Nafn: Onegai Twins
Framleiðandi: Genco
Útgáfuár: 2002
Fjöldi þátta: 12
Lengd þátta: Ca. 25 mín
Fyrir um það bil einu ári skrifaði ég grein um seríu sem bar nafnið Onegai Teacher. Sú sería var sýnd árið 2002 við miklar vinsældir litla fólksins í austri, og fyrir vikið hlaut sú sería það mikla hylli að aðstandendur þáttanna ákváðu að koma með sjálfstætt framhald af henni. Sumarið 2003 var frumsýnd sería sem nefnist Onegai Twins. En þrátt fyrir að sögulegur bakgrunnur seríunnar sé sá sami og í Onegai Teacher þá inniheldur Onegai Twins glænýjar persónur og glænýjan, rómantískan söguþráð sem heldur áhorfandanum við efnið.
Rúmt ár er liðið síðan geimfar sást í litlum smábæ við lítið vatn í ónefndu héraði Japans. Vegna atburðarins flykktist fjöldi fréttamanna að staðnum í þeirri von um að ná fleiri myndum af þessu, og taka viðtöl við sjónarvotta. Það voru þó ekki fréttir af fljúgandi furðuhlut sem vöktu áhuga Kamishiro Maiku, heldur var það skot af einu húsi sem hann sá í einni fréttinni. Hann ferðast þess vegna til þessa bæjar og flyst inn í þetta ákveðna hús, býr þar einn, gengur í skóla eins og krakkar á hans aldri, auk þess sem hann vinnur sem tölvunarfræðingur. Hann er þó ekki sá eini sem hefur áhuga á þessu húsi, því einn daginn bankar upp á hjá honum stelpa ein, Miina, og sem ástæðu fyrir komu sinni ber hún fyrir sig ljósmynd af stúlku og dreng á barnsaldri sitjandi fyrir framan akkúrat þetta hús, og segir að hún sé tvíburasystir hans. Í ljós kemur að Maiku á einmitt nákvæmlega eins mynd. Málin flækjast hins vegar enn frekar þegar enn ein stelpan, Karen, bankar upp á hjá honum og segist vera systir hans og hefur því til stuðnings nákvæmlega eins mynd og Maiku og Miina eiga. Hann ákveður þó að bjóða þessum stúlkum hæli hjá sér þangað til í ljós kemur hvor þeirra sé hin rétta systir. . .
Þrátt fyrir þá staðreynd að Onegai Twins hafi nýjar aðalpersónur í fararbroddi þýðir það ekki að gamlar persónur fái ekki að sjást. Mizuho Kazami kemur inn í seríuna sem aukapersóna, umsjónarkennari “þríburanna”, og Ichigo er orðin formaður nemendafélags skólans og spilar þess vegna ágætlega stórt hlutverk í henni. Hinn stórfurðulegi vinur Kusanagi Kei, Matagu, kemur inn í seríuna sem aukapersóna auk þess sem litla systir hans kemur inn sem vinkona Karenar og Miinu.
Líkt og Onegai Teacher þá er Onegai Twins með virkilega skemmtilegar teikningar. Bakgrunnar finnst mér reyndar ekki vera sem skildi, það var miklu meira sýnt af umhverfinu í Onegai Teacher en það virðist eins og Onegai Twins gerist eiginlega bara innanhúss. Ég sakna líka sárlega sci-fisins sem litaði Onegai Teacher. . .
Tónlistin í seríunni er voðalega svipuð tónlistinni úr Onegai Teacher, einhver nett dillidó lög og smá píanósláttur. Jafnvel opnunar og endaþema þáttanna eru frá sömu tónlistarmönnum og gerðu opnunar og endaþema í Onegai Teacher, þ.e.a.s. Kotoko (ásamt Hiromi Sato í þetta skipti) og Mami Kawada.
En já, allt í allt er þessi sería alveg virkilega góð. Sýrði söguþráðurinn sem ég lýsti í Onegai Twins umfjölluninni minni er reyndar að mestu leiti horfinn, en það er alveg feykinóg af rómantík og húmorinn er alveg óborganlegur. Það er alveg einstaklega mikið af dónalegum húmor.
Því miður þá er ekki ennþá búið að licensa seríuna ennþá, en ég vonast sjálfur til að Geneon fari nú að drullast til þess að gera það á næstunni svo maður geti nú keypt sér þetta meistarastykki á DVD í framtíðinni. En þangað til verður maður að láta sér nægja Onegai Teacher á DVD, en sú sería er einmitt öll komin út á DVD frá Geneon (fyrrum Pioneer), virkilega eigulegt sett fyrir alla sanna aðdáendur seríunnar. :)
Yfir og út. . .
Vilhelm