Það hafa eflaust flestir sem sækja þetta áhugamál heyrt minnst á Fate/stay night, Tsukihime og Type-Moon, eða séð myndir úr leikjum fyrirtækisins einhverstaðar.
En það getur reynst erfitt fyrir þá sem lesa ekki Japönsku að afla sér góðra upplýsinga um efnið við hendi, því mun ég fjalla stuttlega um Type-Moon og fara ítarlega í leik þeirra, Fate/stay night.
Fyrir nokkrum árum skrifaði maður að nafni Nasu Kinoko skáldsögu sem kallaðist “Kara no Kyoukai”. Opinbera þýðingin á nafni hennar er “Garden of Sinners” (Garður syndaranna) en orðrétt væri mín þýðing á
heiti bókarinnar “The borderline of Emptiness” (Skilmörk tómleikans). Bókin var 900 síður og var aðeins gefin út í takmörkuðu upplagi, en var endurútgefin árið 2004 vegna vinsælda Tsukihime og Fate/stay night.
Kara no Kyoukai var nefnilega hálfgerð frum útgáfa af Tsukihime, aðal persónan hét það sama og hafði sama eiginleika, en ég mun fara meira út í það seinna.
Dag einn ákvað Nasu Kinoko ásamt góðum vini sínum Takashi Takeuchi, að búa til tölvuleik af þeirri gerð sem best er hægt að lýsa sem “gagnvirkri skáldsögu”. Takashi teiknaði myndirnar og sá um grafísku hliðina, en Nasu
sá um að skrifa söguþráðinn. Þessi leikur átti eftir að bera nafnið Tsukihime, og verða best seldi og vinsælasti Doujin leikur allra tíma. (Doujin leikir eru leikir sem eru sjálfútgefnir, tvisvar á ári
er stór hátíð í Japan sem kallast Comiket, þar sem þúsundir manns koma með heimatilbúnu leikina/mangaið sitt og selja.)
Tsukihime:
Nasu og Takashi stofnuðu semsagt sinn eigin “Doujin hring”, sem er það sem hópar sem búa til sjálfútgefið efni eru kallaðir, og nefndist sá hringur “Type-Moon”. Þeir sameinuðu krafta sína og kláruðu
sinn fyrsta leik, Tsukihime, rétt fyrir Comiket í Desember 2000 þar sem þeir afhjúpuðu verkið sitt. Á þeim tíma þótti leikurinn langtum betri heldur en nokkuð sem sést hafði áður frá öðrum Doujin hringum,
og jafnvel betri heldur en margir leikir hannaðir af alvöru fyrirtækjum. Hann státaði ekki aðeins frábærri sögu, heldur innihélt hann líka mjög viðkunnalegar persónur og ótrúlegri dýpt.
Leikurinn fjallaði um strák að nafni Tohno Shiki, sem hafði þann eiginleika að sjá línur allstaðar í heiminum, og ef hann skyldi skera þessar línur í sundur þá myndi hvað það sem hann skar detta í sundur, hvort sem það væri borð,
bíll eða jafnvel manneskja. Einn góðan veðurdag kemur yfir hann einhverskonar drápshvöt, svo hann endar með því að nota eiginleika sinn til hins verra, og hann sker konu sem hann hafði aldrei hitt áður, með ofarnefndum afleiðingum. En honum átti aldeilis eftir að koma á óvart daginn eftir…
Vegna vinsælda leiksins bjuggu þeir félagar seinna til 2 aukadiska með nýjum sögum sem tengdust Tsukihime, sem kölluðust hinu frumlega nafni PLUS-DISC og Kagetsu Touya.
Tsukihime leikurinn varð hins vegar það vinsæll að árið 2003 var gefin út anime sería sem var byggð á efni leiksins, og þó hún hafi þótt góð að mati þeirra sem ekki höfðu spilað leikinn, þá voru 12 þættir einfaldlega
ekki nóg fyrir jafn djúpa og efnismikla sögu og Tsukihime, og er sú sería hötuð af lang flestum aðdáendum Type-Moon og Tsukihime. Hún rétt skoðaði aðeins yfirborð söguþráðsins og hreinlega var ekki nógu
góð framsetning á hinum litríka heim sem Nasu Kinoko hafði skapað.
