Það er ekki oft sem að við sjáum nunnur í brjáluðum bardögum gegn hinum illu öflum.
Rosette Christopher er nunna í The Magdalan Order sem berst gegn djöflum og dýrkendum þeirra ásamt besta vini sínum honum Chrno sem er sjálfur djöfull. Sambandið milli þeirra er mjög náið og hafa þau þekkst í 4 ár eða allt frá því að Rosette varð viðskila við yngri bróður sinn, Joshua. Rosette er nú ásamt Chrno að leita að Joshua á meðan hún skýtur djöfla í spað með byssunni sinni. Hún er algjör klaufi og hefur oftar en einu sinni verið til vandræða sem fer virkilega í taugarnar á abbadísinni.
þættirnir gerast um 1935 í Bandaríkjunum. Gonzo skrifuðu þessa þætti en þeir hafa einnig gefið frá sér Hellsing, Last Exile og Kaleidoscope.
Þessir þættir eru með þeim betri sem ég hef séð nýlega og eru stútfullir af fjöri, spennu, húmor og geta verið nokkuð myrkrir á köflum og koma manni svolítið á óvart.
Serían er 26 þættir í allt (ég held að það sé rétt) og hver þáttur um 24-25 mín. Gæðin eru æði eins og vænta má af Gonzo og talsetningin er frábær. Sem sagt frábærir þættir í alla staði.