Verið þið heil og sæl, lesendur góðir.
Eftir nokkura umhugsun hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það sé nauðsynlegt til að upphalda lágmarks gæðastöðlum á þessu áhugamáli
að ég, sem stjórnandi á þessu áhugamáli, gerist aðeins strangari þegar að kemur samþykkt á greinum, myndum og öðru innsendu efni á áhugamálinu.
Undanfarið hefur hlutfallslega nokkuð stór hluti af innsendu efni verið fyrir neðan þá lágmarkstaðla sem að ættu að gilda fyrir efnið að vera samþykkt, og
þar sem að það er aldrei gaman að hafna efni þá hef ég gerst sekur um það að samþykkja sumt efni sem að hefði ekki átt að komast inn. Því tel ég að eina lausnin
við þessu sé að verða harðari, þó að það sé ekki gaman að hafna efni, þá verður einhver að gera það og ég vona að enginn taki því persónulega ef að ég hafna einhverju
sem að sá hinn sami senti inn.
Einnig þá verð ég sem stjórnandi sjálfur að meta hvort að innsent efni sé hæft til samþykkis, og ég eins og allir aðrir geri mistök. Því
hvet ég fólk eindregið til að hafa samband við mig ef að þið eruð ekki sátt við að ég hafnaði einhverju sem að þið sentuð inn og ég mun annaðhvort útskýra hvers vegna ég
taldi viðkomandi efni ekki eiga sér stað hér inni eða viðurkenna mistök mín og samþykkja efnið undir eins. Athugið að ég er alls ekki að hvetja til þess að fólk hætti að
senda inn efni á áhugamálið. Þvert á móti þá er ég einmitt að hvetja fólk til að auka innsendingar sýnar; þó svo að sumt af því sem þið sendið inn verði hafnað þá
skiptir það ekki máli, það eru fáir sem að fá allt sem að þeir senda inn samþykkt og ég sjálfur get ekki talið mig vera einn af þeim. Áhugamálið er eftir allt saman að mestu
leiti mótað af þáttöku þeirra sem sækja áhugamálið, og því hvet ég enn og aftur fólk til að senda inn eins mikið efni og því lystir.
Einnig, ef þið hafið einhverjar hugmyndir eða athugasemdir um bætingu áhugamálsins, endilega hafið samband við mig með annaðhvort skilaboði á huga eða vefpósti á
Magicalsquiggle@bearpu.be
En nóg um það, hér fyrir neðan hef ég ákveðið að setja saman einhverskonar leiðbeiningar um hvað ég tel þessa “lágmarks staðla” vera.
Greinar:
Það geta eflaust allir verið sammála um að það er mun skemmtilegra að lesa vel samsetta grein sem inniheldur ýmist áhugaverðar upplýsingar eða skemmtilegar
og djúpar pælingar um efnið heldur en samansafn stafsetningarvillna og upptalningar á einhverju. Það er líka mun skemmtilegra fyrir ykkur sem innsendendur
að geta skoðað það efni sem að þið hafið sent hingað inn seinna meir og verið stolt af því að hafa lagt smá vinnu í samsetningu greinanna ykkar, en ekki
iðrast þess að hafa ekki lagt sig fram við smíðun greinanna og að hafa þeir liggjandi hér inni á síðunni árum saman sem minnismerki um liðna tíma.
Ég veit að ég sjálfur er ekkert svakalega stoltur af ýmsu sem að ég lét út úr mér hér á þessari síðu og öðrum þegar ég var yngri en ég er í dag.
Það er alltaf góð hugmynd að láta annaðhvort einhvern lesa yfir greinarnar ykkar áður en að þið sendið þær inn, eða í minnsta kosti að renna þeim í gegnum forrit sem að
leitar eftir stafsetningarvillum. Ég er nokkuð viss um að Word sé með þannig fítus, en ef ekki þá stend ég leiðréttur.
Einnig þá er betra að hafa greinar ekki og langar og alls ekki of stuttar. Lengra er oftast betra. Meðallengd greina sem samþykktar hafa verið undanfarið inn á áhugamálið er aðeins
styttra en ég vildi hafa hana, en yfir höfuð þá eru flestar greinar hér inni nokkuð vel að sér að lengd.
