Ég rakst á þessa grein sem ég skrifaði á mínum yngri árum. Þetta er ágætis framhald held ég af góðri grein HuBeRt um daginn. Vonandi síast eitthvað inn af þessu! Athugið að þó um framspark sé rætt þá eiga þessar jöfnur og hugsun í heild sinni eðlilega líka við um önnur spörk sem og aðrar hreyfingar.

Hreyfifræði framsparks
Undirritaðir hafa mikla reynslu af iðkun sjálfsvarnarlista og lá því beinast við að taka einhverja hreyfingu úr þeim geira íþróttanna. Við höfum lagt stund á sitthvora bardagalistina, Karate og Taekwondo og vildum við því taka fyrir tækni sem kæmi fyrir í þeim báðum og væri auk þess mjög svipuð í framkvæmd í báðum stílum. Báðar koma listirnar frá Asíu, nánar tiltekið er Karate frá Japan og Taekwondo frá Kóreu. Þær eiga sameiginlegar rætur að rekja til forn-Kína þar sem Búdda-munkar æfðu líkama sína til að geta varist árásum ræningja og rándýra. Í dag eru bardagalistirnar ótal margar en allar eiga þær þó eitt sameiginlegt, tilganginn. Hvort svo sem um er að ræða Karate, Taekwondo eða Júdó liggur sama hugsun að baki, sjálfsvörn.

Við völdum okkur fyrsta sparkið sem byrjendum er kennt í allflestum bardagalistum, svokallað framspark. Í Karate heitir sparkið Mai-Geri. Í Taekwondo heitir það Ap-Tsjagí. Þetta er grunnspark og í raun undirstaða fyrir mörg önnur flóknari spörk. Framkvæmdin er tiltölulega einföld og eru byrjendur fljótir að ná tökum á beitingu sparksins. Markmiðið er að hitta andstæðinginn í nára, maga eða undir höku með táberginu. Sparkið er þess eðlis að það fer beint fram og upp á við allan tímann og er nauðsynlegt að hraði, snerpa og liðleiki sameinist og útkoman verði n.k. svipuhreyfing (e. snap-motion). Án þessarrar svonefndu svipuhreyfingar missir sparkið allann hraða og er þ.a.l. ekki líklegt til árangurs. Hins vegar eru til útgáfur af þessarri sömu tækni sem útheimta kraft frekar en hraða og enn aðrar þar sem útlit er mikilvægasti þátturinn. Þessir áhersluþættir verða tíundaðir hér á eftir en ekki verður farið á þá nánar en svo.
Framkvæmd

Iðkandi stendur í jafnvægi með vinstri fót fram. Hann heldur krepptum hnefum upp í bringuhæð og heldur um 30 cm bili milli fóta. Hægri fæti er spyrnt upp með kálfavöðvum, hnénu er lyft upp og samtímis því er líkaminn færður fram og ber vinstri fótur þá allan líkamsþungann. Um leið og rétt er úr hnénu (tábergi þrýst fram) hallar iðkandi sér örlítið aftur á bak til að halda jafnvæginu. Tábergið er höggstaðurinn og þarf því að rétta vel úr ristinni og sveigja tærnar aftur svo vel takist til. Að þessu loknu fer fóturinn til baka sömu leið og hann fór upp. Fyrst er hnéð beygt og þá er fóturinn settur aftur niður á jörðina. Hendur eru uppi allan tímann til varnar og jafnvægis.

Hreyfigerðir & -ferlar
Hreyfingin er að öllu leyti í gegnum þverás líkamans. Hún hefst með uppspyrnu kálfavöðva, við þeim taka beygjuvöðvar mjaðma og að lokum réttivöðvar hnés sem skila höggfleti á höggstað. Hreyfikrafturinn fer því fram og upp á við allan tímann ( svipað og svipu-hreyfing á hvolfi).

Hreyfiorka
Hreyfiorkan er reiknuð út þannig:
A = F x S hreyfiorka = kraftur x vegalengd
Til að ná meiri hreyfiorku þarf því að auka bæði kraft og vegalengd. Í framsparki fer einmitt höggflöturinn lengstu mögulegu vegalengd (fram á við) til að ná sem mestum krafti í tæknina. Með því að lengja vegalengdina sem höggflöturinn fer næst meiri kraftur sbr. kúrfu Hills. Því lengri tíma sem vöðvarnir fá til að vinna, því meiri kraft geta þeir myndað. Þannig er hægt að mynda meiri kraft og fá meiri hröðun á höggflötinn þar sem bæði vegalengd og tími hjálpa til. Ef sparkið færi í beina línu, þ.e. höggflötur færi af jörðu beint til skotmarksins myndi bæði styttri tími minnka vöðvavinnuna og hraði yrði ekki jafnmikill á höggtíma (time of impact).

