Grein fengin hjá Taekwondo Ísland www.taekwondo.is
_____________________________________ ____________
1 gull, 1 silfur og 2 brons á Norðurlandamótinu

Stjarna íslenska landsliðsins á Norðurlandamótinu 2003 var verðskuldaður sigurvegari í +68 kg unglingaflokki kvenna, Rut Sigurðardóttir frá Akureyri. Rut mætti nánast engri mótspyrnu, og sigraði með gífurlegum mun í báðum sínum bardögum, sá síðari 17 – 3.

Auður Anna Jónsdóttir mætti mjög sterkum andstæðingum í úrslitunum, og stóð uppi sem silfurmethafi eftir tvo unna bardaga og tap í úrslitabardaga á móti Saran Conde Aole frá Svíþjóð. Saran er gífurlega góð og með langa keppnisreynslu, og var naumt á muni þegar tíminn var útrunninn.

Björn Þorleifsson keppti í erfiðum riðli, og lenti á móti sterkum Svía strax í fyrsta bardaga. Björn vann bardagann öruggt en þurfti því næst að mæta í undanúrslitum Dananum Mohammed Dahmani, án efa besta keppanda mótsins Björn tapaði naumlega fyrir Mohammed í virkilega góðum bardaga, og augljóst var að þarna fóru bestu Taekwondomenn Skandinaviu. Mohammed er orðin þekktasti Taekwondomaður í Danmörku, bæði fyrir hæfileika og fyrir að láta skoðanir sínar í ljós á landsliðsþjálfaranum Bjarne. Hann er að afplána eins árs keppnisbann sem landsliðsmaður og kom á eigin vegum ásamt þjálfara sínum frá félaginu sínu í Danmörku. Í viðtali við Taekwondo Ísland sagði Mohammed: “Ég er búinn að bíða lengi eftir að fá að keppa við Björn. Ég gat það ekki á WCTT 2002 vegna meiðsla, en fékk tækifæri til þess í dag. Þetta var augljóslega dagurinn minn í dag.”. Björn tapaði á mínusstigum, en hann fékk nokkur mínusstig fyrir að falla í gólfið. Björn sagði eftirfarandi í viðtali við Taekwondo Ísland: “Ég veit núna hvað ég þarf að laga. Þetta var góður lærdómur að tapa fyrir Mohammed. Ég mun koma reynslunni ríkari í næsta bardaga á móti honum og veit hvað ég þarf að einbeita mér að.”.
Mohammed vann svo úrslitabardaga sinn á móti Jisif Souma frá Svíþjóð á æsispennandi hátt. Þess má geta að Mohammed vann úrtökumótið fyrir Ólympíukeppnina sem þýðir í raun að hann sé heimsins sterkasti Taekwondomaður í sínum flokki.

Helgi Rafn Guðmundsson stóð sig líka gífurlega vel og vann sinn fyrsta bardaga eftir virkilega spennandi keppni. Helgi sem þekktur er fyrir liðleika sinn, nýtti sér hann til hins besta og skoraði mörg tveggjastiga högg með höfuðsparki. Helgi þurfti því miður að lúta í lægri haldi í bardaga númer tvö. Hann náði þriðja sætinu í -68 kg unglingaflokki og kom því heim með brons.

Sverrir Tryggvason sagðist vera ágætlega ánægður með árangurinn en hafði vonast eftir fleiri medalíum. „Miðað við þetta landsliðið eins og það er í dag, með þennan styrkleika, þá hefði ég kannski átti von á fleiri medalíum. Við hefðum átt það fyllilega skilið, en svona er þetta bara. Ég er samt ánægður með árangurinn, og sérstaklega hjá Rut sem áttu góðan dag, og fyrir ferðina í heild.“.

Úrslit hjá íslensku vinningshöfunum:

Konur unglingar (junior +68)
1. Rut Sigurðardóttir, Ísland
2. Mona Rouckacio, Svíþjóð
3. Coral Hai, Noregi

Konur (senior -63)
1. Saran Conde Aole, Svíþjóð
2. Auður A Jónsdóttir, Ísland
3. Signe Bruun, Danmörk
3. Christina Rasmussen, Danmörk

Karlar (senior -78)
1. Mohammed Dahmani, Danmörk
2. Jisif Souma, Svíþjóð
3. Björn Þorleifsson, Ísland
3. Allan Pedersen, Danmörk

Karlar unglingar (junior -68)
1. Robert Tornberg, Svíþjóð
2. Mikael Chovanec, Svíþjóð
3. Anders Remmen, Danmörk
3. Helgi Rafn Guðmundsson, Ísland

Myndin er af íslenska hópnum.

Texti og mynd: Erlingur Jónsson