En á meðan sú sería var í vinnslu hjá JC Staff, voru félagarnir hjá Type-Moon ekki slórandi. Þeir stofnuðu alvöru fyrirtæki og héldu nafninu Type-Moon, og bjuggu til leik að nafni Fate/stay night.
Fate/stay night:
Leikurinn er stórt skref upp á við miðað við Tsukihime á flestum, ef ekki öllum, sviðum. Grafíkin er betri, og er sagan ekkert smáverk heldur.
Eins og Tsukihime er leikurinn gagnvirk skáldsaga, þú eyðir meirihlutanum af spilatímanum í að lesa, en annað slagið færðu valkost um hvað skal gera næst. Þessir valkostir er margvíslegir. Þeir geta
verið smávíslegir, eins og að vera áfram í herberginu þínu fram að morgunverði, eða fara fram og hjálpa til við að búa hann til, sem getur leitt til þess að þú fáir samtal sem þú hefðir annars ekki fengið.
Valkostirnir geta einnig verið upp á líf eða dauða, þar sem rangur valkostur getur leitt til þíns eigin dauða.
En nóg um það, söguþráðurinn er ekki af verra taginu, og byrjar leikurinn á því að þú ert horfandi á bardaga frá sjónarhorni Tohsaka Rin, sem margir þekkja eflaust sem flottu stelpuna í rauða jakkanum.
Þú lest það sem hún er að hugsa og endar það með því að hún sér viðburði síðustu þriggja daga í huga sér, og lest þú í gegnum viðburði þeirra daga sem leiða upp til byrjunarinnar og útskýra hvernig hún kom
sér eiginlega í þessi vandræði sem hún er í. Stuttu eftir að þú ert búinn að minnast allra atburða síðustu daga og atburðarrásin er komin aftur á byrjunarpunkt lendir Rin í stórvægilegum vanda, og þá spilast opnunar
myndband leiksins. Eftir myndbandið vill spilandinn náttúrulega sjá hvernig Rin kemur sér úr þessum vanda, og ýtir á “start” takkann á valmyndinni sem blasir við honum. En hvað er þetta? Þú ert ekki Rin lengur?
Nei, leikurinn var í raun ekki byrjaður fyrir alvöru, þú spilar ekki Rin, heldur ert þú strákur að nafni Emiya Shirou, sem býr í sama bæ og Rin og gengur meira að segja í sama skóla. Núna er leikurinn loksins að byrja
fyrir alvöru, og voru fyrstu klukkutímarnir sem þú eyddir í leiknum með Rin aðeins til staðar til að koma bakgrunni sögunnar á framfæri og kynna persónur.
En nú er ég kominn svolítið fyrir utan efnið, ég ætlaði að segja frá söguþræðinum. Í grófum dráttum, þá fjallar sagan um Kaleiksstríðið, sem er háð í bæ að nafni Fuyuki í Japan. Markmið stríðsins? Að eignast
hinn heilaga Kaleik, sem sagt er að geti látið hvaða ósk eigandans sem er rætast. En hvernig er hægt að há stríð í meðalstórum bæ? Eru stríð ekki háð á milli landa? Þetta stríð er ekki eins og flest önnur stríð,
þáttakendurnir eru aðeins 14. Það er að segja, sjö tveggja manna lið sem samanstanda af einum “Master” (Herra) og einum “Servant” (þjóni). Herrarnir eru allir kröftugir galdramenn, og aðeins þeir bestu meðal
þeirra hafa nógu mikla krafta til að kalla fram þjón þegar tími stríðsins er kominn. Þjónarnir eru hins vegar hetjur sem af persónulegum ástæðum ákvöddu að þeir vildu komast yfir hinn heilaga Kaleik áður en þeir féllu.