Stöðuorka
Stöðuorka er sú orka sem þarf til að standa í stað eða með orðum Newtons, sú orka sem þarf til að vega á móti togi jarðar. Hún er reiknuð út frá:
m x g x h massi x þyngdarafl x hæð
Sá fótur sem iðkandi stendur í þarf að mynda jafnmikinn kraft og jörðin togar í hann með til að geta staðið uppréttur. Einnig þurfa bol- og bakvöðvar að hjálpa til í þessu starfi. Annars myndi viðkomandi ekki halda jafnvægi eða einfaldlega detta niður. Það er ekki gæfulegt í allflestum íþróttum.

Þyngdarpunktur
Þyngdarpunkturinn er stöðugur út alla tæknina og í raun byggist rétt framkvæmd á því að hann haldist stöðugur. Með lyftingu og réttingu fótarins hækkar hann óumflýjanlega nokkuð en er þó alltaf á svipuðum stað. Með því að halda honum stöðugum og nálægt miðju líkamans fæst mestur kraftur í tæknina þar sem líkaminn getur fylgt á eftir í högginu, þ.e. líkamsþunginn fylgir högginu - fylgir kraftátt.

Hraði
Hugtakið er notað til að gefa lýsingu á hreyfingu. Hraði segir til um stefnu hreyfingu og hve ör hún er. Hraði er sýndur með einingunum m/sek eða km/klst. Hraði er nauðsynlegur í framsparki af tveimur ástæðum:
Krafturinn kemur með hraðanum sbr. annað lögmál Newtons .
F=m x a Kraftur = massi x hröðun

Einnig er algjör nauðsyn að tæknin sé framkvæmd nógu hratt til að andstæðingurinn nái ekki að sjá hana og bregðast við henni. Meðalmaður hefur viðbragðstímann 0.33-0.6 sek við áreiti eins og t.a.m. beinni árás. Því verður vel heppnuð árás að vera sneggri í framkvæmd en sem þessu nemur. Lengja má viðbragðstíma andstæðings með því að gera gabbhreyfingar en það er önnur saga og lengri.



Hröðun
Hröðun er breyting á hraða deilt með þeim tíma sem hraðabreytingin varir, þ.e. hraðabreyting hlutar á tímaeiningu kallast hröðun. Hröðun getur verið jákvæð (aukin hraði) sem og neikvæð (minnkandi hraði).
Framspark nýtir sér hröðun sem aðal-kraftgjafa. Með mikilli hröðun fæst einmitt hin svokallaða svipuhreyfing (snap-motion) sem er kjarni tækninnar. Þannig má segja að hröðun sé mikilvægasti þátturinn í tækninni.

Kraftur & vöðvavinna
Tæknin byrjar á því að hæl er lyft upp (kálfar spenntir). (mynd 1-2) Þannig hefst tæknin á yfirvinnandi vöðvavinnu (concentric) sem að leiðir af sér eftirgefandi vöðvavinnu (eccentric) þegar hnénu er lyft upp og rétt er úr fætinum. (mynd 2-3) Með því að beygja hnéð og um leið hafa ökklann niðri teygist á fjórhöfða læris sem skilar seinustu og mikilvægustu vöðvavinnunni. (mynd 3-4) Strax og fjórhöfðinn hefur skilað höggfleti fram taka aftari lærvöðvar til starfa með því að kippa höggfletinum (táberginu) strax til baka í upphaflega stöðu.(mynd 4-5)

Góð tækni
Afslöppuð-eðlileg-æfð. Til að geta beitt tækninni þarf liðleiki, snerpa og kraftur að vera til staðar. Án liðleika nær tæknin ekki nægjanlegri hæð, hraða og nákvæmni. Án snerpu nær tæknin ekki árangri þar sem andstæðingurinn er líklegri til að sjá hana fyrir og nær þ.a.l. að koma sér undan í tæka tíð. Án krafts er tæknin ekki líkleg til að ná því takmarki að “meiða” andstæðinginn.

