Ég rakst á þessa þætti fyrir hreint ekki svo löngu þegar ég var að leita að tónlistarmyndböndum sem byggð voru með atriðum úr Final Fantasy leikjunum. Ég var hreint ekki ósáttur við að finna þessa þætti en varð fyrir nokkrum vonbrigðum með þá. Þeir voru helst til of einhæfir. Þegar gaurinn var að hlaða ofurvopnið sitt gerði hann alltaf það sama. Hvað sem því líður fannst mér sagan og heimurinn alveg einstaklega skemmtilegur.

Sagan fjallar um tvíburana Ai og Yuu sem búa í litlum bæ í Japan. Bærinn hefur það umfram aðra bæi að hafa gott útsýni yfir dularfulla súlu sem er í flóanum. Súlan virðist hvergi byrja né heldur enda og er reyndar tengiliður í ótal marga aðra heima. Foreldrar Ai og Yuu eru vísindamenn sem eru að rannsaka þetta fyrirbæri og hafa nú týnst í einum af hinum heimunum. Ai og Yuu taka til þess bragðs að leita að foreldrum sínum og á leið sinni kynnast þau Lisu sem er dularfyllri í meira lagi. Hún segir aldrei neitt um fortíð sína heldur kemur það bara í ljós smátt og smátt þegar líður á þættina í formi endurminninga. Þau kynnast einnig manni sem er ekki síður dularfullur. Hann er kallaður Kaze, þó svo að hann hafi gleymt sínu raunverulega nafni. Við komumst þó að því fljótlega að hann er að elta einhvern uppi, hvers vegna er ekki alveg vitað þó margir fái án efa góðar hugmyndir. Kaze er útbúinn einu öflugasta vopni sem fynnst og kallast það vopn “Demon Gun”. Með blöndu af réttu skotfærunum getur þetta vopn kallað fram öflugar verur sem fáir andstæðingar geta ráðið við. Kaze slæst ekki í hópinn með sistkynunum heldur fer sína eigin leið. Samt sem áður er hann ansi klókur með að birtast á réttum stað á réttum tíma.
Hetjurnar okkar lenda síðan í hinum ýmsu ævintýrum í leitinni að foreldrum þeirra Ai og Yuu, og í leitinni að einhverju sem getur stöðvað Omega, dularfullri veru sem eyðir öllu sem á vegi hennar verður.

Það er ansi margt dularfullt í þessum þáttum, eins og sjá má á þessari grein. Þættirnir eru nokkuð góðir þó að einhæfnin skemmi verulega fyrir. Ég mæli með þessum þáttum fyrir þá sem vilja drepa tíman í ofurlítið ævintýri. Ég ætla samt ekki að segja að þetta séu bestu þættir sem ég hef séð eða að segja að allir sem hafa unun af anime ættu að horfa á þetta, því það er til svo ótal margt betra en Final Fantasy Unlimited, þó að það sé auðvitað til margt verra líka (*hóst* Pokémon *hóst*)

Kv. lundi86