Í frekari sambandi við innihald greina, þá er hægt að skrifa ýmislegt, allt frá umsögnum um þáttaraðir sem að þið hafið klárað, dýpri pælingar í sambandi við einhverja þáttaröð,
persónu, heimspekina í kringum efnið o.fl, til upplýsinga um einhverja sérstakra teiknistýla, teiknenda, leikstjóra og margt margt fleira. Um að gera að nota ýmindunaraflið.
Ef að greinin er vel skrifuð og kemur áhugamálinu yfir höfuð á einhvern hátt við, þá verður hún eflaust samþykkt.
En í sambandi við efni sem að er ekki viðeigandi til innsendingar sem greinar, þá eru mjög stuttar greinar og illa stafsettar greinar í fararbroddi. Einnig er ýmislegt viðfangsefni
sem að ég tel einfaldlega ekki hafa nógu mikið til að vinna út úr til að hægt sé að skrifa innihaldsríka grein um, til dæmis er í afar fáum tilvikum hægt að réttlæta það að umsögn
um stakan þátt sé viðeigandi til að vera samþykkt sem grein. Dæmi um undantekningar gætu verið greinar um þáttaraðir sem að eru aðeins einn þáttur af lengd, t.d. “Hoshi No Koe” (Rödd stjarnanna) og “Pale Cocoon”.
Vert er að taka fram að ég hvet einnig alla eindregið til að horfa á þessa tvo þætti því að þeir standa fyrir sýnu, þótt að þeir séu aðeins um 20 mínútur að lengd í heild sinni.
En undantekningarnar eru fáar og því væri gott að hafa í huga að ef að þið ætlið, til dæmis, að senda inn tengil á eitthvað svakalega flott eða fyndið myndband eða að skrifa um hversu
skemmtilegur þáttur 369 af uppáhalds þáttaröðinni ykkar, þá eru korkarnir til þess. Ekki senda það inn sem grein.
En nóg um það. Þó að flestir séu nú þegar sendandi inn fínar greinar, þá er ennþá þónokkuð stórt hlutfall af því sem sent er inn sem greinar ekki nógu gott. Ég mun hins vegar á næstu dögum sjálfur senda inn
nokkrar greinar um einhverjar af áhugaverðustu þáttaröðum síðustu mánaða til að gefa frekari dæmi um hvað það er sem að ég er að leitast af.
Myndir:
Nokkuð hefur verið um innsendingar á frekar lélegum myndum undanfarið og því ætla ég frá deginum í dag að vera harðari við að hafna myndum sem að ég tel ekki eiga heima hér.
Það er erfitt að skilgreina hvað er góð mynd og hvað er léleg mynd, því að ólíkt greinum þá er ekki hægt að sjá í fljótu bragði að stafsetningin sé fráleit og þannig lagað.
Því ætla ég að setja fram nokkra punkta hér fyrir neðan sem að ákvarða upp að vissu marki hvort að mynd verður samþykkt eður ei.
Stærð myndar:
Oftast nær gildir þessi regla: Því stærri, því betri. Það eru að sjálfsögðu undantekningar hér á ferð, en ef að myndin er afar lítil þá er ólíklegt að hún verði samþykkt.
Gott er að miða við þá stærð sem að sést á forsíðu áhugamálsins áður en ýtt er á hana; ef að myndin er mikið minni en það er hún líklega of lítil.
Síðan ætla ég að benda á að hámarksstærð innsendra mynda á áhugamálið er fáranlega lítil, og því hef ég ákveðið að bjóða upp á þá þjónustu að ef að þið sendið inn mjög flotta mynd
sem að þið neyddust til að minnka mikið til að hún kæmist í gegnum kerfið, og takið fram að þið hafið stærri útgáfu af henni, að hýsa þær í sinni upprunalegu stærð fyrir ykkur og setja tengil
að henni í álitsdálk fyrir myndina. Takið það fram annaðhvort í lýsingardálknum þegar að þið sendið inn myndina eða sendið myndina til mín í vefpósti á Magicalsquiggle@bearpu.be ef að þið
viljið notfæra ykkur þessa þjónustu og takið fram hvað notendanafn ykkar á huga er og ég mun senda myndina inn fyrir ykkur. Ég mun auðvitað taka fram hver það var sem að fann myndina.
Gæði myndar:
Gæði myndar er líklega sá þáttur sem að er mikilvægastur þegar að mynd er send inn. Það þarf vart að útskýra þetta betur, því betri sem gæðin eru, því betri er myndin.
