Góður árangur hjá Birni í París Grein fengin frá Taekwondo.is
_________________________________

Góðu r árangur hjá Birni í París

Góður árangur íslensks íþróttamanns á heimsúrtökumóti í Taekwondo fyrir Ólympíuleikana í Aþenu á næsta ári.

Síðastliðna viku fór fram heimsúrtökumót í Taekwondo vegna Ólympíuleikanna á næsta ári. Á mótið fóru þrír landsliðskeppendur frá Íslandi, Björn Þ. Þorleifsson og Gauti Már Guðnason báðir úr Björk í Hafnarfirði, og Auður Anna Jónsdóttir, Ármanni. Með hópnum voru Snorri Hjaltason formaður TKÍ, Sverrir Tryggvason landsliðsþjálfari og Master Kyung Sik Park yfirkennari Auðar Önnu, Gauta og Björns. Gauti og Anna komust því miður ekki í gegnum fyrstu umferð mótsins en besta árangri íslensku keppendanna náði Björn, en hann varð í 8. sæti í sínum þyngdarflokki -80 kg.

Björn vann það einstaka afrek að sigra Yang Liu frá Kína í bráðabana að loknum þremur lotum í fyrstu umferð. Eftir venjulegan bardagatíma voru þeir Björn og Yan Liu jafnir 5-5 og fór þá fram bráðabani, sem Björn vann á gullstigi. Yang Liu er kínverskur meistari og núverandi Asíumeistari, hann varð í 8. sæti á nýafloknu heimsmeistaramóti í Taekwondo sem haldið var í París. Kínverjar áttu eitt sterkasta lið mótsins, en af fjórum keppendum þeirra náðu þrír að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum á næsta ári.

Í seinni bardaga sínum keppti Björn við mjög erfiðan andstæðing, Angel Valdia Matos Fuentes frá Kúbu, en hann er núverandi Heimsmeistari og Ólympíumeistari, auk þess sem hann er Kúbumeistari og núverandi Pan-American meistari. Viðureign þeirra Björns var æsispennandi en lyktaði því miður með 1-0 sigri Kúbverjans.

109 þjóðir sendu keppendur á heimsúrtökumótið í París, en hver þjóð má aðeins senda tvo karla og tvær konur til þátttöku á mótinu. Fjögur efstu sætin í hverjum þyngdarflokki gáfu keppnisrétt á Ólympíuleikana á næsta ári.

Í febrúar 2004 fer fram Evrópuúrtökumót fyrir Ólympíuleikana og þar komast þeir áfram sem ná 1.-3. sæti í sínum þyngdarflokki. Á heimsúrtökumótinu í París náðu tveir keppendur í -80 kg flokki frá Evrópu að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum. Eftir að Evrópuúrtökumótinu líkur munu því alls 5 keppendur frá Evrópu hafa rétt til þátttöku í -80 kg flokki á Ólympíleikunum 2004. Það er einlæg von þeirra sem standa að Taekwondo-íþróttinni á Íslandi að Björn Þ. Þorleifsson verði einn þeirra og fái þann stuðning sem til þarf.

Á myndinni er Björn í bláu og Yang Liu í rauðu.

Texti: Jón Ragnar Gunnarsson
Mynd: Sverrir Tryggvason

www.taekwondo.is