Þjónarnir eru síðan af einhverjum flokki, sem ákveðst að því hvernig týpa þeir voru þegar þeir voru uppi. Flokkarnir eru: Riddarinn (Saber), Bogamaðurinn (Archer), Hestariddarinn (Rider), Galdramaðurinn (Caster),
Lensuriddarinn (Lancer), Málaliðinn (Assassin) og Vitfirrti Stríðsmaðurinn(Berserker).
En hvað hafa Rin og Shirou með þetta allt saman að gera? Jú, það vill svo til að Rin var fædd inn í fjölskyldu kröftugra galdramanna, og hafði faðir hennar tekið þátt í Kaleiksstríði áður. Því ákvað hún að taka sjálf þátt.
Hún gerist því “Herra” og framkvæmir athöfnina til að kalla fram þjón, og fær Bogamanninn. Því miður gerði hún mistök og því man Archer kallinn ekki sitt eigið nafn. Sem er það sem ég mun fjalla um í næsta lið.
Þjónarnir hafa, eins og við flest, allir nafn. En ólíkt flestum okkar halda þeir nöfnum sínum leyndum. Ástæðan fyrir því er sú, að ef að óvinur þeirra veit hvað þeir hétu þegar þeir voru lifandi, þá er möguleiki á því
að þeir kannist við sögu viðkomandi hetju, og viti því hverjir veikleikar þeirra eru, og hvaða vopn þeir báru. Hver þjónn ber nefnilega eitt eða fleiri vopn, og hafa einhverja eiginleika, sem er best að halda
leyndum frá óvininum svo þeir geti komið þeim í opna skjöldu með óvæntri árás.
Leikurinn inniheldur ótrúlegar fléttur og sagan er ekkert nema meistaraverk. Ég vil ekki skemma söguþráðinn fyrir neinum, en ég ábyrgst að flétturnar sem leikurinn inniheldur muni koma öllum spilendum á óvart.
Einnig er leiknum skipt í 3 hálfgerða parta. Þú byrjar á því að spila í gegnum “Fate”, sem er fyrsta atburðarrásin, og er miðpunktur hennar Saber og fortíð hennar. Eftir að “Fate” er klárað, getur þú byrjað
leikinn upp á nýtt og mun þá vera nýr valmöguleiki á degi 3. Ef þú velur hann munt þú fara yfir í “Unlimited Bladeworks” (UBW) atburðarrásina. Ég hreinlega get ekki sagt frá henni án þess að skemma fyrir, svo ég mun ekki gera það.
Síðan er þriðja atburðarrásin kölluð “Heaven's Feel”, og gildir það sama um hana og UBW, ég vil ekki skemma fyrir neinum. Hver atburðarrás tekur um 30 klukkutíma fyrir venjulegann Japana að lesa, en það tók mig um
80 klukkutíma að lesa í gegnum hverja atburðarrás, svo þið getið séð hversu stórbrotin þessi saga er út frá því!
En nóg um söguþráðinn, leikurinn seldist ótrúlega vel, varð reyndar best seldi leikur ársins þó hann væri fyrsti leikur sem Type-Moon gaf út sem alvöru fyrirtæki, og virt fyrirtæki eins og Key urðu
að sætta sig við annað sætið á árinu 2004. Type-Moon gáfu síðan út aukadisk sem hægt er að líkja við Kagetsu Touya fyrir Tsukihime á árinu 2005 að nafni Fate/hollow ataraxia. Í honum koma sömu persónur við sögu og í Fate/stay night,
og nokkrar nýjar bætast við. Hins vegar er efni hans mun léttara heldur en Fate/stay night, sem er frekar þungt, og sést það strax við fyrstu sín því að allar persónurnar eru enn á lífi, en við enda hverjar atburðarrásar í Fate/stay night
er meirihluti persónanna látinn.
