frá www.sjalfsvorn.is - Sjálfsvörn vs Lögin
Þessi grein er cópí/pesit af www.sjalfsvorn.is, en mér þykir hún eiga erindi við fleiri en aðeins jiujitsu menn / konur :)
Sjálfsvörn vs. Lögin
Sent inn þann Mánudagur 12 ágúst @ 23:50:45
Eru til einhver lög um sjálfsvörn? Sá sem beitir sjálfsvörn fer yfirleitt verr útúr kærunni heldur en árásarmaðurinn, hvernig verkar þetta?
Til eru lög um neyðarvörn sem oft er kölluð sjálfsvörn í daglegu tali. Í 1. málsgrein 12. greinar almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir svo:
Það verk er refsilaust, sem menn vinna af neyðarvörn, að því leyti sem það hefur verið nauðsynlegt til þess að verjast eða afstýra ólögmætri árás, sem byrjuð er eða vofir yfir, enda hafi ekki verið beitt vörnum, sem séu augsýnilega hættulegri en árásin og tjón það, sem af henni mátti vænta, gaf ástæðu til.
Þá segir svo í 2. málsgrein sömu greinar:
Hafi maður farið út fyrir takmörk leyfilegarar neyðarvarnar, og ástæðan til þess er sú, að hann hefur orðið svo skelfdur eða forviða, að hann gat ekki fullkomlega gætt sín, skal honum ekki refsað.
Samkvæmt 12. grein er neyðarvörn lögmæt réttarvörsluathöfn einstaklings, er felur í sér nauðsynlega beina valdbeitingu gegn manni til þess að verjast eða afstýra ólögmætri árás hans á þann, sem neyðarvörninni beitir, eða einhvern annan.
Neyðarvörn réttlætir frá upphafi þann verknað, sem hún tekur til. Þar sem neyðarvörn er lögmæt eins og á stendur, bakar hún ekki refsi- eða skaðabótaábyrgð gagnvart árásarmanni. Neyðarvörn telst varnarvarsla gagnstætt bótavörslu að lokinni árás. Þessi regla um heimild einstaklinga til að taka réttarvörsluna í sínar hendur, innan tiltekinna marka, er frávik frá þeirri grundvallarreglu, að réttarvarslan sé í höndum almannavaldsins. Reglan felur í sér heimild, en ekki skyldu til neyðarvarnaraðgerða.
Neyðarvörn er því aðeins lögmæt að hún hafi verið nauðsynleg til þess að verja lögverndaða hagsmuni fyrir ólögmætri árás. Þá þarf ólögmæt árás að vera af manna völdum og vera yfirvofandi eða byrjuð, en má ekki vera afstaðin. Samkvæmt 12. grein getur árásarandlag (það sem árás beinist gegn) hvort heldur verið líkami manna eða æra. Hæpið er þó að ærumeiðingu verði svarað með líkamlegri valdbeitingu enda mundi það stangast á við fyrrgreint ákvæði um að vörnin megi ekki vera hættulegri en árásin.
Samkvæmt 1. málsgrein 12. greinar leiðir neyðarvörn til sýknu af ákæru, að því leyti sem neyðarvörnin tekur til viðbragða þess, sem henni beitir. Skylt er að sýkna, ef öll skilyrði 1. málsgreinar 12. greinar eru fyrir hendi. Hins vegar eru í 1. tölulið 1. málsgreinar og 2. málsgrein 74. greinar almennra hegningarlaga heimildir til refsilækkunar eða refsibrottfalls, ef farið er út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar, samanber 2. málsgrein 12. greinar sömu laga. Verknaður sem fellur undir 1. málsgrein 12. greinar er því lögmætur og refsilaus en verknaður sem á undir 2. málsgrein 12. greinar almennra hegningarlaga er hins vegar ólögmætur þótt ekki liggi refsing við honum.
Fullyrt er í spurningunni að sá sem beitir neyðarvörn fari yfirleitt verr út úr kæru heldur en árásarmaðurinn. Í þessari fullyrðingu kann að leynast sannleikskorn vegna þess að sönnunaraðstaða brotaþola kann að verða erfiðari en ella ef hann beitir neyðarvörn. Séu áverkar á báðum aðilum getur verið erfiðleikum bundið að sanna hver hóf átökin. Niðurstaðan verður þá ef til vill sú að báðir eru sýknaðir enda telst maður saklaus uns sekt er sönnuð samanber 2. málsgrein 70. greinar stjórnarskrárinnar.
Sem skólabókardæmi um neyðarvörn skal hér nefndur Hæstaréttardómur númer 47 frá 1957. Þar var ákærða gefið að sök að hafa slegið eða hrint frá sér manni, sem hann lenti í áflogum við, með þeim afleiðingum að maður þessi, I, féll aftur á bak í götuna og andaðist daginn eftir af völdum höfuðkúpubrots. Í forsendum sakadóms, sem staðfestar voru í Hæstarétti, var fjallað um ætlað neyðarvarnarverk ákærða í átökum hans við I og bróður hans, P, með svofelldum orðum:
Meðan átök þeirra ákærða og I heitins stóðu, er sannað, að P sló ákærða með tómri þriggja-pelaflösku í höfuð og herðar og hafði reitt hana til höggs að nýju, þegar ákærði sló eða hratt I þannig, að hann féll á götuna og hlaut þá áverka, sem leiddu síðar til dauða hans, enda hafði I þá ekki sleppt ákærða eða hætt árás sinni á hann, þrátt fyrir byrjaða árás P á ákærða. Eins og á stóð fyrir ákærða, þ.e. meðan hann á yfir höfði sér árás með vopni, sem gat verið lífshættulegt, þykir hann ekki hafa beitt hættulegri vörnum gegn árásarmönnum sínum en ástæða var til. Þess verður ekki krafizt, að ákærði hefði átt að sjá fyrir sem sennilegar afleiðingar varnaraðgerða sinna það hörmulega slys, sem þarna varð. Í samræmi við það, sem nú hefir verið rakið, hlýtur dómurinn og samkvæmt 1. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að sýkna ákærða af ákærunni fyrir brot á 215. gr. þeirra laga.
Halldór Gunnar Haraldsson,
Laganemi við HÍ
______________________________________________
Þet ta finnst mér soldið athyglisvert: Hafi maður farið út fyrir takmörk leyfilegarar neyðarvarnar, og ástæðan til þess er sú, að hann hefur orðið svo skelfdur eða forviða, að hann gat ekki fullkomlega gætt sín, skal honum ekki refsað.
Hað ef þetta er bardagalistamaður sem misnotar hérna aðstöðu sína. (Gefum okkar að þannig gaur sé til) Segjum að ráðist sé á Jiujitsu sensei … ehm.. frá helvíti sem vegna helvískrar illsku sinnar nýtir sér þetta tækifæri til þess að drepa andstæðing sinn, viss um að fá ekki á sig ákæru?
Er hann þá bara safe?
bara pæling…