Ég verð að segja að ég skil ekki hvernig er hægt að halda því fram að lögin frá 1956 banni Muay Thai. Því að það eina sem þar segir er þetta:
Lög um að banna hnefaleika (nr.92/1956)
1. gr. Bönnuð er öll keppni eða sýning á hnefaleik. Enn fremur er bannað að kenna hnefaleik.
2. gr. Bönnuð er sala og notkun hnefaleiksglófa og annarra tækja, sem ætluð eru til þjálfunar hnefaleikara. Í reglugerð skal ákveða, hvernig fara skuli með slík tæki, sem nú eru til í landinu.
3. gr. Brot gegn lögum þessum og reglugerð, settri samkvæmt þeim, skal varða sektum …1) ef ekki liggur þyngri refsing við brotinu samkvæmt öðrum lögum.
1)L. 116/1990, 27. gr.
og áhugahnefaleikalögin eru svona
Lög um áhugamannahnefaleika(nr. 9/2002)
1. gr. Heimil er keppni og sýning á áhugamannahnefaleikum. Enn fremur er heimilt að kenna áhugamannahnefaleika.
2. gr. Heimil er sala og notkun hnefaleikahanska og annarra tækja sem ætluð eru til þjálfunar áhugamannahnefaleika.
3. gr. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands setur reglur um áhugamannahnefaleika. Við samningu reglnanna skal leitast við að taka mið af ýtrustu öryggisreglum í nágrannalöndum.
4. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.
Svo að það er ekkert í lögunum sem beinlínis bannar aðrar keppni eða kennslu í öðrum íþróttum en hnefaleikum í lögunum frá 1956. Vissulega mætti túlka þetta þannig að ALLAR íþróttagreinar sem mögulega geta flokkast undir hnefaleika af einhverju tagi (t.d. Muay Thai, Kickbox, Karate o.s.frv.) séu bundnar af lögunum og eina undantekningin sé sett fram í lögum um áhugamannahnefaleika.
Hins vegar verður að taka mið af því að meginreglan hefur verið sú að túlka lögin mun þrengra en svo. Leyfð hefur verið athugasemdalaust kennsla og keppni í fjölmörgum íþróttagreinum af þessu tagi. Auk þess er það augljóst að vilji löggjafans 1956 stóð til að banna íþróttina box, enda lögin sett í kjölfar hörmulegs dauðsfalls sem rekja mátti til þeirrar íþróttagreinar sérstaklega. Ekki verður sýnt fram á að löggjafinn hafi ætlast til að orðið hnefaleikar næði yfir allar mögulegar bardagaíþróttir enda hefur túlkun laganna jafnan verið í samræmi við það.
Það er þess vegna verulega undarlegt ef nú á allt í einu að fara að flokka þetta allt undir sama hatt. Ef svo er þá þurfa menn að gera þetta:
Loka Pumping Iron og banna Jimmy að kenna…
Banna alla þjálfun og keppni í austurlenskum bardagalistum eins og karate og taekwondo…
gera upptækan lagerinn af gi æfingagöllum hjá útilífi og fitness sport…
…og svo framvegis. það sér hver maður að þetta er ekki í samræmi við þann skilning sem menn hafa hingað til lagt í þessi hnefaleikalög.
Það er ekki hægt að standa upp núna og ætla að flokka bardagalistir niður eftir geðþótta í hnefaleika eða ekki hnefaleika. það vita allir hvað þessi lög áttu að banna. og það er ekki Muay Thai frekar en Karate eða taekwondo.
Það er hins vegar kannski skiljanlegt að menn vilji koma í veg fyrir MMA bardaga en þar erum við þá farin að tala um allt aðrar forsendur og til þess þyrfti löggjafinn líka að taka sérstaklega á því máli. frjáls bardagi er ekki “hnefaleikar” í lagalegum skilningi þess orðs frekar en ég veit ekki hvað.
Íþróttafrömuðir hér á landi þurfa að gera svo vel að gera sér grein fyrir því að bardagaíþróttir eru nákvæmlega það: íþróttir sem byggja á sjálfsaga, reglum, dómurum, viðurkenndum þjálfurum og þjálfunaraðferðum, og ómældri vinnu þeirra sem eru að berjast við að ná árangri í sinni íþróttagrein.
Takið nú puttana úr eyrunum gott fólk og hlustið á það sem ég segi: Það er fleira íþróttir en fótbolti!
P.S. svona til gamans má geta þess að meðaltalstölur erlendis frá sýna að boltaíþróttirnar eru alltaf efstar á blaði varðandi fjölda sjúkrahússheimsókna vegna íþróttameiðsla. taflan frá 1997-8 er í grófum dráttum einhvern vegin svona:
Körfubolti og fótbolti á toppnum með 17% allra heimsókna
Hjólreiðar 16,1%
Skautaíþróttir 5,7%
Cheerleading 5,6%
Skíðaíþróttir 4,2%
Sundíþróttir 3,8%
Bardagalistir 2,3%
og dæmi svo hver fyrir sig :-)
obsidian