En núna er árið 2006, og hófust sýningar á Fate/stay night anime fyrr í þessum mánuði. Að þessu sinni er Nasu Kinoko sjálfur í samstarfi við Studio Deen sem sér um gerð þáttanna, og mun serían vera 24 þættir allt í allt.
Type-Moon áhugamenn eru almennt mjög ánægðir með það efni sem sést hefur hingað til, og held ég sjálfur að þetta geti varla farið úrskeiðis eins og Tsukihime því að Nasu sjálfur mun ekki leyfa þeim að skemma meistaraverk hans.
Einnig er frekar hægt að koma efninu til skila í 24 þáttum heldur en 12 þáttum, þó að það sé pínulítið tæpt fyrir jafn innihaldsmikinn söguþráð að sýna hann í þetta “fáum” þáttum. Það sést reyndar strax
hversu mikið hefur verið klippt úr efninu til að koma því á skjáinn, en það var auðvitað óhjákvæmilegt að eitthvað væri klippt, og er niðurstaðan hingað til mjög góð. Það veit enginn nema framleiðendurnir
sjálfir nákvæmlega hvaða atburðarrás er notuð, en upp að þætti 3 virtist það vera “Fate”. Hins vegar koma fram hlutir úr UBW í þætti 4, og meira að segja smá keimur frá Heaven's Feel, svo að það er líklegt
að þeir muni reyna að blanda sögunum þremur saman að vissu leiti. Einnig var hægt að sjá í auglýsingunni fyrir þátt 5 atriði sem kemur beint úr UBW.
En nóg um það, að mínu mati var mannskapurinn sem valinn var til að tala inn á fyrir persónurnar nánast óaðfinnanlegur, flestar raddirnar passa mjög vel við hverja persónu, og eru nokkur stór nöfn
í leikarahópnum, t.d. Kawasumi Ayako. Ég mæli með því að allir kíkji á animeið, því að ef þeim tekst að gera það vel mun það án efa vera með bestu seríum ársins.
Jæja, núna hef ég farið mjög gróflega í söguþráð Fate/stay night, og vona ég að þú, lesandi, hafir haft einhverja ánægju af lestrinum. Ef ég hef vakið einhvern áhuga fyrir Fate/stay night hjá þérlesandi góður, þá mæli ég
með því að þú niðurhalir prufueintaki af leiknum sjálfum, sem þýtt hefur verið yfir á Ensku. Prufueintakið sjálft er sá partur af leiknum sem ég lýsti af ofan, parturinn þar sem sjónarhorn spilandans
er frá Rin. Hægt er að nálgast það hér: http://www.insani.org/fate.html
Ég mæli einnig með því að þið prófið leikinn þó að textinn að ofan hafi verið frekar langdreginn, það er frekar erfitt að koma því frá sér með góðu mótu hversu úthugsaður og skemmtilegur Fate og Tsukihime heimurinn er.
Sem minnir mig á það, Tsukihime og Fate/stay night gerast í sama heimi. Það má sjá tilvísanir til Tsukihime í Fate/stay night á köflum, t.d. eru Tohno og Tohsaka fjölskyldurnar lítillega skyldar.
En nú er þessi grein mín orðin frekar löng, svo ég mun stoppa hérna. Ég mæli enn og aftur með því að þið kíkjið á bæði prufueintak leiksins (og klárið það! Alveg bannað að hætta í miðjunni út af því að textinn
er frekar langdreginn á köflum, en það er alveg þess virði, seinni partur prufueintaksins er MUN betri en sá fyrri.) og anime seríuna sjálfa. Þýðing hennar er eins og stendur komin upp á þriðja þátt, en ég býst
við því að sá fjórði verði þýddur innan skams. Þættirnir eru síðan sýndir á föstudagskvöldum í Japan (Reyndar mjög snemma á laugardögum, klukkan 1:30 um morguninn) svo að þýðingin er oftast komin á sunnudögum.
-Zydoran