Ég mæli gegn því að skjáskot séu send inn og héðan í frá verður nánast öllum skjáskotum úr þáttum/bíómyndum hafnað. Örfáar undantekningar verða hugsanlega gerðar, en ég hvet eindregið gegn því að fólk sendi inn skjáskot.
Efni myndar:
Efni myndar skiptir einnig máli. Myndir sem að sést hafa áður á áhugamálinu þurfa að vera sérlega góðar til að komast inn aftur. Sumar myndir munu aldrei vera samþykktar vegna efnis þeirra. Dæmi um það eru
myndir sem að ég vel að kalla “textamyndir”. Það eru myndir sem að hafa stóra stafi skrifaða yfir myndina til að mynda einhvern brandara eða eiga að hafa einhvern tilgang.
Dæmi um textamynd er hægt að sjá hér: http://www.bearpu.be/textamynd1.jpg http://www.bearpu.be/textamynd2.jpg
Þessar myndir eru báðar einnig skjáskot svo að þær yrði án efa aldrei samþykktar af mér.
Það eru auðvitað margir aðrir þættir sem að koma inn í þetta mál. Ég vil til dæmis hvetja til þess að fólk sendi inn myndir sem að það hefur sjálft teiknað. Þannig myndir komast inn sjálfkrafa, enda er
alltaf gaman að sjá teikningar hjá notendum áhugamálsins. Ég mun líka gera undantekningar í sambandi við í hvaða röð myndir eru samþykktar ef að þið sendið inn mynd sem tengist einhverju efni í kjölfar þess
að grein um slíkt efni hafi komið frá ykkur. T.d. ef að einhver skrifar grein um þætti sem heita “Konnichiwa oniisan” (Eftir því sem ég best veit heita engir þættir þessu nafni) og sá hinn sami sendir á sama tíma inn
mynd tengda þessum þáttum, þá fær sú mynd forgang yfir allar aðrar myndir ef að hún stenst þá gæðastaðla sem að gilda um innsendar myndir.
Einnig vil ég taka fram að ef að þið eruð ekki alveg viss hvort að myndin er nógu góð, þá skuluð þið endilega senda hana inn. Sendið inn eins mikið og þið viljið, þið
tapið engu á því ef að myndinni er hafnað.
Í lokin vil ég taka fram að flestir sem að senda inn myndir í augnablikinu eru að senda inn mjög góðar myndir, og sérstaklega má taka fram að undanfarið hafa Drown og DrDie
sent inn topp myndir sem að klikka ekki.
Áform mín um bætingar á áhugamálinu í framtíðinni:
Ég mun halda áfram að skrifa kennslustundir í Japönsku, og reyna að hafa þær tíðari heldur en þær eru nú. Ég biðst innilega afsökunar á þeim töfum sem hafa orðið en ég hef verið sérlega upptekinn undanfarið
í vinnu og öðru og því ekki haft tíma til að skrifa fleiri.
Ég hef einnig áform um að endurvekja myndbanda dálkinn sem að Vilhelm setti upp fyrir nokkrum árum og mörg ykkar muna eflaust eftir. Það mun gerast einhverntíman á næstunni ef að allt fer eftir óskum.
Í kringum miðjan Júlí næstkomandi liggur leið mín svo til Japans, og mun ég dvelja þar í fimm vikur. Ætla ég mér að skrifa pistla með myndum um ævintýri mín þar, og verður áhugavert að sjá hvernig þeir heppnast.
Þessir pistlar eiga að sýna ykkur hvernig Japan er í raun og veru, því að flest þau myndbönd og annað þess lagað sem að ganga um intarwebbinn sýna oft Japan í röngu ljósi og hafa því eflaust margir ranghugmyndir um
hvernig Japan er í raun og veru.
Að lokum vil ég hvetja fólk til að senda mér skilaboð á huga eða vefpóst á Magicalsquiggle@bearpu.be ef að þið hafið einhverjar góðar hugmyndir um endurbætur á áhugamálinu.
Og fyrir þá sem að nenna ekki að lesa textann að ofan, þá er hér útdráttur af herlegheitunum: Sendið inn fleiri greinar og myndir og hafið þær góðar.
Takk fyrir lesturinn.