Nú er komið að næstu fimm stöfunum í Hiragana skriftarkerfinu, og eru þeir að þessu sinni Ta, Chi, Tsu, Te og To. Eins og þið sjáið er Chi hálfgerð undantekning frá reglunni um að allir stafir í hverjum hópi byrji á sama samhljóða, en stafurinn er alltaf skrifaður “Chi” vegna þess að framburður hans á rómönsku letri er mun líkari “Chi” heldur en “Ti” eða jafnvel “Tchi”. Að öðru leiti er ekkert athugavert við þessa fimm stafi, nema kannski Tsu. Um þann staf gildir það sama og áður, hljóðið er einfaldlega líkara “Tsu” heldur en “Tu”. Flest ykkar þekkja líklega Japanska orðið “Tsunami” sem hefur verið tekið upp á Ensku og öðrum tungumálum, þau ykkar sem þekkja það orð vitið nákvæmlega hvað ég meina með framburði stafsins.
En hér fyrir neðan getið þið séð hvernig á að skrifa stafina fyrrnefndu:
<img src="http://www.internet.is/zydoran/hiragana4.JPG“>
Ólíkt ”Ki“ og ”Sa“, þá er best að skrifa bogann í ”Chi“ meðvitað alveg frá byrjun. Flestir eiga auðveldar með að skrifa ekki allan bogann í ”Ki“ og ”Sa“ heldur að láta hann koma að sjálfu sér þegar að skriftin er orðin ómeðvitaðri, og boginn kemur að sjálfu sér á milli striks 2 og 3 í Sa og 3 og 4 í Ki. Sjáið kafla 2 og 3 fyrir meiri upplýsingar um bogana.
En eins og áður koma hér nokkur orð til að efla orðaforðann.
Orðið ”Chikai“ þýðir nálægt, og er það mjög gagnlegt orð í Japönskunni.
Í sama dúr þá þýðir orðið ”Takai“ hátt. Það getur bæði átt við um hæð fólks, bygginga og flests annars.
Næst skuluð þið prófa að skrifa orðið ”Tsuki“, sem þýðir tungl.
Að lokum er gott að kunna orðið ”Te“, sem þýðir hönd. ”Te“ið í Karate er einmitt þetta ”Te“. Orðrétt þýðir Karate ”tóm hönd".
En ég kveð nú fram að næsta kafla, bless og hafið þið það gott.