Taekwondo er skipt í tvo meginhluta, en þeir eru sparring og poomse. Sparring er bardagahlið íþróttarinnar en poomse er sú hlið íþróttarinnar þar sem einn aðili framkvæmir tæknilegu hlið hennar.
Tae þýðir að stökkva eða sparka eða brjóta með fætinum, Kwon þýðir að kýla eða að gera árás með hendinni eða hnefanum, Do þýðir heimspekilegur vegur eða vegir lífsins. Þetta er mjög lýsandi fyrir íþróttina því í Taekwondo er ekki aðeins lögð áhersla á hreysti líkamanns heldur einnig á jafnvægi hugans og ræktun sálarinnar. En Taekwondo fékk einmitt viðurkenningu frá I.C.S nefnidinni árið 1981 fyrir góð áhrif á sálarlíf iðkenda, barna jafnt sem fullorðinna.
Taekwondo kom til Evrópu á seinni hluta sjöunda áratugarins og hefur síðan þá dreifst út um allan heim. 1968 kom Taekwondo til Danmerkur og héldu Danir meðal annars 6. heimsmeistaramót Taekwondo 1983 .
Taekwondo er nú viðurkennd ólympíuíþrótt af Alþjóðalega Ólympíuráðinu og var sýningaríþrótt árin 1988 og 1992. Taekwondo var keppnisíþrótt í fyrsta skipti á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000.
Taekwondo kom hingað til lands 1974. Til ársins 1978 var Taekwondo aðeins stunduð á Keflavíkurflugvelli. Fyrsta íslenska félagið, Dreki var stofnað árið 1987 af Master Steven Hall í Hafnarfirði. Taekwondo varð aðili að íþróttasambandi Íslands árið 1990. Mörg félög hafa verið stofnuð síðan þá og þau félög sem eru starfandi í dag eru Afturelding, ÍR, Fjölnir, Ármann, HK, Þór, Keflavík, Selfoss, Stjarnan og Björk.
Það kemur flestum eflaust á óvart hversu mörg Taekwondo félög eru starfandi, þrátt fyrir að íþróttin sé frekar lítið þekkt .
Ég er að æfa Teakwondo með félaginu Björk og hef æft í 5 mánuði. Bara á þeim tíma hefur fjölgað gífurlega í félaginu. Sífellt fleiri eru að byrja að æfa þessa íþrótt og eykst fjöldinn nánast daglega enda afskaplega skemmtileg íþrótt.
Taekwondo á sér gríðarlega langa sögu. Íþróttin hefur þróast mjög mikið frá upphafi og hefur mátt þola margt, í raun er mikil furða að hún sé enn til. Íþróttin hefur lifað nánast eins og þjóðsaga, frá einum einstaklingi til annars.
Þú öðlast mikinn styrk og liðleika með að æfa Taekwondo. Bara á þessum 5 mánuðum hef ég bætt mig mjög mikið í íþróttinni, hef öðlast meira þol og meiri liðleika en áður.