Í raun má dæma tækni út frá tveimur hliðum í bardagalistum dagsins í dag. Í fyrsta lagi er það útlit og hreinleiki þar sem fer saman lipurð og þokki. Í öðru lagi er það virkni. Falleg tækni er tilgangslítil ef hún virkar ekki. Atriði eins og tímasetning, nákvæmni og líkamsbeiting segja til um raunverulega virkni tækninnar. Margir bestu bardagalistamenn í heimi hafa ekki fallega tækni en hún virkar. Síðan eru til margir sem hafa yfir að ráða þokkafullum hreyfingum, liðleika og stíl sem ná aldrei árangri af þeirri einföldu ástæðu að fallega tæknin virkar ekki. Má nefna sem dæmi að balletdansari er óneitanlega þokkafullur en hann mætti sín lítils í handboltaleik, hann yrði einfaldlega laminn niður. Sömu sögu er að segja um handboltamann á balletsviði. Hann yrði líklega púaður niður snemma í fyrsta þætti. Það er ekki hægt að segja að þessir tveir íþróttamenn séu lélegir, þeir eru einfaldlega á rangri hillu í annarri íþrótt. en sinni eigin. Bardagalistir eru sérstæðar að því leytinu til að báðar líkamsgerðir geta náð góðum árangri út frá sínum forsendum.

Léleg tækni
Samhæfing og tímasetning léleg, stirðar, stífar og of orkufrekar hreyfingar. Jafnvægið er lélegt og kemur það niður á tækninni sem slíkri. Til að bæta úr þessum annmörkum þarf að æfa, æfa og æfa. Með æfingunni kemur samhæfing og tímasetning. Hreyfingar verða eðlilegri og áreynsluminni og jafnvægið batnar stórum. Það er eins með bardagalistir og aðrar hreyfilistir mannlíkamans - æfing er nauðsynleg til að ná því stigi að iðkandi þurfi ekki að hugsa um hverja hreyfingu heldur geti framkvæmt hana áreynslu- og hugsunarlaust.


Sameiginlegir þættir framsparks og ristarspyrnu
Bæði tækniatriðin eru framkvæmd að mestu í gegnum þverás og er kraftáttin fram á við. Knattspyrnutæknin byggist meira upp á eftirgefandi vöðvavinnu (eccentric) en framsparkið. Framsparkið byrjar á yfirvinnandi vöðvavinnu (concentric) en endar síðan á eftirgefandi vinnu þegar ferillinn er kláraður ( í „snappinu“).

Sameiginlegt með báðum hreyfingum er 3. lögmál Newtons. Iðkandi sækir kraft til að byrja hreyfinguna í jörðina, hann fær jafnstóran mótkraft og nemur þeirri vöðvavinnu sem hann skilar í jörðina með spyrnunni. Svipaðir vöðvahópar eru að verki í báðum tilvikum utan þess að knattspyrnutæknin reiðir sig meira á bol- og skávöðva en framsparkið.

Í raun eru þetta nær sömu hreyfingarnar, munurinn er sá að knatt-spyrnumaðurinn er að sparka í jarðhæð á meðan bardagalista-maðurinn er að sparka í búkhæð. Eðlilega verða það því mismunandi vöðvar sem vinna mesta vinnuna.
Önnur atriði verð athugunar

Eins og kom fram á bls. 1 eru um aðrar útgáfur af framsparki að ræða. Helst ber að nefna: Kraftspark og Formspark.
Kraftspark er þess eðli að líkamsþunginn fylgir mun meira eftir en í venjulegu framsparki. Þannig næst meiri þyngd á höggtíma auk þess sem fóturinn fer oftast „í gegn” um skotmark. Þessi útgáfa er mikið notuð þegar verið er að brjóta t.d. steina eða spýtur. Þá er nauðsynlegt að nota allan tiltækan kraft til að ná takmarkinu. Spýtur og steinar hafa eðlilega frekar lélegan viðbragðstíma og eru því oftast á sama stað. Iðkandi þarf því ekki að leggja áherslu á hraða og getur einbeitt sér að kraftinum. Í þessarri tækni er svipuhreyfingin mun minni en áður, aðaláherslan er, eins og áður sagði, á kraft.

Formspark er öðruvísi að því leytinu til að nú vill iðkandi leggja áherslu á útlit og þokka. Þessi útgáfa sést þegar iðkandi framkvæmir framspark í formi. Form er einstaklingsæfing þar sem barist er við ímyndaðan andstæðing (Kata í Karate og Púmse í Taekwondo). Sparkið er nú öðruvísi á þann hátt að eftir svipuhreyfinguna kemur örstutt stopp í hreyfinguna. Þannig lítur tæknin betur út fyrir áhorfendur og oftast er reynt að sparka eins hátt og mögulegt er. Lítil áhersla er á kraft en frekar á hraða og hæð. Þessi tækni væri mjög ólíkleg til að ná að brjóta spýtu eða hitta andstæðing, til þess er það of hægt og veikt. Margir iðkendur eru jafnvel farnir að stöðva tæknina og halda fætinum útréttum í hálfa og upp í heila sekúndu. Þá er tæknin farin að minna um margt á ballet-tækni. Í raun má segja að margar hreyfingar í ballet séu eins og í bardagalistum, ef þær væru aðeins gerðar með öðru hugarfari.


SeungSang