Nafn: Chobits
Framleiðandi: CLAMP í samvinnu við Madhous Production
Útgáfuár: 2002
Fjöldi þátta: 26
Lengd þáttar: Ca. 25 min
All-women stúdíóið CLAMP er skapandi Chobits þáttanna sem að hafa vakið ágætis athygli fyrir augum þeirra sem að fylgjast eitthvað með anime af viti, en stúdíóið hefur meðal annars staðið fyrir gerð þátta og manga sería á borð við Card Captor Sakura, Angelic Layer og X TV.
Chobits gerist snemma á 22. öld og fjallar um endurupptökunemann (eða “ronin” eins það kallast víst á japönsku) Motosuwa Hideki sem að flýr sveitalífið til Tokyo til þess að læra. Á þessari öld er ekki lengur notast við tölvur til þess að surfa internetið heldur eru Persocons það allra vinsælasta núna. Persocons koma í öllum stærðum og gerðu og líta yfirleitt út eins og manneskjur, hvort sem þær eru í fullri stærð eða þá nógu litlar til þess að geta setið á öxlinni eða í brjóstvasa manns. En eins fáfróður og Hideki er um borgarlífið þá er hann líka bláfátækur og gæti ekki fengið sér Persocon þó svo hann vildi.
En kvöld eitt lendir hann í lukkupottinum þegar hann finnur sætan Persocon í ruslahaug þegar hann er á leiðinni heim til sín úr skólanum. Án umhugsunar tekur hann þessa tölvu í kvenlíki og ber hana heim til sín, þar sem hann kveikir á henni. En í ljós kemur að þessi Persocon er alveg jafn glórulaus um lífið og Hideki er um tölvur, og segir varla neitt nema “Chii” í fyrstu, og þaðan er nafn hennar komið. Í kjölfarið kemst Hideki að því að þessi sæti Persocon gæti verið meira sérstakur en nokkurn hefði grunað, og að hann sé svokallaður “Chobits”, tegund Persocons sem er með afar þróað lærdómskerfi sett upp á sér, og erfitt er að fá aðgang að Chii með því einu að tengja hana við aðra Persocona því eitthvað er innan í henni sem enginn má finna…
Þessi sería heillaði mig alveg frá byrjun, persónusköpunin var alveg ágætlega fersk og þeir persoconar sem að við fáum að kynnast í seríunni eru alveg einstakir (t.d. Sumomo sem er “mobile unit”, s.s. passar ofan í brjóstvasa og hvaðeina). Teikningarnar eru bráðsmellnar og húmorinn er eitthvað sem allir ættu að líka vel við, eða hér um bil. Reyndar leiddist mér hversu margir þættir voru í seríunni sem að höfðu engan tilgang, en það skipti mann svosem engu máli, bara meira gaman fyrir vikið. Tónlistin var það sem að vakti hvað mesta athygli mína því að hún er alveg afar sérstök og mörg lögin eru í dúr sem að ég hef ekki heyrt í öðrum sjónvarpsþáttum (þar á meðal lagið Katakoto no koi sem að hressir mann við á örskotsstundu). Opnunarþemað (Let me be with you með Round Table feat. Nino) er líka afar ávanabindandi og fáir sem ég þekki hafa ekki líkað við það. Það eru tvö endaþema í seríunni og eru þau bæði frá sama listamanni, Tanaka Rie, en hún talar líka fyrir Chii.
Ég mæli eindregið með þeessum þáttum fyrir þá sem að vilja rífa sig frá hasar og blóðslettum og fara yfir í eitthvað mýkra og skondnara.
Villi-