi vera heill á húfi. Ég mun þó gera mitt besta til að fá árásarmanninn til að sjá eftir árásinni og ef ráðist er á mig með það í huga að meiða mig verulega, þá mun ég heldur ekki sjá eftir því að brjóta handlegg eða setja hann í fastan lás eða svæfa hann (tímabundið, náttúrulega) með kyrkingu. Ég er mjög friðsamur maður og hef ekki lent í slagsmálum síðan ég var unglingur og það var heldur ekki oft sem það gerðist þá. En eins og ég sagði áður, ætla ég mér ekki að vera fórnarlamb líkamlegs eða andlegs ofbeldi. Ekki án þess að berjast á móti.

Síðan er alltaf erfitt að “sanna” það hversu góð bardagalist er. Segjum að ég kunni einhverja bardagalist og að ég verði einn daginn fyrir “árás” niðri í bæ. Segjum að mér takist að yfirbuga árásarmanninn og komast heill heim. HVAÐA SEGIR ÞAÐ MÉR UM BARDAGALIST MÍNA? Ekki mikið, í raun og veru. Ég hef sennilega litla hugmynd um hversu erfiður andstæðingur minn var - kannski var þetta einhver fyllibytta sem kunni ekki að slást fyrir fimmaur. Stærð árásarmannsins þarf sömuleiðis ekki endilega að gefa til kynna hversu góður slagsmálahundur hann var.

Það sem segir kannski meira um bardagalistina sem maður stundar, er hvernig manni gengur að glíma eða “sparra” við FÉLAGA manns sem æfa með manni í hverri viku. Við erum með fólk af öllum stærðum og gerðum á æfingunum mínum en sumir strákanna erum mjög sterkir og harðir í horn að taka, þannig að maður fær góða æfingu í því að eiga við sterka andstæðinga. Það er ekkert nema gott um það að segja.

Og á æfingunum mínum glíma allir með góðu hugarfari, vinskap og drengskap. Allt annað en súpergóður mórall er ekki liðinn og það hefur alltaf verið þannig hjá mér. Við eru ekki með einhvern “fight club” eða eitthvað álíka heimskulegt. Okkur langar til að að koma þessari einstöku og skemmtilegu bardagalist, Brazilian Jiu Jitsu, á kortið á Íslandi og tímarnir okkur ættu að hafa eitthvað fyrir alla. Við leggjum áherslu á kennslu fyrir VENJULEGT fólk, sem er kannski ekki í einhverju rosalegu formi en ekki bara fyrir 22 ára, sterka og orkumikla íþróttamenn, þó að þeir eigi eftir að finna sig vel hjá okkur líka. Við ætlum líka að vera með virkt félagslíf í kringum þetta til að virka vinskapinn í hópnum. Það hefur þegar gerst nokkrum sinnum og var mjög skemmtilegt.

Ég hvet því sem flesta til að mæta í ókeypis prufutíma hjá okkur í Faxafeni 8. Kannski ættum við að hefja þetta Matt Thornton samstarf með því að bjóða upp á kaffi og kleinur eftir einhvern tíma, snemma í september? :)

Kveðja,

Jón Gunnar Þórarinsson.